Greiðslur úr ríkissjóði o.fl.

121. fundur
Fimmtudaginn 04. mars 1993, kl. 17:18:27 (5651)

     Svavar Gestsson (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Ég þekki engin dæmi þess að ráðuneyti eða ráðherrar hafi haft með sjóði að gera sem ekki hafa verið færðir í ríkisreikning og fjárlög utan þeirra dæma sem tilgreind eru í einu ráðuneyti í ríkisreikningi fyrir árið 1991. ( Gripið fram í: En iðnrn.?) Það er að vísu rétt að t.d. iðnrn. og menntmrn. hafa tilteknar upphæðir til ákvörðunar en það stendur í fjárlögunum hversu háar þær eru og á því er munurinn. Ég er ekki með umræðum mínum um þetta mál að gera kröfu til þess að ráðherrar verði gerðir fjárhagslega ómyndugir að einu eða neinu leyti. Ég er hins vegar að gera kröfu til þess að settar séu skýrar reglur um það hvernig þeir eiga að starfa og við hvað á að miða. Á sumum þeim óskiptum liðum sem hafa verið í fjárlögum hefur auðvitað verið um algjörlega óeðlilegt sull að ræða, eins og við t.d. bentum á í nál. iðnn. fyrir fjárlög ársins 1992.