Herjólfsdeilan

117. fundur
Fimmtudaginn 25. febrúar 1993, kl. 15:37:56 (5458)


     Forsætisráðherra (Davíð Oddsson) :
    Virðulegi forseti. Það var hárrétt hjá málshefjanda að mál þetta er alvarlegt og mjög vandmeðfarið en til að svara síðustu spurningu hans strax í upphafi míns máls vil ég taka fram að ríkisstjórnin hefur ekki rætt í sinn hóp um möguleika á því að leysa þetta mál með lagasetningu. Satt best að segja hlýt ég að taka fram að það er afskaplega erfitt að finna á því flöt að leysa þetta mál með lagasetningu. Það er afskaplega vandmeðfarið fyrir ríkisvaldið og meiri hlutann hér á Alþingi að setja lög til lausnar á tiltekinni kjaradeilu sem hlyti að fela það í sér að til að koma til móts við verkfall tiltekinna starfsmanna yrði gengið á hlut annarra starfsmanna sem ekki hafa með neinum hætti gengið gegn þeim rekstri sem þarna er í húfi. Þetta mál er því afskaplega vandmeðfarið.
    Ég tel mikilvægast að heimamenn, bæjaryfirvöld í Vestmannaeyjum sem þetta mál mestu varðar, leggi sig öll fram um að fá þessa aðila til þess að láta af þessu verkfalli, höfði til drengskapar þeirra og samkenndar með byggðarlaginu og vanda þess og láti af þessu verkfalli. Því þetta verkfall nær í rauninni ekki nokkurri átt þegar það er þannig upp byggt að menn eru að finna að því sérstaklega að aðrir aðilar eru komnir með laun sem liggja of nærri þeirra launum eða jafnvel í einhverjum tilvikum hærri. Menn leysa ekki slík mál með verkfalli í þessari aðstöðu.
    Við í þinginu og bæjaryfirvöld í Vestmannaeyjum hljótum því að beina þeirri eindregnu áskorun til þessara ágætu manna að þeir láti af þessu verkfalli en um leið væri sjálfsagt af hálfu stjórnar Herjólfs að lýsa því yfir, finnst mér, að menn muni leita leiða á góðum tíma til að ná sáttum í málinu.
    Ég dreg ekki neitt úr því sem hv. þm. sagði að málið er afskaplega alvarlegt og vandmeðfarið en það er vandséð með hvaða hætti ríkisvaldið getur gripið inn í. Ég vil fyrir mitt leyti lýsa því yfir að það verður ekki gert nema um það sé veruleg samstaða hér á Alþingi.