Herjólfsdeilan

117. fundur
Fimmtudaginn 25. febrúar 1993, kl. 15:55:56 (5466)

     Árni Johnsen :
    Virðulegi forseti. Ég þakka þá umræðu sem hér hefur farið fram og undirtektir manna við mikilvægi þess að þetta mál verði til lykta leitt. Þetta er meira en brýnt vandamál. Þetta er neyðarástand og

verður að bregðast við því samkvæmt því. Það er eðlilegt að menn skoði allar leiðir til hins ýtrasta og hvað sé eðlilegast í því efni. Það má draga þessa umræðu saman með orðum hæstv. forsrh. sem sagði: Þetta verkfall nær í rauninni ekki nokkurri átt. Um það snýst málið.
    Það er jafnframt rétt, sem hæstv. forsrh. sagði, að vandséð er hvernig hægt væri að grípa inn í með lagasetningum og víst er mikið vandaverk að vinna það. En það kann að vera að það þurfi að ganga til þess verks. Ýmsir hv. þm., til að mynda þingmenn Suðurlands, hafa tekið undir þau orð og eru þau samdóma því áliti sem kom fram í minni upphafsræðu.
    Hér hefur gætt nokkurs misskilnings en án þess að ég fari að fjalla hér um innviði deilunnar er það ekki rétt að meira hafi verið rætt við undirmenn en yfirmenn. Aðalsamningaviðræðurnar hafa átt sér stað við stýrimenn og Stýrimannafélag Íslands en nær engar viðræður við undirmenn. Það er hið rétta.
    Það er heldur ekki rétt að bæjarstjórn Vestmannaeyja hafi ekkert látið frá sér fara um málið. Bæjarráð Vestmannaeyja, sem er hluti af bæjarstjórn Vestmannaeyja, hefur ályktað um málið og hvatt til þess að gengið sé til samninga um gerð heildarkjarasamnings því þeir sem til þekkja sjá allir að eina lausnin í málinu er að ganga til samninga sem brúa alla þætti málsins.
    Ég vil ítreka þakkir fyrir þessa umræðu. Málið er hjá sáttasemjara og þar brennur á að komi einhver niðurstaða. Ef málið er að dómi sáttasemjara óleysanlegt þá er komið að því að kanna aðra þætti svo sem lagasetningu.