Íslensk endurtrygging

124. fundur
Þriðjudaginn 09. mars 1993, kl. 18:58:32 (5834)


     Guðmundur Bjarnason :
    Hæstv. forseti. Frv. það sem hér er til umræðu fjallar um stofnun hlutafélags um Íslenska endurtryggingu og eins og fram kom hjá hæstv. ráðherra og í greinargerð er frv. flutt að tilhlutan stjórnar Íslenskrar endurtryggingar.
    Eins og fram kemur einnig í greinargerðinni þá eru eigendur áhættufjár í félaginu tryggingafélögin í landinu, eins og þar er til greint, ásamt ríkissjóði. Ríkissjóðurinn er með rúmlega einn þriðji hluta af þessu áhættufé.
    Ég tel rétt að málum staðið eins frv. gerir ráð fyrir, að breyta þessu tryggingafélagi í hlutafélag og eðlilegt að það séu tryggingafélögin sem trúlega muni innan tíðar eignast þetta félag enda þeirra hagsmunir fyrst og fremst að reka slíka sameiginlega endurtryggingu. Ég býst við að það megi segja að þetta sé kannski eitt af þeim fyrirtækjum eða félögum sem ríkissjóður á aðild að sem eðlilegt sé að einkavæða, ef má nota það orð um það sem hér er að gerast og tek undir þá meginstefnu frv. þó ég sé hins vegar ekki sammála öllum einkavæðingarhugmyndum og tillögum hæstv. ríkisstjórnar. Ég tel reyndar að sum tilvik þar sem ríkisstjórnin hefur farið fram með einkavæðingarhugmyndir séu nær því að nálgast trúarbrögð heldur en að hlutunum sé skynsamlega staðið eða að það sé gert í ljósi þess að um eðlilega og sjálfsagða hagsmuni sé að ræða og verið að breyta þeim fyrirtækjum eða stofnunum í einkavædd fyrirtæki af því að það séu hagsmunir fyrirtækjanna sjálfra eða ríkisins. Mér finnst það ekki alltaf hafa verið alveg ljóst. En hér hygg ég að það sé og hef í sjálfu sér ekki ástæðu til að fara mörgum orðum um málið.
    Ég hef aðeins fylgst með þróun þessa máls í undirbúningnum í gegnum einn af stjórnarmönnum í Íslenskri endurtryggingu og ítreka það sem ég sagði hér áðan að ég tel að hér sé rétt að málum staðið.
    Í greinargerð frá fjárlagaskrifstofu fjmrn., sem hér fylgir með, er ekki gert ráð fyrir að kostnaður ríkisins af þessari breytingu sé nokkur eða muni verða óverulegur því kostnaður greiðist af félaginu sjálfu og þá nemur kostnaður ríkisins aðeins eignarhlutfalli ríkisins í félaginu.
    Að öðru leyti sýnist mér að ég geti stutt frv. en að sjálfsögðu verður það skoðað í þeirri nefnd sem fær það til umfjöllunar og þá kunna að koma fram einhverjar fyrirspurnir eða athugasemdir sem ég hef ekki fram að færa til hæstv. ráðherra á þessu stigi málsins.