Flutningur á rekstri grunnskóla til sveitarfélaga

116. fundur
Fimmtudaginn 25. febrúar 1993, kl. 10:35:27 (5407)

     Menntamálaráðherra (Ólafur G. Einarsson) :
    Hæstv. forseti. Það er spurt hvernig ráðherra hyggist hafa eftirlit með framkvæmd grunnskólalaga ef sveitarfélögin taka alfarið við rekstri grunnskólans.
    Ekki er að svo stöddu unnt að svara því endanlega hvernig eftirliti með framkvæmd grunnskóla yrði háttað ef sveitarfélögin tækju alfarið við rekstri grunnskólans. Nú reka sveitarfélögin grunnskólann að öðru leyti en því að launakostnaður kennara er greiddur af ríkinu. Áfangaskýrsla nefndar um mótun menntastefnu liggur nú fyrir. Í tillögum hennar er lögð áhersla á aukna valddreifingu í menntakerfinu. Slík valddreifing þýðir að verkefni eru færð nær starfsvettvangi og er m.a. lagt til að grunnskólinn flytjist alfarið til sveitarfélaga. Nefndin bendir á að forsenda aukinnar valddreifingar í menntakerfinu sé að mat á skólastarfi og opinbert eftirlit verði virkt. Einungis þannig verði unnt að tryggja að lögboðinni fræðsluskyldu sé framfylgt, að allir nemendur sitji við sama borð og fái kennslu við hæfi. Þannig er lögð áhersla á að tekið verði upp heildarmat á menntakerfinu á næstu árum. Lagt er til að gerðar verði reglulegar úttektir á skólum í landinu svo að heildarmynd fáist af skólastarfinu eins og það er á hverjum tíma. Nefndin leggur til að Rannsóknastofnun uppeldis- og menntamála verði falið að gera áætlanir um slíkar úttektir og stýra þeim.
    Þá er lagt til að markvisst rannsóknar- og þróunarstarf á sviði skólamála verði eflt frá því sem nú er. Hlutverk ráðuneytis yrði að móta menntastefnu, gefa út viðmiðunarnámsskrár og hafa eftirlit með framkvæmd fræðslulaga.
    Hjá öðrum ríkjum Norðurlanda hefur rekstur grunnskóla verið færður til sveitarfélaga á undanförnum árum. Eftirlit er áfram í höndum ráðuneytis þó að útfærslan sé á ýmsa vegu. Þannig heyra t.d. eftirfarandi málaflokkar undir ráðuneyti menntamála í Svíþjóð eftir tilfærsluna: Almennt eftirlit, mat, þróunarstarf, svo og að sjá um að fræðslulögum sé framfylgt. Þar er fyrirhugað að leggja fram skýrslu á þingi þriðja hvert ár sem greinir frá stöðu skólakerfisins. Ef misbrestur er á skólahaldi hjá sveitarfélögum grípur ríkið að sjálfsögðu inn í. Í Danmörku er eftirlit einnig í höndum ráðuneytis. Víst er að litið yrði til nágrannaþjóðanna um framkvæmd slíks eftirlits en í lokaskýrslu nefndar um mótun menntastefnu mun vænta nánari tillagna um hvernig eftirliti með framkvæmd grunnskólalaga væri best hagað.