Greiðslur úr ríkissjóði o.fl.

121. fundur
Fimmtudaginn 04. mars 1993, kl. 17:34:00 (5657)

     Guðrún Helgadóttir :
    Hæstv. forseti. Ég held að hér hafi farið fram mjög gagnlegar umræður og í ágætu framhaldi af þeim umræðum sem hafa átt sér stað, bæði við fyrri framlögn þessa sama frv. og einnig að hluta í fjárln. Ég held þó að hér skorti enn nokkuð á í þessu frv. að hlutur framkvæmdarvaldsins annars vegar og löggjafarvaldsins hins vegar séu skýrt afmarkaðir. Auðvitað er eðlilegt og sjálfsagt eins og hér hefur fram komið að sérhver ráðherra hafi yfir einhverju fé að ráða sem nota má ef eitthvað sérstakt kemur upp og ekki var hægt að gera ráð fyrir við gerð fjárlaga. En þá er auðvitað jafnnauðsynlegt að það liggi fyrir fjárln. í hvað það fé fór.
    Af því að hv. 2. þm. Vestf. minntist á kennaraskólahúsið, sem ég tel að sé vel komið hjá Kennarasambandi Íslands, þá mætti minna á önnur dæmalaus fasteignakaup sem aldrei hafa komið neins staðar fram en ég hef gert að umræðuefni a.m.k. einu sinni ef ekki oftar. Það eru kaupin á jörðinni Flekkuvík á Vatnsleysuströnd fyrir 108 millj. sem hvergi hafa sýnt sig neins staðar á þeim plöggum sem hv. Alþingi hefur fengið að sjá. Þau voru greidd úr einum af þeim sjóðum sem hér var rætt um og ráðuneytin sum hver hafa yfir að ráða og lítil grein er gerð fyrir nema sjálfsagt til Ríkisendurskoðunar. Ég vænti þess þó að ég sé hreint ekki viss um það. Ég sé að hv. 9. þm. Reykv. hristir höfuðið og hann hefur setið í ríkisstjórn og sé virkilega svo þykir mér nú málið vera verra.
    Nú hafa menn rekist á í skýrslu Ríkisendurskoðunar hvorki meira né minna en átta sjóði, minnir mig, sem sjútvrn. eitt hefur yfir að ráða. Ég bað fyrir alllöngu síðan, reyndar áður en sú skýrsla kom, um reikninga þessara sjóða því að sumir þeirra eru tiltölulega ungir, eins og hvalveiðisjóður og hvalasjóður sem eru nýlegir sjóðir. Ég hef ekkert svar fengið enn. Það er kannski þess vegna sem ég kom hér í ræðustól að það ríkir satt best að segja heldur lítil virðing milli hv. fjárln. og starfsmanna ráðuneytanna. Þó að við sem í fjárln. sitjum séum að bera upp spurningar um málefni sem við eigum auðvitað allan rétt á að fá að vita um, þá koma svörin hreinlega ekki alltaf. Þetta er auðvitað ekki hægt að búa við.
    Fjárln. íslenska þjóðþingsins starfar allverulega öðruvísi en flestar aðrar. Nægir t.d. að nefna Noreg. Þar var hluti fjárln. í heimsókn núna fyrir skömmu og hygg ég að þeir hafi tekið eftir því að það er minnihlutamaður sem er formaður norsku fjárlaganefndarinnar. Þar taka menn fjárlagagerð ríkisins nógu alvarlega til þess að hún sé sameiginlegt áhugamál alls Stórþingsins en ekki eitthvert sérverkefni meiri hlutans og þar er hlutverk nefndarinnar miklu skýrar afmarkað. Ráðuneytismenn eru ekki á fundum með fjárlaganefndinni í Noregi. Samskipti nefndarinnar við ráðuneytin fara fram formlega og bréflega. Þar lýsir hvert ráðuneyti fjárþörf sinni fyrir næsta fjárlagaár. Það er svo þingsins að ákveða hvort farið er að þeirra óskum.
    Hér hefur miklu meira borið á því að meiri hluti fjárln. líti á sig sem afgreiðslustofnun fyrir ríkisstjórnina og þá eru mál auðvitað farin að snúast við því þá er það ríkisstjórnin sjálf sem setur sér sín eigin fjárlög en ekki þingið. Það var því ekki að ófyrirsynju að hér kom fram fyrirspurn í morgun um atriði í bókfærslu sem hreinlega voru ekki ljós þegar fjárlögin voru samþykkt hér. Það er með öllu rangt að nefndin hafi vitað um hvernig fyrirhugað var að ganga frá milljörðunum fjórum.
    Þá komum við aftur að því að hluti af því vandamáli sem nefndin á við að stríða er sú tvískipting að efh.- og viðskn. annast tekjuhliðina en fjárln. gjaldahliðina. Auðvitað ætti fjárln. að vera með yfirsýn yfir öll fjárlögin. Það er auðvitað ótækt að verið sé að afgreiða, eins og gerðist fyrir áramótin, umtalsverðar skattbreytingar og alls kyns breytingar sem hafa áhrif á fjárlögin á sama tíma og við erum að ganga frá gjaldahliðinni sem er þar með gerbreytt eins og gerðist einmitt núna.
    Síðan getum við komið að þriðja atriðinu. Við fáum í fjárln. Þjóðhagsstofnun í heimsókn og hún sýnir okkur afkomuspár. Það hefur margsinnis komið fyrir að þær breytast milli mánaða. Þegar við samþykktum fjáraukalögin fyrir 1992 var gert ráð fyrir fjárlagahalla upp á 9 milljarða. Með tilliti til þess gengum við frá fjáraukalögum. Síðan lesum við í Morgunblaðinu þegar fer að líða á janúar að fjárlagahallinn hafi alls ekki verið 9 milljarðar heldur 7,5 og það er allt annað.
    Ég tel því alveg óhjákvæmilegt að þessi munur komi fram í fjáraukalögum sem eftir á að afgreiða þegar afkoman 1992 er ljós. Það er auðvitað ekki hægt að fara á svona léttúðugan hátt með 1,5 milljarða. Það er allnokkur fjárhæð og skiptir verulega máli.
    Mín skoðun er sú, ég hef ekki setið í þessari nefnd nema á þessu kjörtímabili sem ekki er lengra komið en menn vita, að það hafi verið farið allléttúðlega með ríkisfjármál um langt, langt skeið. Menn hafa auðvitað viðurkennt þetta og á þessu var gert, hvort sem mönnum líkar betur eða verr, mikið og gott átak

í fjármálaraherratíð Ólafs Ragnars Grímssonar. Hann tók til í þessu róðaríi, ef ég mætti nota það orð. Ég man ekki betur en í hans tíð væru lögð hér fram fjáraukalög fyrir tíu ár aftur í tímann. Það má nærri geta hvaða áhuga þingmenn höfðu á fjáraukalögum sem voru vegna fjárlaga sem samþykkt voru löngu áður en þeir sjálfir komu á þing og vissu ekkert um. Þetta var því með hreinum endemum.
    Á þessu hefur orðið mikil bót og ríkisreikningur liggur nú miklu fyrr fyrir. Hann er nær mönnum í tímanum þannig að þekking manna á þeim umræddu fjármálum sem ríkisreikningur sýnir er miklu meiri en áður var.
    Auðvitað er ekki hægt að breyta þessu í einu vetfangi en það er ánægjuleg þróun að þetta er að færast til betri vegar. Ég vil taka það fram að sú breyting varð á síðasta kjörtímabili að forsetar þingsins gerðu sitt til þess að efla sjálfstæði þingsins gagnvart Ríkisendurskoðun og ráðuneytinu með því t.d. að beita sér fyrir því að starfsmaður yrði ráðinn að nefndinni. Ég er þeirrar skoðunar að það nægi engan veginn. Það kemst enginn einn starfsmaður yfir það verk sem þarna þarf að vinna. Sannleikurinn er nú sá að það skiptir engu máli hvort um er að ræða stórt eða lítið þjóðþing eða fámenna eða fjölmenna þjóð. Verkefni í nútímaþjóðfélagi og við fjárlagagerð þess þjóðfélags eru hinu sömu hvort sem um er að ræða fátt eða margt fólk. Og til þess að þetta verk sé unnið af verulegri ábyrgð þarf auðvitað fleiri starfsmenn að nefndinni. Með öllu því öðru sem við hv. þm. höfum að gera getum við engan veginn annast það eftirlit sem við þurfum í raun og veru að gera til þess að tryggt sé að farið sé með fé landsmanna á ábyrgan hátt.
    Hæstv. forseti. Ég skal ekki lengja þessa umræðu. Það er farið að halla af degi og ástæðulaust að lengja þetta meira. Þetta mál á eftir að fara til nefndar og ég held að það verði ekki um það deilt að bæði efh.- og viðskn. og fjárln. verði að skoða þetta mál og ég vænti þess að það verði gert af ábyrgð og yfirsýn.