Frágangur fjárlaga 1993

120. fundur
Fimmtudaginn 04. mars 1993, kl. 10:50:31 (5578)

     Kristinn H. Gunnarsson :
    Virðulegi forseti. Þetta mál er alveg kristaltært í mínum huga. Það er enginn vafi á hvernig á að fara með þessa hluti út frá bókhaldslegu sjónarmiði og á engan hátt er þetta umdeilanlegt atriði. Ég vek athygli á því að ráðstöfun þessara skatta sem voru ákvarðaðir og mynda þessa 4 milljarða er á enga hátt bundin í lögunum til tiltekinna verkefna. Þetta er einfaldlega almenn tekjuöflun sem rennur í ríkissjóð og útgreiðslur fara síðan samkvæmt annarri ákvörðun.
    Með þessum rökum er alveg ljóst að tekjur af þessum tekjuskattshækkunum sem um ræðir í þessu tilviki ber að færa að fullu teknamegin og síðan er það sem ríkissjóður færir sveitarfélögum einfaldlega framlag til sveitarfélaga og getur ekki verið neitt annað. Hér er ekki um að ræða skattheimtu sveitarfélaga sem þau geta með neinu móti fært sem skatttekjur. Ég vil benda hæstv. fjmrh. á það að fullyrðingar frá ráðuneytisins hálfu í svarbréfi þess til fjárln. um að aðstöðugjaldið hafi verið lagt niður eru rangar. Aðstöðugjaldið hefur ekki verið lagt niður. Lögin um aðstöðugjald í lögum um tekjustofna sveitarfélaga eru enn í fullu gildi. Það eina sem hefur verið ákveðið er að innheimta ekki álagt aðstöðugjald árið 1993.