Ályktanir Vestnorræna þingmannaráðsins 1992

113. fundur
Mánudaginn 22. febrúar 1993, kl. 15:55:19 (5353)

     Jóna Valgerður Kristjánsdóttir :
    Virðulegi forseti. Við erum að ræða ályktanir Vestnorræna þingmannaráðsins til Alþingis eins og venja hefur verið og frsm. hefur gert grein fyrir á undan mér.
    Ég vil sérstaklega nefna það að árið 1992 var svokallað vestnorrænt ár sem átti að vera til frekari kynningar á samstarfi milli þessara þjóða. Var það gert með því að efna til þriggja ráðstefna, einnar ráðstefnu í hverju landi. Í okkar hlut á Íslandi kom að halda kvennaþing á Egilsstöðum.
    Það var þess vegna að miklu leyti starf Vestnorræna þingmannaráðsins á sl. ári að huga að vestnorræna árinu. M.a. var gerður bæklingur þar sem störf að vestnorrænum málum voru kynnt. Ég tel að vel hafi tekist til að vinna þann bækling. Þar var mjög mikil vitneskja sett fram í stuttu máli. Við kynntum þennan bækling einnig á fundi ráðsins á Akureyri sl. sumar og virtist vera allmikill áhugi fyrir því að þeim bæklingi yrði dreift í hinum löndunum. Hann var tilbúinn til prentunar á dönsku en það kom fram hjá bæði Færeyingum og Grænlendingum að þeir vildu heldur hafa hann á sínum eigin málum.
    Því er ég að gera þetta að umtalsefni, þó að við séum ekki að ræða hér beinlínis um starf Vestnorræna þingmannaráðsins, að ein af tillögum ráðsins er um að standa að gerð aðgengilegs upplýsingaefnis um vestnorrænu löndin á færeysku, grænlensku og íslensku. Mér finnst það eitt af meginmarkmiðunum með vestnorrænu samstarfi, þau eru að sjálfsögðu fleiri, að koma á gagnkvæmri kynningu milli þessara landa. Það má gera með aðgengilegum upplýsingaritum um samstarfið og þessi lönd þar sem þess hefur orðið vart, a.m.k. á Íslandi, að ekki eru til aðgengileg upplýsingarit um Grænland sérstaklega og Færeyjar reyndar líka þó heldur meira sé til um Færeyjar. Þegar t.d. unglingum í framhaldsskólum er gert að afla sér upplýsinga um þess lönd og skrifa um þau ritgerðir eða taka þau að einhverju leyti fyrir í skólum hefur komið í ljós að á skólabókasöfnum og öðrum söfnum er mjög lítið til af aðgengilegu upplýsingaefni um þessi lönd.
    Þetta er í rauninni endurtekning á tillögu eins og frsm. gat um hér áðan. Sumar þessara ályktana eru gamlir kunningjar. Ég held að það sé ekki of oft gert að minna á að til þess að koma á góðu vestnorrænu samstarfi þurfum við að byrja hjá unga fólkinu þannig að sú kynning haldi áfram upp úr.
    Ég vil að öðru leyti taka undir þessar ályktanir og einnig nefna í sambandi við það sem ég var að tala um áðan að mér finnst líka mjög nauðsynlegt að reglurnar um Nordplus junior kerfið séu þannig að þær taki til nemendaskipta og námsferða á milli allra þessara landa en ekki bara sumra. Þess má geta að innan t.d. Nordplus junior er ekki hægt að fá styrk til námsferða frá Grænlandi til Færeyja af því að það er innan sama ríkis. Hins vegar er hægt að fá styrk til námsferða milli Íslands og Færeyja eða Grænlands og frá Færeyjum eða Grænlandi til Íslands. Einnig að í Nordjobb geta Íslendingar ekki sótt um styrk til þess að fara á þess vegum til Grænlands en 1992 var fyrsta árið sem Grænlendingum var gert kleift að sækja um Nordjobb á Íslandi og milli Færeyja og Íslands hafa verið Nordjobb-skipti. Þarna vantar því enn þá nokkuð á í reglum um að þessi nemendaskipti og styrkir séu gagnkvæmir milli allra landanna. Við höfum þess vegna vísað því til ráðherranefndar Norðurlanda að breyta þeim reglum sem gilda um styrki til nemendaferða og námsferða innan Nordplus-kerfisins þannig að það taki til allra þeirra atriða sem ég gat um áðan.
    Ég nefndi einnig áðan að kvennaþingið sem haldið var á Egilsstöðum var okkar hlutur í því að halda ráðstefnu í tilefni af vestnorrænu ári 1992. Ein af þeim tillögum sem hér eru er einnig um að landsstjórnir Færeyja og Grænlands og ríkisstjórn Íslands fylgi eftir því samstarfi sem hófst á þessum ráðstefnum þremur. Þess vegna langar mig til þess á þeim stutta tíma sem ég hef að geta um þær samþykktir sem voru gerðar á þessu vestnorræna kvennaþingi en þær voru aðallega tvær. Í raun og veru voru ekki gerðar margar ályktanir. Það var mikið rætt þarna og þetta var mjög góð kynning á milli þessara kvenna. Það kom í ljós að þetta var í fyrsta skipti t.d. sem konur af öllu Grænlandi gátu náð saman. Þær höfðu aldrei haldið ráðstefnu þannig að þær næðu saman frá hinum ýmsu hlutum Grænlands. Konur frá Vestur-, Suður- og Austur-Grænlandi náðu í fyrsta skipti saman á ráðstefnunni á Egilsstöðum. Það þótti okkur mjög merkilegt.
    Á þessari vestnorrænu ráðstefnu var samþykkt að annað vestnorrænt kvennaþing skyldi haldið 1995 og þá helst í Færeyjum. Fram að því yrði samvinna og samstarf vestnorrænna kvenna tryggt.

    Í öðru lagi var samþykkt áskorun til Norðurlandaráðs um að öll rannsóknarverkefni á þeirra vegum sem snerta konur sérstaklega tækju líka til Grænlands, Færeyja, Álandseyja og Samabyggða.
    Í þriðja lagi að tryggð yrði túlkaþjónusta á norræna kvennaþinginu sem haldin yrði í Åbo 1994. Það var ekki síst með tilliti til grænlenskra kvenna sem þessi samþykkt var gerð. ( Forseti: Ég verð að benda hv. þm. á að ljúka ræðu sinni af því að tími hennar er úti.) Já, virðulegi forseti. Þetta voru þau atriði sem ég helst vildi gera grein fyrir og ég geymi mér frekari umræðu um þetta mál þar til síðar.