Seðlabanki Íslands

118. fundur
Föstudaginn 26. febrúar 1993, kl. 11:40:45 (5529)

     Páll Pétursson (um þingsköp) :
    Frú forseti. Mér sýnist nú að þessi beiðni sé á góðum vegi og eðlilegt að búast við því að orðið verði við þeirri beiðni sem við níu þingmenn höfum lagt formlega fram. Hér er um ákaflega mikilvæga lagasetningu að ræða og er ástæða til að vanda hana. Ég ætla að biðja menn að dvelja ekki um of við það þó einhverjum kunni að finnast þetta frv. skreðarasaumað fyrir núv. hæstv. viðskrh. Seðlabankinn stendur lengi enn og það eiga sjálfsagt margir eftir að stjórna honum. Það er afar mikilvægt að nefndarmenn geti borið þær skýringar inn í þingflokkana og þingflokkarnir fái tækifæri til umræðu um svona mál. Ég hafði hugsað mér að taka til máls í þessari umræðu en það getur vel verið að mér nægi þær útskýringar sem nefndarmenn í efh.- og viðskn. koma til með að bera inn í þingflokk framsóknarmanna.
    Ég ætlaði að bera fram spurningar. Ég held að þetta frv. sé nefnilega samið undir ofurlítið öðrum kringumstæðum en nú eru orðnar. Þetta frv. var samið áður en við gerðumst aðilar að Evrópsku efnahagssvæði. Ég vísa t.d. til kaflans um bankaeftirlitið. Um V. kafla frv. segir í 29. gr. t.d.:
    ,,Bankaeftirlitið athugar bókhald og reikninga lánastofnana og annarra fjármálastofnana og kannar að öðru leyti fjárhag og starfsemi þeirra svo oft sem þurfa þykir.``
    Þetta er gott og blessað og nauðsynlegt hlutverk bankaeftirlitsins. En komi nú hér fjármálastofnanir af Evrópsku efnahagssvæði, þá skildi ég svo ráðuneytisstjórann í viðskrn. á fundi utanrmn. einhvern tíma í sumar að þær væru undanþegnar. Erlendar lánastofnanir sem settu upp útibú eða væru með starfsemi hér á landi væru undanþegnar hinu íslenska bankaeftirliti. Þetta atriði þarf að vera á hreinu og um þetta t.d. ætlaði ég að spyrja. Ég held að þetta frv., sem okkur þingmönnum er að vísu nokkuð kunnugt og við höfum séð, þarfnist skoðunar og vandaðra umræðna og þar af leiðandi held ég að það séu mjög sterk rök fyrir því að verða við þeirri beiðni sem við höfum lagt fram.