Sveitarstjórnarlög

121. fundur
Fimmtudaginn 04. mars 1993, kl. 11:53:36 (5595)

     Jóhann Ársælsson :
    Virðulegur forseti. Aðeins örfá orð. Ég vil þakka Kristni H. Gunnarssyni fyrir að flytja þetta frv. Ég er einn af þeim sem telja að meiri hlutinn eigi að ráða í sambandi við sameiningu sveitarfélaga. Hins vegar er þetta erfitt mál viðfangs að því leyti til að það hefur verið ákveðið með lögum að meiri hlutinn fái ekki að ráða í ýmsum sveitarfélögum, eins og hv. 5. þm. Vestf. lýsti áðan. En það er líka annað sem hefur ekki verið rætt eins mikið á þessum fundi. Það er að fari íbúafjöldinn niður fyrir 50 þá eru sveitarfélög tilneydd að sameinast án þess að fram fari yfirleitt nokkur kosning um það. Ég hef ákveðnar áhyggjur af því að ég hef heyrt ýmsa þingmenn og reyndar aðra aðila í þjóðfélaginu líka halda því fram að það eigi að hækka þessa tölu. Það eigi að lögþvinga sameiningu lítilla sveitarfélaga með því að hækka þessa tölu úr 50 upp í jafnvel 200. Ég tel það mjög slæmt mál ef menn komast að þeirri niðurstöðu því þá er auðvitað verið að valta gjörsamlega yfir vilja fólksins í þessum sveitarfélögum. Ég held að það væri mjög slæmt ef menn gerðu það. Ég tel að það þurfi að ná samkomulagi með atkvæðagreiðslu í hverju sveitarfélagi fyrir sig en ég er ekki alveg sannfærður um að einfaldur meiri hluti eigi að ráða í öllum tilvikum. Þá á ég ekki við að hjáseta eigi að gilda sem atkvæði með sameiningu heldur sé það hugsanleg leið í málinu að atkvæðagreiðsla sé gerð ógild og þurfi að fara fram aftur ef meiri hluti atkvæðisbærra manna tekur ekki þátt í henni, þ.e. ef ekki er fyrirliggjandi meiri hluti atkvæðisbærra manna annaðhvort með eða á móti tillögunni. Ég tel það svo alvarlegt mál þegar menn eru að taka afstöðu til þess hvort sveitarfélag eigi að sameinast öðru að erfitt sé að sætta sig við að minni hluti atkvæðisbærra manna taki þá ákvörðun hvort af sameiningu verður eða ekki. Þá á ég við að þar verði báðum sjónarmiðum gert jafnhátt undir höfði.
    Ég verð að taka undir með hv. 1. þm. Norðurl. v. Mér hefur fundist vera töluverður æðibunugangur á þessum sameiningarmálum. Ég tel ekki til góðs að ýta mjög hart eftir málum af þessu tagi. Ég vil meina að það hafi verið gert. Menn hafa sent nefndir allt í kringum landið og haldið fundi með stuttu millibili til þess að kynna hugmyndir um sameiningu og það er virkilega rekið á eftir þessu. Ég tel minni

röksemdir fyrir sameiningu sveitarfélaga núna en voru fyrir nokkrum árum síðan. Fyrir svo sem 20 árum voru mörg af minni sveitarfélögunum alls ófær um að sjá um bókhald, fjármálastjórn og ýmsa tæknivinnu sem tilheyrir því að reka eitt sveitarfélag. Þessi þekking hefur vaxið mjög mikið í öllum sveitarfélögum en ég vil taka það strax fram að ég er ekki að mæla á móti sameiningu sveitarfélaga af þessum ástæðum. Ég er bara að benda á að menn eiga ekki að tala í dag eins og það sé enn þá meiri ástæða til þess að reka á eftir þessu en áður. Það er það nefnilega ekki. Fjárfesting sveitarfélaganna sem hefur orðið meiri en hún ætti að vera vegna þess að sveitarfélög hafa ekki staðið saman að hlutunum er í flestum tilfellum núna orðinn hlutur og verður ekki til baka tekin þó sveitarfélögin sameinist í dag. Vissulega er eftir miklu að slægjast til að koma í veg fyrir það óhagræði sem oft verður þegar fjárfest er í skólabyggingum, höfnum eða öðrum mannvirkjum eða þjónustu á vegum sveitarfélaga sem liggja hlið við hlið og geta komið þessum málum fyrir með hagkvæmari hætti sameiginlega. Það er því eftir miklu að slægjast.
    En ég tek það aftur fram að ég tel minni ástæðu til þess að reka á eftir þessum málum í dag en var fyrir 20 árum síðan.
    Annars finnst mér að það hafi komið skýrt fram í andsvari hæstv. félmrh. áðan að hún ætlar að taka fullt tillit til vilja Samtaka sveitarfélaga og á fundi hjá þeim sem var haldinn í Keflavík fyrir stuttu, eins og hefur verið minnt á hér, var einmitt samþykkt ályktun um að meiri hluti í sveitarfélögunum ætti að fá að ráða um sameiningu. Þar með tel ég að hæstv. ráðherra hafi verið að taka undir þau sjónarmið.
    Ég vona að það náist eitthvert bærilegt samkomulag um hvernig staðið verður að þessum málum en ég minni á það sem ég sagði áðan. Við megum ekki lenda í því að fara að þvinga fámennustu sveitarfélögin með mjög afdrifaríkum hætti til sameiningar þó svo að við viðurkennum að meiri hluti eigi að fá að ráða í öðrum sveitarfélögum. Verði það niðurstaðan að það kosti að menn ætli að hækka núgildandi mörk, sem eru 50 manns, um það að sameinast öðrum sveitarfélögum finnst mér illa af stað farið.