Verðbréfaþing Íslands

115. fundur
Miðvikudaginn 24. febrúar 1993, kl. 13:49:51 (5390)

     Ólafur Þ. Þórðarson :
    Herra forseti. Ég hygg að það sé ekki óeðlilegt þó að í tengslum við það frv. sem hér er flutt sé rætt um þá þróun sem átti að eiga sér stað í gjaldeyrisviðskiptum hjá Íslendingum. Það er verulegt umhugsunarefni þó ekki sé meira sagt að núv. hæstv. ríkisstjórn hefur ekki treyst sér til að standa við þá

ákvörðun fyrri ríkisstjórnar að auka hér frelsi í viðskiptum með gjaldeyri. Hæstv. viðskrh. hefur dregið fæturna í þessum efnum og ekki þorað að framkvæma það frelsi sem þó er undirstaða þess að hægt sé að tala um að hér sé vestræn skipan á gjaldeyrismálum. Ég tel að það sé dálítið sérstætt að Jeltsín, forseti Rússlands hefur þegar farið langt fram úr Íslendingum varðandi markaðsvæðingu. Hann hefur leyft frjálsa sölu á rúblunni, frjása sölu. Hæstv. viðskrh. væri aftarlega á merinni í rússneska þinginu. Hann væri flokkaður undir verstu íhaldsmenn sem þar finnast innan veggja. Ég skil nánast ekki hvers vegna ríkisstjórn hæstv. forsrh., Davíðs Oddssonar, treystir sér ekki til að framkvæma það frelsi í gjaldeyrismálum sem ríkisstjórn Steingríms Hermannssonar, sem talin var vera mun lengri til vinstri, lagði til. Hvað er að gerast í þessu landi? Hafa stjórnendurnir tapað trúnni á kapítalismanum og ákveðið að yfirgefa hann algerlega hvað þetta snertir? Mig undrar þetta svo að ég skil nánast ekki hvaða tilgangi það þjónar að tala um verðbréfaþing ef ekki á að vera frelsi í viðskiptum með erlendan gjaldeyri. Hér er hvergi tekið fram að þau verðbréf sem verið er að tala um þurfi að vera í íslenskum krónum. Þau hljóta þess vegna að mega vera í hvaða gjaldmiðli sem er. Og eiga þá að gilda tvær stefnur í landinu? Annars vegar stefna hæstv. viðskrh. sem hefur komið fram í þeim breytingum sem hann lagði til af áður teknum ákvörðunum og hins vegar sú stefna sem hér á að samþykkja? Ég minnist þess að þegar ég flutti um það frv. á sínum tíma að hér yrði frjáls uppboðsmarkaður á gjaldeyri þá litu flestir sjálfstæðismenn út í horn og vildu helst ekki ræða slíka hluti. Það var ekki hægt að kenna slíkar hugmyndir við kommúnisma svo mikið var víst. En alveg fráleitt að þeir hefðu áhuga á stuðningi við málið, alveg fráleitt. Frjáls sala á gjaldeyri, það kom ekki til greina. Núna í öllu talinu um frelsið þá er það staðreynd að hæstv. viðskrh. hefur dregið lappirnar, hægt á ferðinni, hann treystir ekki á kapítalismann. Hvað er að gerast?
    Ég verð að segja eins og er að ég held að þingið eigi heimtingu á að fá skýr svör frá hæstv. viðskhr.: Hvers vegna var sú ákvörðun tekin að breyta því frelsi sem búið var að ákveða að ætti að ganga í gildi núna um áramótin og ákveðið að setja hömlur á um viðskipti með gjaldeyri sem búið er að taka ákvarðanir um? Hver er tilgangurinn? Trúa menn því enn einu sinni að það sé hægt að semja um það í kjarasamningum hvert gengi íslensku krónunnar eigi að vera næstu tólf mánuðina? Er það það sem menn trúa að sé hægt að semja um? Það hlýtur þá alveg eins að vera hægt að semja um veðurfarið eftir að Alþfl. hefur tekið við stjórn Veðurstofunnar ef þetta er það sem menn hafa trú á. Auðvitað hlýtur það að vera lykilatriði ef við viljum líta svo á að hér eigi að vera vestrænt hagkerfi í þessum efnum að frelsið í gjaldeyrisviðskiptunum verði það mikið að það sé ekki hægt að falsa gengi íslensku krónunnar. En þeir sem í reynd eru í dag að vinna gegn frelsi í gjaldeyrisviðskiptunum eru um leið að lýsa því yfir að þeir vilji halda áfram á þeirri braut að falsa gegni íslensku krónunnar.