Iðn- og verkmenntun

123. fundur
Mánudaginn 08. mars 1993, kl. 15:03:53 (5758)

     Jóhann Ársælsson :
    Virðulegur forseti. Ég held að það sé gott að þessi tillaga hefur komið fram og um hana getur orðið umræða sem vekur upp ýmislegt sem hefur oft verið rætt, bæði á Alþingi og víða í þjóðfélaginu. Það sem ég vildi leggja í þessa umræðu er að ég tel að menn hafi of mikið skipt umræðunni niður í bóknám og verknám. Það virðist vera fullt af fólki í þjóðfélaginu sem gerir sér ekki grein fyrir því að í þessu svokallaða iðnnámi er oft og tíðum falið töluvert mikið bóknám og það getur orðið mörgum ofviða að fara í gegnum sumt það nám sem menn kalla í daglegu tali verkmenntabrautir. Nægir að minna á t.d. ýmsa tæknimenntun, vélstjóranám o.fl., sem felur í sér mikla þekkingu sem menn þurfa að tileinka sér og er oft og tíðum erfiður skóli. Þess vegna tel ég að menn verði að horfast í augu við að það er ekki hægt að skipta þessu á þann veg að tala annars vegar um bóknám og hins vegar um verknám. Ég held líka að það sé svolítið óhollt fyrir umræðuna sjálfa að flokka þetta allt of mikið í sundur. Það er hægt að benda á að í vísindastarfsemi, sem menn stunda eftir háskólanám oft og tíðum, sé á ferðinni verkkunnátta ekki síður en bóknám. Ég tel að það sé þess vegna svolítið vandamál við umræðuna sjálfa sem menn þurfa að komast út úr.
    Það er enginn vafi á því að hluti af vandamálinu er að það er dýrara að mennta fólk í iðnaðarstörfum en í bóknámi. Það er náttúrlega vandamál sem hið opinbera á fyrst og fremst að glíma við. Þjóðfélagið sjálft, atvinnurekendur og þeir sem hafa áhuga á því að tileinka sér þá þekkingu sem við erum að tala um eiga hins vegar að leysa hin vandamálin. Það er engin spurning að það að menn eru ekki á leiðinni í gegnum verkmenntanám, t.d. í járnsmíði og öðru því um líku, í dag er að það er engin eftirspurn eftir fólki í þessum greinum. Það er einfaldlega þannig. T.d. hefur störfum í skipasmiðjunum fækkað stórkostlega á síðustu árum. Það er ekkert eðlilegt að menn skrái sig til náms í iðngreinum þar sem þeir hafa litla von um að fá atvinnu.
    Það er þannig að menn hafa gripið það ráð ef þeir hafa ekki séð fyrir sér að geta komist í eitthvert verknám sem þeir hafa haft áhuga á, þá velja þeir frekar bóknám vegna þess að þeir vita ekki út í hvað þeir ætla sér að fara.
    Það er enginn vafi á því að það þarf að taka þessi mál til endurskoðunar alveg frá grunni. T.d. er þetta meistarakerfi sem hefur verið í ýmsum iðngreinum orðið úrelt. Það er ekki í takt við tímann. Tæknin hefur t.d. breyst svo mikið. Ég get tekið skipasmíðar sem dæmi. Það er iðngrein sem menn voru mjög hreyknir af sumir hverjir sem lærðu hana og var í sjálfu sér töluvert mikil þekking saman komin hjá þeim sem unnu við þessar smíðar á sínum tíma. Ég get lýst því með því að segja frá samtali sem ég átti við gamlan skipasmið. Hann fussaði og sveiaði við mig þegar við vorum að ræða saman og sagði: ,,Þetta er ekki skipasmíði sem er í dag. Það þarf ekki nema málningarfötu og kúst til þess að framleiða skip. Ég kem ekki nálægt því.`` Og þá var hann að vísa til þess að menn væru farnir að framleiða skip úr trefjaplasti og þess vegna væri það ekki lengur iðngrein sem væri boðleg manni sem hefði lært það sem hann vildi kalla skipasmíði.
    Auðvitað er þetta ekki þannig. Auðvitað verður ný tækni að fá að þróast og koma fram og við verðum að standa okkur í því að fylgjast með. Það er þetta sem ég ætlaði helst að leggja í þessa umræðu. Ég tel að við þurfum að þróa einhvers konar alhliða iðnmenntun þar sem menn geta lært að verða iðnaðarmenn, þar sem mönnum er kennt að tileinka sér nýjungar og veitt alhliða þekking. Ég veit ekki hvað svoleiðis iðnaðarmaður á að heita. Það þarf fyrst og fremst að kenna honum að tileinka sér nýjungar, kenna honum helstu þætti sem nýtast í flestum iðngreinum og gefa honum þannig tækifæri til þess að verða sveigjanlegur vinnukraftur í iðnaði. Það er kannski akkúrat það sem hv. 9. þm. Reykv. var að meina þegar hann var að tala um sveigjanleika í þessu.
    Ég held að við þurfum hreinlega að búa til nýtt heiti yfir iðnaðarmenn. Það má kannski líkja því svolítið við heimilislækni eða alhliða menntaðan mann í einhverju fagi sem er fyrst og fremst búinn undir framtíðina með ákveðnu grunnnámi.
    Ég held að menn þurfi fyrr en seinna að komast út úr þessu svokallaða meistarakerfi. Ég tel að það þurfi að vera fyrir hendi einhvers konar meistarakerfi að því leyti til að einhverjir aðilar beri ábyrgð á tiltekinni framleiðslu. Við skulum t.d. segja húsasmíðameistari sem ber ábyrgð á því að tiltekið hús er byggt. Það er ekki þar með sagt að allir sem vinna við húsbygginguna þurfi að vera sveinar í húsasmíði. Ég tel að eigi ekki að þurfa að vera þannig. Ég tel að það geti verið alhliða menntaðir iðnaðarmenn sem eigi að hafa sömu réttindi. Ég get bent á að sums staðar hefur þetta alls ekki tíðkast, t.d. í skipasmíðum. Þar tel ég reyndar að menn hafi gengið of langt því það þarf engin réttindi til að framleiða skip á Íslandi. Það þarf enginn menntaður skipasmiður eða skipasmíðameistari að vera ábyrgur fyrir framleiðslu á skipi. Það þarf ekkert annað en leggja fram teikningar og láta Tryggingamálastofnun fylgjast með því sem verið er að gera. Þar tel ég að við höfum gengið of langt. Ég tel að við eigum að hafa menntaðan iðnaðarmann sem ber ábyrgð á viðkomandi framleiðslu en ég tel ekki að við eigum að hanga í gömlu kerfi sem er fyrst og fremst ætlað til að loka viðkomandi grein fyrir aðgangi annarra að atvinnunni sem þar fer fram.