Framkvæmdaáætlun til að ná fram jafnrétti kynjanna

121. fundur
Fimmtudaginn 04. mars 1993, kl. 15:23:03 (5638)

     Félagsmálaráðherra (Jóhanna Sigurðardóttir) :
    Virðulegi forseti. Hér hefur orðið þó nokkur umræða um jafnréttismál og er það vel. Ég tek undir með þeim sem hér hafa talað að ástæða væri til þess að fleiri hefðu verið viðstaddir þessa umræðu og að hún hefði orðið lengri.
    Sú þáltill. sem hér er til umræðu hefur nokkuð verið gagnrýnd. Ég held að það sé mikilvægt í því sambandi að þingmenn geri sér grein fyrir því að það form sem hér er tekið upp er með nokkuð öðrum hætti en hefur verið frá því að framkvæmdaáætlanir voru settar fram 1986. Þær hafa áður verið settar fram í formi skýrslu til þingsins þar sem þingið gat einungis rætt um tillöguna en ekki haft áhrif á innihaldið í nefndarstörfum eða með atkvæði sínu á þingi en nú er orðin sú breyting á. Vænti ég þess að sú nefnd sem fær þetta mál til umfjöllunar taki það til ítarlegrar skoðunar. Það er vissulega breyting að Alþingi getur hér haft áhrif á stefnumótun í jafnréttismálum.
    Ég held að það sé líka mikilvægt að þingmenn geri sér grein fyrir hvernig þetta mál er unnið. Þetta mál er unnið á þann veg að Jafnréttisráð fjallar fyrst um þetta og leggur til frumdrög að tillögum sem einstök ráðuneyti fá síðan til umfjöllunar. Ég hygg að það séu nokkuð takmörkuð áhrif, þó að félmrh. beri ábyrgð á jafnréttismálum, sem ráðherra jafnréttismála getur haft áhrif á tillöguna eins og hún er lögð fram á Alþingi eins og þetta form er útbúið. Ég held að það þurfi að koma til skoðunar hvort það sé rétta formið að setja þetta fram með þeim hætti sem Jafnréttisráð leggur hér til.
    Þessi tillaga er, eins og kom fram í mínu máli, í meginatriðum byggð á skýrslu sem síðasta ríkisstjórn lagði til og var lögð fram á Alþingi á árinu 1991 þó hún hafi í nokkrum atriðum, t.d. í menntamálunum, tekið nokkrum breytingum.
    Nokkrum spurningum var beint til mín. Það var t.d. varðandi jafnréttisáætlanirnar sem voru gerðar 1988, hvort aðeins umhvrn. hefði sett fram slíka áætlun. Það er rangt. Öll ráðuneytin hafa sett fram slíkar áætlanir. Umhvrn. var síðast eðli málsins samkvæmt vegna þess að því var ekki komið á laggirnar fyrr en síðar.
    Varðandi sveigjanlegan vinnutíma þá tek ég undir að það er mjög mikilvægt að koma á sveigjanlegum vinnutíma. Ég hygg að í allflestum jafnréttisáætlunum hafi verið kveðið á um sveigjanlegan vinnutíma og væri vissulega ástæða til að gera úttekt á því núna þegar þetta hefur verið í jafnréttisáætlunum hvaða árangri það hefur skilað. Vil ég í því sambandi taka undir það sem hv. þm. Svavar Gestsson sagði að vissulega er ástæða til að skoða það hjá hverju ráðuneyti og það komi þá fram í þessum áætlunum hvaða árangur hefur náðst.
    Varðandi karlanefndina, sem hv. þm. Kristín Ástgeirsdóttir spurði um, þá vænti ég þess og ég hef mjög rekið á eftir því að sú nefnd skilaði af sér. Ég vænti þess að ég fái skýrslu núna innan fárra daga og þá tillögu frá þeirri nefnd um aðgerðir.
    Ég vil einnig taka undir með sama þingmanni um nauðsyn vinnuverndar. Ég tel að Vinnueftirlitið hafi unnið nokkuð gott starf í því efni. Á því er reyndar hert í þeirri þáltill. sem hér er til umræðu.
    Hv. þm. Ingibjörg Sólrún Gísladóttir fullyrti að hér væri aðeins verið að fullnægja formsatriðum. Ég get vissulega tekið undir það með þingmanninum að það er auðvitað undir framkvæmdinni komið hvort

slíkar þál. skila sér. Það má vel vera og er kannski rétt að áhuginn er misjafn á jafnréttismálum, bæði hjá þingmönnum og einstaka ráðherrum. En ég hef fullan hug á því að verði þessi þáltill. samþykkt þá mun ég fylgja því fast eftir að þeim ákvæðum sem Alþingi samþykkir hér verði fylgt eftir í öllum ráðuneytum.
    Ég get út af fyrir sig tekið undir það að ég hefði viljað sjá þessa áætlun, sem hér er lögð fram, markvissari og beittari en hún er. Ég vænti þess að nefndin sem fær málið til umfjöllunar skoði einstök atriði í því hvort herða megi á tímasetningum og gera hana markvissari.
    Mér fannst hv. þm. Guðrún Helgadóttir gera nokkuð lítið úr starfsmenntamálum. Ég held að það sé óþarfi að gera það. Ég er alveg sannfærð um að starfsmenntun og öll fræðsla, ekki síst starfsmenntun og endurmenntun vegna tæknivæðingar, mun skila sér til þess að tryggja fólki meira atvinnuöryggi. Ég hygg að á margan hátt megi segja að sú starfsmenntun sem verið hefur í gangi á undanförnum árum hafi skilað sér. Ef við tökum t.d. síðasta ár þá má segja að um 6 þús. manns hafi með einum eða öðrum hætti notið góðs af þeirri starfsmenntun sem í boði var með þeirri fjárveitingu sem ætluð var á fjárlögum.
    Að lokum vil ég segja það af því að hv. þm. Guðrún Helgadóttir, sem er ekki hér stödd, virðulegi forseti, gerði í lokin á sínu máli grín að því sem fram kemur á bls. 8 og heyrir undir utanrrn. --- hún las þar upp ákveðna setningu. Ég vil gera það að mínum lokaorðum að lesa sömu setningu í skýrslu fyrrv. ríkisstjórnar um framkvæmdaáætlun til fjögurra ára sem lögð var fyrir Alþingi 1990--1991, þegar Alþb. átti sæti í ríkisstjórn. Þar kemur fram að í öllum þróunarverkefnum á vegum Þróunarsamvinnustofnunar Íslands verði sérstakur gaumur gefin að stöðu kvenna.