Þvottahús Ríkisspítalanna

124. fundur
Þriðjudaginn 09. mars 1993, kl. 20:06:28 (5843)

     Steingrímur J. Sigfússon :
    Hæstv. forseti. Ég vil fyrst gera, ef ég má með leyfi forseta, fyrirspurn varðandi fundarhaldið. Ég hafði reiknað með því að forseta væri kunnugt að um þetta mál kynnu að verða nokkrar umræður þar sem það tengist mjög svo pólitísku álitamáli um einkavæðingu eða ekki einkavæðingu fyrirtækja og í því er einnig þetta umdeilda ákvæði í 4. gr. um réttindi og skyldur opinberra starfsmanna sem hefur þegar orðið að miklu deiluefni í þinginu. Með vísan til þess að nú er klukkan farin að ganga 9 og ekki hefur verið gert kvöldmatarhlé, þá langar mig að vitna í ræðu sem flutt var um þingsköp við umræður um fjárlög 26. okt. 1989, en þá fórust núv. hæstv. landbrh. og samgrh. svo orð, með leyfi forseta:
    ,,Hæstv. forseti. Klukkan er orðin hálfátta og mér þykir tími til kominn að taka matarhlé. Það veit enginn hversu lengi þessar umræður dragast.``
    Síðan rakti hæstv. núv. ráðherra nokkuð fundarhaldið eins og það hafði gengið til þennan dag, en sagði svo síðar í þessari ræðu um þingsköp: ,,Ég geri ráð fyrir því, hæstv. forseti, að sú regla verði virt í vetur að þingmenn fái matarhlé og vil mælast til þess að fundi verði nú frestað þannig að þingmönnum gefist svigrúm til þess að ganga til snæðings.``
    Þáv. hæstv. forseti sameinaðs þings, Guðrún Helgadóttir, hv. alþm., svaraði og upplýsti að forseti hefði gert sér vonir um að umræðunni lyki nú senn því aðeins tveir menn væru á mælendaskrá og hefðu upplýst að þeir ætluðu að halda stuttar ræður.
    Þá tók hæstv. núv. landbrh. og samgrh. aftur til máls um þingsköp og sagði, með leyfi forseta:
    ,,Hæstv. forseti. Það er auðvitað svo að það er á valdi forseta að haga störfum með þeim hætti að einstakir þingmenn viti aldrei hvernig að fundarhöldum verði staðið. Það hefur verið sú venja og hún hefur verið föst hér í gegnum árin að réttur þingmanna til kvöldmatar hefur verið virtur. Á hinn bóginn hefur komið los á þetta upp á síðkastið sem er óþolandi.``
    Síðan héldu áfram nokkur orðaskipti þáv. hæstv. forseta og hæstv. núv. landbrh. og samgrh. sem lauk þannig að hæstv. forseti, Guðrún Helgadóttir varð við eindregnum tilmælum hv. 2. þm. Norðurl. e., núv. hæstv. landbrh. og samgrh., og frestaði fundi.
    Með vísan til þessa og þess rökstuðnings sem hv. þm. Halldór Blöndal, þáv. 2. þm. Norðurl. e., núv. hæstv. landbrh. og samgrh., flutti um langa hefð fyrir kvöldmatarhléinu, þá leyfi ég mér að spyrja, hæstv. forseti, hvernig þessu sé nú varið. Ef hæstv. forseti gæti e.t.v. svarað áður en ég held áfram máli mínu. ( Forseti: Varðandi fundarhaldið hér hafði forseti gert ráð fyrir því, og væntir þess að það hafi hv. þm. almennt vitað, að halda hér áfram fram eftir degi og fram á kvöldið eftir því hvað þingmenn hefðu þörf fyrir langar umræður í hverju einstöku dagskrármáli fyrir sig. Það hefur ekki gengið sérstaklega greiðlega því að það hafa verið þannig mál á dagskrá að umræðan hefur tekið nokkuð lengri tíma en búist var við. Forseti hefur hugsað sér að ljúka umræðu um þetta mál og láta þar við sitja, þó að forseta þyki miður að geta ekki tekið fleiri mál á dagskrá. En það að ekki var gert kvöldmatarhlé var fyrst og fremst gert til þess að reyna að koma í veg fyrir það að þingmenn þyrftu að vera hér á fundi langt fram á kvöldið með því að slíta fundinn í sundur með klukkutíma kvöldmatarhléi eins og iðulega hefur verið gert. Hins vegar vill forseti benda hv. þm. á að þriðjudagarnir eru þeir dagar sem þingmenn mega reikna með að fundir standi fram eftir degi og fram á kvöld ef þörf krefur. Hér eru 18 mál á dagskrá í dag og fyrir utan atkvæðagreiðslur sem fóru fram í upphafi fundar, þá hefur nú þegar tekist að ljúka umræðu um fjögur mál sem eru til 1. umr. og er þá aðeins eftir atkvæðagreiðsla sem fer þá væntanlega fram á næsta fundi. Þetta er 1. umr. um 5. dagskrármálið sem hér fer fram og forseti var að gera sér vonir um að hægt mundi verða að ljúka þeirri umræðu og fresta síðan atkvæðagreiðslu. Þetta er það sem forseti vill gjarnan upplýsa hv. þm. um svo hann geti þá tekið til við sína ræðu.) Ég þakka hæstv. forseta kærlega fyrir þessar upplýsingar og ég leyfi mér að láta það álit mitt í ljós að þetta sé orðið bærilegt dagsverk þannig að ég sé enga ástæðu til að gera lítið úr því að menn hafa rætt og lokið umræðum um nokkur stór mál.
    Það vill okkur til happs, hæstv. forseti, að hæstv. landb.- og samgrh. er ekki til að fylgja fram sjónarmiðum sínum um óvefengjanlega helgi á kvöldmatarhléinu og með tilliti til allra aðstæðna þá ætla ég ekki að hafa um þetta frekari orð ( GB: Það er nú mikil blessun að vera laus við það.) en hef nú komið þessum sjónarmiðum á framfæri. E.t.v. hafa orðið nokkur sinnaskipti hjá einstaka manni í þessum efnum í ljósi breyttra hlutverka en ég hef ekki gert og mun ekki gera neinar aðrar kröfur en þær sem ég hef gert í formi þess að óska eftir upplýsingum um tillögu fundahaldsins og hef þá að ræða dagskrármálið sem er þetta frv.

til laga um stofnun hlutafélags um Þvottahús Ríkisspítalanna --- það nú orðið fræga fyrirtæki sem ég er ekki viss um að þjóðin hafi vitað svo sem stórkostlega mikið um fyrr en upp á síðkastið.
    Ég vil segja það, hæstv. forseti, að að mínu mati er hér á ferðinni ákaflega sérkennilegt mál. Ég held að það sé alveg nauðsynlegt að fá um það upplýsingar af því að ekki er þær að finna í dagskrármálinu hvernig þetta mál hefur verið undirbúið. Ég verð satt best að segja að segja fyrir mitt leyti að ég hef varla séð jafnknappan rökstuðning, ef rökstuðning á að kalla, fyrir flutningi eins þingmáls í háa herrans tíð. Í raun og veru er hann einungis ein og hálf lína í athugasemdum við frv. þar sem segir að eftir að fram hafi farið nokkur lýsing á starfsemi Þvottahúss Ríkisspítalanna, svohljóðandi, með leyfi forseta:
    ,,Ákveðið hefur verið að breyta Þvottahúsi Ríkisspítalanna í hlutafélag með það fyrir augum að efla starfsemi þess.``
    Það er nú ekki meira sem þarna er sagt. Ég flokka það ekki undir rökstuðning fyrir þessari pólitísku aðgerð eða stefnubreytingu að það er lýst í örfáum línum rekstri þvottahússins, stærð húsnæðisins í fermetrum, aldri þess að hluta til og öðrum slíkum örfáum praktískum staðreyndum komið á framfæri. Í því felst enginn rökstuðningur fyrir því að þetta sé skynsamleg og gáfuleg breyting á þessu rekstrarformi að taka þarna eina deild Ríkisspítalanna, anga af starfsemi þeirra, stofna um hana hlutafélag og opna heimildir til þess að einkavæða eða selja jafnvel að öllu leyti einkaaðilum til reksturs og í ágóðaskyni þessa starfsemi.
    Ég vil því leyfa mér að spyrja um það hverjir hafa unnið hinn faglega undirbúning að þessu máli. Hvar til að mynda liggur fyrir úttekt á rekstri þvottahússins og rökstuðningur fyrir því að þetta muni spara peninga eða betrumbæta rekstur eða jafnvel efla þvottahúsið sem er það eina sem sagt er í þessum tíu til fimmtán orðum sem um þetta eru látin falla í grg. Ég hef ekki séð hann. Hann er a.m.k. ekki reiddur fram með þingmálinu og þá eru það ekki nógu vönduð vinnubrögð.
    Ég vil hins vegar upplýsa hæstv. heilbr.- og trmrh. um það ef hann ekki veit það, sem kann að vera, að það var farið í gegnum þetta mál einu sinni fyrir nokkrum árum síðan, a.m.k. einu sinni svo ég veit til. Á þeim tíma sat ræðumaður í stjórnarnefnd Ríkisspítalanna, undir býsna traustri forustu núv. hæstv. fjmrh. sem var eins og kunnugt er einn af forustumönnum í Eimreiðarhópi og stuttbuxnadeild Sjálfstfl. sem hafði forustu um það að kynna til Íslandssögunnar svokallaða frjálshyggju og hafði hug á því satt best að segja að láta til sín taka sem formaður stjórnar Ríkisspítalanna, ungur maður á uppleið í Sjálfstfl., og lét fara af stað og út af fyrir sig með ágætu samþykki allra stjórnarnefndarmanna athugun á ýmsum þáttum í rekstri Ríkisspítalanna, þar á meðal þvottahúsinu. Mér er þetta nokkuð í minni vegna þess að um þetta urðu allmiklar umræður í stjórnarnefnd og það var farið í býsna vandaða vinnu að ég tel á fjölmörgum rekstrarþáttum Ríkisspítalanna og mætti ræða það við annað tækifæri sem betur á við þegar svona almenn málefni þeirrar stofnunar væru á dagskrá. Þar á meðal var þvottahúsið. Það var safnað tæknilegum upplýsingum um þvottahúsið, stærð þess í hlutfalli við einkafyrirtæki á sambærilegum markaði eða þeim markaði sem helst var sambærilegur sem var rekstur þvottahúsa og efnalauga hér í bænum. Niðurstaðan varð sú, sem stjórnarnefnd gerði að sinni, að það væri ekki skynsamlegt að einkavæða eða bjóða út rekstur þvottahúss spítalanna. Það væri ekki skynsamlegt. Fyrir því voru færð ýmis rök sem frjálshyggjumaðurinn Friðrik Sophusson, hæstv. núv. fjmrh., var maður til að taka mark á og láta skynsemina ráða. Þess vegna var það að hugmyndir um útboð, sem þá voru reyndar aðallega skoðaðar en ekki beinlínis stofnun hlutafélags eða einkavæðing, á starfsemi þvottahússins voru lagðar til hliðar í ágætu samkomulagi allra sem þá sátu í stjórnarnefnd.
    Ég spyr: Hvað hefur breyst? Hvað hefur breyst síðan þá? Ég hef ekki séð nein ný rök færð fram fyrir því að sú niðurstaða sem menn komust að fyrir nokkrum árum síðan, eftir vandaða úttekt, sé ekki gild enn þann dag í dag. Það var til að mynda bent á það sem vó kannski hvað þyngst í úttekt tæknimanna og skoðun sérfræðinga á þessum málum á þessum tíma að rekstur þvottahúss af þessari stærð og með þessa sérhæfingu væri þess eðlis að sá aðili sem kæmist yfir tækjakost og aðstöðu Þvottahúss Ríkisspítalanna yrði sjálfkrafa í einokunaraðstöðu um leið og hann hefði náð þeirri stöðu. Þess vegna væri það misskilningur að það væru fyrir hendi samkeppnisforsendur til þess að bjóða þessa starfsemi út. Ég spyr þá enn: Mun þá ekki nákvæmlega það sama eiga við um einkaaðila sem hefur komið höndum yfir þetta fyrirtæki, fengið aðstöðu til að búa einnig við tækjakost og afköst og sérhæfingu til þess að geta þvegið þetta mikla magn af sérhæfðum þvotti og veitt aðra þjónustu sem hér til heyrir?
    Það er nákvæmlega það sem mér sýnist vera á ferðinni vegna þess að í raun og veru viðurkennir frv. þá staðreynd nema það sé sérstakt markmið í sjálfu sér að fela þessu væntanlega einkafyrirtæki einokun á starfseminni. En það segir í 2. gr. að tilgangur þessa hlutafélags sem á að stofna skuli vera að reka þvottahús sem skiptist a.m.k. í þvottadeild og saumastofu. Þvottadeild skuli sjá um þvott á öllu líni fyrir Ríkisspítala og saumastofa skuli sjá um viðgerð, merkingu og endurnýjun á líni sem notað er á Ríkisspítölum. Þannig sé ég ekki betur en það sé verið að fela þessu nýja fyrirtæki einokun á þessum markaði til frambúðar. Þá skil ég bara ekki lengur málið, það verð ég að segja alveg eins og er, hversu góðan vilja sem ég hefði til þess vegna þess að eitt hélt ég að flestir væru sammála um, bæði þeir sem eru mestir talsmenn einkavæðingar og hinir sem eru það síður, að eitt hefði a.m.k. gefist illa í þessu einkavæðingarfári öllu og það væri einkavæðing og einokunarstarfsemi. Meira að segja grjótharðir íhaldsmenn breskir viðurkenna nú að þar hafi þeirra stefna lent út í mestu ógöngur og mistekist herfilega þegar menn voru komnir út á þá braut jafnvel að einkavæða og afhenda einkafyrirtækjum til rekstrar í hagnaðarskyni einokunarstarfsemi eða aðstöðu sem fæli í sér einokunarmöguleika. Hér er nákvæmlega sambærilegt dæmi á ferðinni. Ég sé ekki annað en það sé verið að leggja til að búa til einkafyrirtæki um starfsemi sem sjálfkrafa á í sömu lögum að tryggja einokun í tilteknum rekstri. Það finnst mér svo fráleitt að ég verð að segja eins og er, ég botna bara ekkert í því hvað menn eru að fara.
    Síðan er það þannig að í 3. gr. er sem sagt gert ráð fyrir því að heilbr.- og trmrh., sem fer samkvæmt þessu með eignarhlut Ríkisspítala í félaginu, sé heimilt að selja að eigin geðþótta án samráðs við nokkurn mann hlutabréfin í félaginu, ýmist hluta þeirra eða þau öll. Það er ekkert því til fyrirstöðu og það er beinlínis tekið fram að heilbrrh. sé þess vegna heimilt að afhenda einum aðila öll hlutabréfin í hinu nýja fyrirtæki og útbúa þannig í hendurnar á einhverjum einum aðila algjöra einokunaraðstöðu á þessum markaði. Og hvers konar hugsun er það þá eiginlega?
    Ég verð að segja alveg eins og er að ég fæ ekki almennilega skilið hvað vakir þarna fyrir mönnum. Hér er um mjög ósambærilega hluti að ræða og menn hafa stundum blandað inn í þessa umræðu þegar t.d. á ferðinni hefur verið einkavæðing einhvers rekstrar sem er hvorki þannig settur að hann sé svo sérhæfður eða svo fáir starfi á þeim markaði að ástæða sé til þess að ríkið hafi þar sérstaklega hönd í bagga. Ég nefni til að mynda þegar Ferðaskrifstofu ríkisins var í áföngum breytt yfir í einkafyrirtæki sem var breyting sem mörg rök hnigu til að gera þar sem auðvitað fjölmargir einkaaðilar störfuðu á þeim markaði, að vísu fleiri þá en gera nú, vegna þeirrar fákeppni sem verið hefur vaxandi á þeim markaði, því miður. En flest rök voru að mínu mati horfin fyrir því að ríkið væri að standa beinlínis fyrir rekstri innan ferðaþjónustunnar eins og Ferðaskrifstofa ríkisins hafði verið. Þá fóru menn líka skynsamlega í sakirnar, tóku þetta í áföngum og bundu það í lögin að með eignarhlutinn skyldi þannig farið að kappkosta skyldi að starfsfólkinu yrði gert kleift að eignast fyrirtækið. Það er nú ekki aldeilis því að heilsa þarna. Það er nú ekki mikið minnst á starfsfólkið nema það sem snýr að því að taka af því lögbundin og stjórnarskrárvarinn rétt þess samkvæmt lögunum um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins.
    Hér er auðvitað um alveg ósambærilegar aðstæður að ræða, sömuleiðis til að mynda þegar prentsmiðjunni Gutenberg var breytt, þannig að ég tel að þetta eigi ekkert skylt við umræður um það hvort ríkið á að standa í hreinum samkeppnisrekstri sem ekki er þannig sérhæfður eða sérstaklega settur að á því séu nein vandkvæði að einkaaðilar sinni honum alfarið í þjóðfélaginu. Það á ekki að rugla þessum hlutum saman við það.
    Ég vil þá líka spyrja hæstv. heilbrrh., eins og þegar hefur reyndar verið gert, um hina efnahagslegu hlið þessa máls, af því eins og ég hef þegar nefnt skortir allan rökstuðning fyrir málinu í heild sinni. Engar tölulegar upplýsingar eru reiddar fram um t.d. eitthvert hagræði í rekstri stofnunarinnar eða betra skipulag sem á þetta komist með þessum breytingum. En mér skilst að samkvæmt forsendum fjárlagafrv. sé gert ráð fyrir því að rjúka til samstundis og þessi heimild er fengin, án þess að það sé sagt í þessu frv., og selja fyrirtækið í eitt skipti fyrir öll og það sé meira að segja byrjað að ráðstafa þeim ókomna söluhagnaði sem er auðvitað alveg furðuleg röð á hlutunum. Ég vil spyrja hæstv. ráðherra af því hann var á seinni tíð formaður fjárveitinganefndar: Er þetta virkilega ráðslag sem menn geta verið þekktir fyrir að standa að? --- Að byggja upp fjárlög ríkisins þannig að það sé farið að ráðstafa ótilkomnum, hugsanlegum söluhagnaði fyrirtækja af eignum ríkisins? Og að það séu í sjálfu sér einhver tímamót, eitthvað sem eigi að taka alvarlega, að ríkið sé að taka inn í reksturinn í eitt skipti fyrir öll einhverjar eignir sem það á í fyrirtækjum af þessu tagi eins og að í því felist í sjálfu sér einhver breyting sem einhverju skiptir er alveg broslegt. Það er enginn vandi í sjálfu sér að éta upp eignir sínar. Ríkið getur gert það alveg eins og aðrir. Það geta allir lifað á eignum sínum um skeið ef þeir eiga þær. Það geta menn gert hjá Ríkisspítölum eins og annars staðar. Það þarf að vísu fyrst helst að koma þeim í verð, það þykir ekki mjög skynsamleg fjármálastjórnun að byrja á því að taka út á þær og lifa fyrir þær og eiga svo eftir að láta á það reyna hvort þær eru einhvers virði og komist yfirleitt í verð, en það er það sem verið er að gera og er auðvitað alveg kostulegt að éta þannig fyrir fram upp efni sín.
    Hér vantar hvert einasta orð um áætlaðan sparnað eða áætlaða hagræðingu í þessum rekstri. Það er ekki minnst einu orði á það að fyrirtækið eða starfsemi Þvottahúss Ríkisspítalanna sé illa rekin, að það sé eitthvað að þar í rekstri, að það sé eitthvað að þar í skipulagi, að þar séu einhver vandkvæði uppi nú sem geri það að verkum að rétt sé að fara út í þessa breytingu. Ekki eitt orð. Ekki minnst á það einu orði enda er mér ekki kunnugt um að svo sé. Þar sem ég hef fylgst með þessu þá veit ég ekki annað en þessi starfsemi hafi verið í ágætu lagi, sinnt sínu verkefni vel, skilað líni Ríkisspítalanna þokkalega hreinu og sæmilega viðgerðu eftir þörfum.
    Það er ekki eitt orð um það hvernig menn sjá það fyrir sér að samskiptin við einkafyrirtækið, ef af verður, komi til með að ganga. Nú liggur það í hlutarins eðli að það koma upp alls konar mál þegar viðskiptin fara að verða á milli óskyldra aðila. Það var þó skoðað á sínum tíma þegar hugmyndin um útboð var til meðferðar hjá stjórn Ríkisspítalanna. Hvernig mundu menn leysa praktísk mál eins og þau sem sneru að gæðum þjónustunnar sem veitt væri þegar það væri orðið um viðskipti milli óskyldra aðila að ræða? Hvernig mundu menn leysa vandamál eins og þau sem upp kæmu varðandi endingu og slit og meðferð vörunnar og varðandi verðlagningu og fleira og fleira? Ekki eitt orð um þetta. Nú er það eðli máls samkvæmt þannig að fyrir slíkum hlutum þarf auðvitað að sjá. Hér eru nokkuð svo sérhæfð verkefni á ferð

og samskiptin við notandann, þ.e. Ríkisspítalana, eru þess eðlis að menn verða auðvitað að hafa það sæmilega kortlagt að þetta gangi þokkalega fyrir sig.
    Það hefur þegar verið gerð ítarleg grein fyrir þeim ágreiningsefnum sem uppi eru varðandi 4. gr. frv. og þess hvernig standa á að því að setja inn í lög, að því er virðist að tillögu ríkisstjórnarinnar, fyrirmæli um það að tiltekinn réttur opinberra starfsmanna samkvæmt öðrum lögum skuli ekki eiga við. Þetta er alveg fáránleg lagasetning. Það liggja fyrir ítarleg lögfræðileg álit þar sem í fyrsta lagi er sagt að þessi ákvæði standist ekki og í öðru lagi er auðvitað bent á það sem augljóst er, að það er ekki hlutverk Alþingis að mæla fyrir um það í sérlögum að tiltekinn réttur opinberra starfsmanna skuli ekki eiga við. Það er hlutverk dómstóla að leysa úr ágreiningi ef uppi er um það hvort rétturinn eigi við en ekki Alþingis. Dómendunum ber ekki að taka tillit til fyrirmæla af þessu tagi þó þau séu með kauðalegum hætti sett inn í lög ef Alþingi skyldi verða svo ógæfusamt að staðfesta þetta. Það ber þeim einmitt ekki að gera, heldur dæma út frá hinum almennu réttarvenjum og lagafyrirmælum sem réttinn veita og fella úrskurð sinn á þeim grundvelli. Hér er með mjög kauðalegum hætti verið að grípa inn í og mæla fyrir um það að tiltekinn réttur skuli af mönnum tekinn eins og reynt sé með þeim hætti að gefa dómstólum landsins, ef til þeirra kasta kemur, fyrirmæli um það hvernig þeir eigi að meðhöndla málin. Sem betur fer er hér um óháð valdstig í þjóðfélaginu að ræða og samkvæmt öllum réttarvenjum gilda ekki svona fyrirmæli heldur almenn ákvæði laga og stjórnarskrár þegar þau eiga við, eins og er í þessu tilviki.
    Til viðbótar því sem þegar hefur komið fram í máli fyrri ræðumanna vildi ég upplýsa að í sjútvn. Alþingis var á sl. vetri sambærilegt frv. til meðferðar þar sem eru Síldarverksmiðjur ríkisins, hugmyndir um að breyta þeim í hlutafélag. Sjútvn. hafði þessi mismunandi álit uppi, annars vegar frá ríkislögmanni eða ríkisstjórninni, þá fullyrðingu að þetta stæðist. Hins vegar frá lögmanni viðkomandi stéttarfélags sem stangaðist algerlega á við þessa stefnu ríkisstjórnarinnar og ítarlega rökstutt. Nefndin brá þá á það ráð að leita eftir lögfræðiáliti óháðs aðila og til þess var valin virt lögfræðistofa starfandi hér í bænum. Formaður sjútvn. féllst óskir nefndarmanna um það að rétt væri að nefndin sjálf hefði forustu um það að leita sér að óháðu lögfræðiáliti eða lögfræðilegri ráðgjöf við þessar aðstæður og hver varð niðurstaðan? Hún var alveg skýr. Hún var sú sem hér hefur komið fram í máli manna. Þetta ákvæði í fyrsta lagi standist ekki og í öðru lagi sé það ekki hlutverk Alþingis að vera með einhvers konar túlkun og fyrirmæli á því að við þessar aðstæður eigi opinberir starfsmenn ekki þennan rétt. Það sem á að gera ef hæstv. ríkisstjórn telur sig geta unnið það mál er ósköp einfaldlega að ríkisstjórnin, framkvæmdarvaldið í framkvæmd sinni, láti á það reyna hvort henni sé stætt á því að neita opinberum starfsmönnum starfsmönnum þessa réttar. Fjmrh. á þá að neita því að greiða biðlaun eða með öðrum hætti framkvæma þessi ákvæði með þeim rökstuðningi að hann telji að starfsmönnum hafi boðist sambærilegt starf. Uni viðkomandi starfsmenn því ekki geta þeir leitað til dómstóla og þar fellur hinn endanlegi úrskurður. Alþingi á ekki með þessum kauðalega hætti að blanda sér inn í það mál. Vilji hins vegar ríkisstjórnin taka á þessu með almennum hætti, sem er náttúrlega enn einn agnúi þessa máls að hér er verið að afnema þessi réttindi gagnvart takmörkuðum hópi opinberra starfsmanna, tilteknum fáum einstaklingum, þá á auðvitað að breyta lögunum um réttindi og skyldur opinberra starfsmanna, sem væri þá almenn aðgerð og tæki jafnt til allra ríkisstarfsmanna og síðan mundi þá á það reyna við þá lagasetningu hvernig hún kæmi út í framkvæmdinni gagnvart starfsmönnum á komandi árum. Hér er auðvitað mjög vandræðalega að þessu máli unnið og satt best að segja varð ég mjög hissa og ekki einn um það væntanlega að ríkisstjórnin skyldi á þessu þingi koma með þessi frumvörp með ákvæðunum óbreyttum eins og þau voru í fyrra. Líka vegna þess að nú eru útrunnir þeir kjarasamningar sem ríkisstjórnin bar fyrir sig í fyrra að gerðu það að verkum að hún gæti ekki með almennri aðgerð breytt lögunum um réttindi og skyldur opinberra starfsmanna því að þeim lögum hefði hún lofað í bókun í tengslum við viðkomandi kjarasamninga að hrófla ekki við. Og þess vegna væri valin sú leið að taka á þessu sértækt gagnvart hverjum eintökum hópi sem hér ætti undir. Sú röksemd er a.m.k. ekki fyrir hendi lengur þar sem útrunninn er sá kjarasamningur og enginn reyndar í gildi sem stendur eins og kunnugt er.
    Ég tel líka, hæstv. forseti, að umsögn fjárlagaskrifstofu fjmrn. um þetta mál sé harla vandræðaleg miðað við flutning þess síðan hér af hálfu hæstv. ríkisstjórnar. Það hefur greinilega vakið athygli fjárlagaskrifstofunnar að einn tilgangur félagsins skuli vera sá að sjá um þvott á öllu líni fyrir Ríkisspítala. Þeir velta þá þess vegna upp þeirri spurningu eða vekja á því athygli að ákvæði frv. bindi nafn félagsins við opinberar stofnanir um ókomna framtíð og að þvottahúsið skuli annast þvotta fyrir Ríkisspítalana og segja í framhaldinu að ef ástæða þyki til að hafa þessi ákvæði, þá sé rétt að takmarka þau við tiltekinn tíma. Ég tel auðvitað að þessi hugsun fjárlagaskrifstofunnar sé alveg eðlileg í framhaldi af þeim rökstuðningi sem ég hafði hér uppi. Það er auðvitað ákaflega sérkennilegt að vera í öðru orðinu að leggja til einkavæðingu og sölu á fyrirtækinu yfir til einkaaðila til reksturs í ágóðaskyni, en í hinu orðinu að fela þessu einkavædda fyrirtæki um ókomna framtíð einokunarrétt á þessari starfsemi. Ég tel að þessi hugsun gangi ekki upp. Annaðhvort a.m.k. verður að víkja og að mínu mati mæla hin faglegu rök og tæknilegu rök sem liggja í málinu miklu frekar með því að það sé heppilegast að hið opinbera sjálft ráði yfir þessari starfsemi sem hluta af þeim rekstri sem undir heilbrigðismálin flokkast. Ég held að það sé ákaflega vanhugsað að taka út úr þeim flókna og fjölþætta rekstri, sem auðvitað fingrast saman á margvíslegan hátt sem er rekstur á stóru sjúkrahúsi, einn svona rekstrarþátt og ætla að fara að stofna um hann sérstakt félag, einkavæða hann og fara svo að standa í samningum við það einokunarfyrirtæki um þessa þætti.

    Ég bendi á ákvæði nýsamþykktra samkeppnislaga sem mér er til efs að hæstv. ríkisstjórn hafi skilið sjálf og m.a. ákvæði sem efh.- og viðskn. kom inn í þau lög gagngert til þess að opna þann möguleika að þegar um væri að ræða einhvern anga af opinberri starfsemi sem í vissum mæli væri í samkeppni við einkarekstur, þá er nú í nýsamþykktum lögum mælt sérstaklega fyrir um það hvernig með bókhaldslegum aðskilnaði og öðrum slíkum ráðstöfunum sé unnt að tryggja að sá þáttur starfseminnar sem undir opinbera aðila heyrir eða aðila sem starfa á grundvelli einkaleyfa eða einkaaðstöðu eins og þar segir hafi ekki truflandi áhrif á samkeppnismarkaðinn. Ef menn telja að rekstur Þvottahús Ríkisspítalanna hafi með einhverjum hætti, sem ég hef reyndar aldrei heyrt, verið ósanngjarn gagnvart einkaaðilum í þessari grein, þá er búið að bæta úr því með nýsamþykktum lögum að unnt er nú að taka á slíkum málum sem ekki var áður hægt, a.m.k. ekki með vísun til neinna sérstakra ákvæða í gömlu lögunum um verðlag, samkeppnishömlur og óréttmæta viðskiptahætti. Ég leyfi mér að spyrja að því, hefur ríkisstjórnin ekki áttað sig á þeim tímamótum að það er búið að afgreiða hérna ný samkeppnislög sem m.a. gefa færi á því að taka á svona þáttum öðruvísi en áður hefur verið? Menn voru að vísu með í huga kannski ýmsa aðra þætti svo sem þjónustusvið Pósts og síma og slíka hluti sem hafa verið til umræðu og hafa fengið gagnrýni vegna þess að þeir nytu góðs af sambúðinni við stórt og öflugt opinbert fyrirtæki sem að hluta til starfaði á grundvelli einkaleyfa eða einokunar og væri þess vegna með óeðlilega samkeppnisstöðu. Ég veit ekki til þess að slík gagnrýni hafi í raun og veru verið höfð í frammi á Þvottahús Ríkisspítalanna og þó svo væri, þá bendi ég á það að nú væri hægt að taka á því eða mæta því með öðrum hætti en áður var hægt.
    Hæstv. forseti. Ég verð að segja það alveg eins og er að ég tel þetta frv. vera óskaplega illa undirbúið og lélega smíð satt best að segja. Það vantar gersamlega í það allan rökstuðning. Mér finnst þetta vera ,,af því bara``, það er af því bara að hæstv. ríkisstjórn var svo ógæfusöm að lenda með það í farteskið frá byrjun að einkavæðing væri enn á dagskrá og væri enn í tísku einhvers staðar úti í heimi og dragnast með þennan draug ennþá, hefur ekki getað losað sig við hann og situr uppi með einhverja nefnd og einhverja stráka sem eru að vinna í því að reyna að tína upp einhver svona smáatriði í rekstri ríkisins sem hægt sé að einkavæða. Og hæstv. heilbrrh. lætur nota sig í það að vera að flytja svona vitleysu hér inn, maður sem hefur meira en nóg að gera í öðru, miklu, miklu þarfara en þessu og margt hefur nú á honum mætt og allt það og ætla ég ekki að fara út í það hér. En ég segi alveg eins og er, að ég sé eftir tíma hæstv. heilbrrh. í svona vitleysu. Hann getur örugglega fundið sér mikilvægari verkefni en að eltast við svona fráleitan málflutning og ég tel að það sé langskynsamlegast út af fyrir sig að leggja þetta mál til hliðar vegna þess að ég tel að fyrir nokkrum árum síðan hafi menn farið í gegnum skoðun á þessu og komist að skynsamlegri niðurstöðu. Ef menn vilja gera það aftur og telja sig hafa tíma til þess, þá hef ég svo sem ekkert á móti því en ég skora þá á viðkomandi þingnefnd að láta ekki bjóða sér framsetningu á málinu eins og hér er á dagskrá, fara þá í gegnum það rækilega. Er einhver skynsemi í því yfir höfuð að breyta þessari starfsemi, bjóða hana út eða einkavæða hana og hreyfa ekki við málinu fyrr en að undangenginni slíkri ítarlegri úttekt á þessum þáttum.
    Það kom fram hér í fyrri ræðu og ég get staðfest það að ýmsir þættir í rekstri Ríkisspítalanna hafa á undanförnum árum tekið breytingum og það er orðin allnokkurra ára þróun að baki í þeim efnum að bjóða út eða leita tilboða í ýmsa afmarkaða rekstrarþætti, innkaup á vörum, útboð á leiguakstri o.s.frv. En menn hafa borið skynsemi til þess að draga þar skynsamleg mörk og gera það eingöngu í þeim tilvikum að það væri sannanlega skynsamlegt og hagkvæmt. En hér er enginn slíkur rökstuðningur fram færður og ég tel þess vegna best að við þessu máli verði ekki hreyft, a.m.k. ekki fyrr en unnið hefur þá verið ítarlega í því af hálfu hv. nefndar að afla þeirra gagna og færa fram þann rökstuðning með og á móti málinu sem flytjandi þess, hæstv. ríkisstjórn, hefur algerlega svikist um að gera.