Kaup á björgunarþyrlu

117. fundur
Fimmtudaginn 25. febrúar 1993, kl. 14:37:18 (5447)

     Anna Ólafsdóttir Björnsson (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Það er ekki að ástæðulausu að þolinmæði ýmissa, bæði sem nátengdir eru þyrlumálum hjá Landhelgisgæslunni og okkar sem viljum þetta mál í gegn núna, er á þrotum. Skoðun hefur staðið allt of lengi. Hún hefur ekki skilað neinu enn þá, ekki neinu sem við höfum ekki vitað nema kannski því að það liggur nokkuð ljóst fyrir að annað tveggja mun gerast: Í fyrsta lagi vek ég athygli á því að ég nefndi að það væri alveg raunsætt að ætla sér að geta fengið fullnægjandi þyrlu sem svaraði þeim kröfum sem við þurfum að gera og telst fullnægjandi frá varnarliðinu. Þá erum við hins vegar að tala um mjög dýran grip, alveg sama hvort við förum þá leið að fá strípaðan skrokk sem ýmis búnaður er settur á. Það

kostar einfaldlega mjög mikla peninga, meiri en aðrar lausnir, og ég hef áreiðanlegar upplýsingar fyrir því. Í öðru lagi ef hér er um einhvern sparnað að ræða --- og ég tel það ekki sáluhjálparatriði að við séum að ná fram sparnaði þarna --- þá er staðan einfaldlega sú að þessi gripur uppfyllir ekki þær kröfur sem við verðum að gera til hans. Það er sérstaklega veikur hlekkur í keðjunni og það kom fram í störfum okkar í allshn. að það er ekki hægt að láta þyrlu af þessu tagi vera kyrra yfir stað í slæmum veðrum og þessar upplýsingar fengum við frá fulltrúum ráðuneytanna. Það þarf dýrari og meiri búnað til þess að það sé gert. Það skiptir máli að ræða þessi mál einfaldlega vegna þess að það er á þessum forsendum sem töf hefur orðið og þess vegna virðumst við enn þurfa að horfa upp á frekari töf ef þessi lína verður látin ráða.