Samkeppnislög

114. fundur
Þriðjudaginn 23. febrúar 1993, kl. 14:20:35 (5363)

     Jóhannes Geir Sigurgeirsson (um þingsköp) :
    Virðulegi forseti. Hér er komið að 3. umr. um frv. til samkeppnislaga sem hefur þá sérstöðu að vera öðrum þræði frv. að nýjum íslenskum samkeppnislögum sem hefur verið unnið og tekið mjög miklum breytingum í meðförum hv. efh.- og viðskn. og þar hafa allir nefndarmenn unnið sem einn að því að gera þau lög þannig úr garði að þau þjónuðu íslensku viðskiptalífi sem best.
    Í þessum lögum er einnig einn umdeildasti fylgifiskur lagasetningar vegna hins Evrópska efnahagssvæðis sem er XI. kaflinn sem fjallar um EFTA-dómstólinn og EFTA-stofnunina. Frá því að við vorum að vinna þetta í vetur hefur orðið sú breyting á að Svisslendingar hafa fellt samninginn um EES og það er í algerri óvissu hvernig þessi þáttur lítur út í endanlegri gerð.
    Nú muna menn það eflaust að þegar þetta var afgreitt hér til 2. umr., þá sat ég hjá við atkvæðagreiðslu um þennan kafla en greiddi samkeppnislögunum að öðru leyti mitt atkvæði. Það fannst mér rökrétt á þeim tíma. Mér finnst hins vegar eins og nú er komið að við vitum í raun ekki hverjar verða lyktir þessa máls, þá sé bráðnauðsynlegt að Alþingi og þingflokkar á Alþingi nái einhverju samkomulagi um það hvernig fara á með þessi mál. Ég hef þess vegna gert ítrekaðar tilraunir í viðræðum við bæði ráðherra og formann nefndarinnar að fá því framgengt að við tækjum út úr frv. þennan kafla við þessa afgreiðslu nú og það væri hinn eðlilegi framgangsmáti málsins og því beini ég til virðulegs forseta að forsætisnefnd og forustumenn þingflokkanna næðu um það samkomulagi hvernig menn færu með þau mál sem enn eru hér í vinnslu og tengjast EES. Að mínu mati er hin eina rétta málsmeðferð sú að við höldum áfram í nefndum þingsins, málefnalegri vinnu, efnislegri vinnu en síðan verði beðið með lokafrágang þessara þátta þar til það liggur ljóst fyrir hver verða afdrif hins Evrópska efnahagssvæðis. Um þetta fyndist mér að hér ætti að geta myndast samstaða. Það er, eins og einn góður þingmaður orðaði það, lagalegur sóðaskapur að ætla að fara að lögfesta hér atriði eftir atriði í íslenska löggjöf sem við síðan þyrftum að breyta þegar hin endanlega gerð EES lítur dagsins ljós. Þetta segi ég alveg burt séð frá efnislegri afstöðu til samningsins sem slíks. Ég beini því hér til virðulegs forseta að mér finnst að hin eðlilega og æskilega málsmeðferð væri sú að það væri leitað eftir samkomulagi um þætti sem þessa þannig að menn gætu afgreitt hér í friði og með samstöðu þætti sem full samstaða er um.