Ríkisábyrgð á bótagreiðslum vegna grófra ofbeldisbrota

117. fundur
Fimmtudaginn 25. febrúar 1993, kl. 18:00:07 (5513)

     Flm. (Sólveig Pétursdóttir) :
    Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þm. fyrir þeirra undirtektir á þessu máli og vona svo sannarlega að það fái góðar viðtökur hér í þinginu. Varðandi þau orð sem hv. 2. þm. Vestf. hafði um texta þáltill. áðan, þá vil ég m.a. benda á að það er tekið svona til orða til þess að vekja athygli á því að hugsanlega geta önnur úrræði komið til greina eins og ég nefndi áðan, t.d. að greiðsla bóta verði tengd viðurlögum. Það þarf því að athuga vel hvort einhver önnur úrræði koma til greina en að ríkið sé með þessa ábyrgð á sínum herðum. Hins vegar er þetta, eins og hér hefur komið fram áður, víða í lögum og alls staðar á Norðurlöndum og í sérstökum Evrópusamningi frá 1983. Það er því mjög trúlegt að niðurstaðan verði sú að það verði lagt til að þetta fyrirkomulag verði tekið upp að einhverju leyti.
    Ég held að það mætti binda það fyrirkomulag einhverjum skilyrðum. Það yrði að sjálfsögðu að vera sanngjarnt. Hér var sérstaklega talað um það atriði þegar tjónvaldur er eignalaus og ég held að það sé hugsanlegt að það sé gert að skilyrði því innheimtuaðgerð þarf í sjálfu sér ekki að taka svo langan tíma. Aðalatriðið er að fólk fái sínar bætur sem því hafa verið dæmar með réttu. Einnig þarf að hafa hér í huga varnaðaráhrif refsiréttar og að sjálfsögðu þarf svo að kanna kostnaðinn í þessu efni.
    Þetta er hins vegar mjög mikilvægt mál að mínu mati og ljóst að það eru mörg vandamál fyrir brotaþola þannig að ég tel brýna þörf á að þetta mál sé skoðað vel og vona að það komi sem fyrst í gegnum hið háa Alþingi sem ályktun þingsins.