Kaup á björgunarþyrlu

117. fundur
Fimmtudaginn 25. febrúar 1993, kl. 17:13:03 (5497)

     Ingi Björn Albertsson (andsvar) :
    Virðulegur forseti. Ég bað um skýr svör. Ég tel mig ekki hafa fengið þau enn. Ég tel það ekki skýrt svar og afdráttarlaust að það standi til að gera eitt eða annað. Ég óska eftir að fá skýrt svar. Á að ganga til samninga um kaup á nýrri björgunarþyrlu eða ekki? Ekki hvort ríkisstjórnin ætli að beita sér fyrir einhverju eða ætli að standa fyrir einu eða öðru, ég vil bara fá skýrt og hreint og klárt svar við mjög einfaldri spurningu.
    Aðeins vegna þess að vitnað var hér í lagaprófessor og hans niðurstöðu í þessu máli þá vil ég nú gjarnan minna á umræðuna um EES þar sem fjölmargir lagaprófessorar gáfu sitt álit. Þá mátti aldeildis ekki hlusta á þá, ekki nema fáa útvalda. Það má sem sagt hlusta á lagaprófessora ef það hentar manni. Ef það hentar manni ekki þá er ekki hlustað á þá. Þannig er nú málið.

    Ég tel að það sé rangt hjá hæstv. forsrh. að þetta frv. hafi skaðað málið. Ég held einmitt að hér í dag séum við að vinna áfangasigur, við sem viljum björgunarþyrlu, við sem raunverulega viljum hana, vegna þess að ríkisstjórnin er að láta undan þrýstingi. Hún er að láta undan þrýstingi. Og hún mun eins og ég skynja það reyna að ganga til samninga um kaup á nýrri björgunarþyrlu vegna þessa frv. ekki vegna neins annars.