Hollustuhættir og heilbrigðiseftirlit

125. fundur
Miðvikudaginn 10. mars 1993, kl. 14:08:24 (5854)

     Kristín Ástgeirsdóttir :
    Virðulegi forseti. Í umræðunum um EES-samninginn var ítrekað á það bent af okkur ýmsum andstæðingum þess samnings að hann hefði ekki eingöngu galla í för með sér heldur líka kosti og einn af þeim er lagasetning af því tagi sem hér er á ferð. Við höfum alltaf vitað það að EES-samningnum mundu fylgja margvísleg lagasetning og að á ýmsum sviðum er Evrópubandalagið komið lengra en við. En það breytir auðvitað ekki því að við höfum sjálf getað tekið það frumkvæði að setja lög af þessu tagi en það kann vel að vera að hér verði nokkuð flýtt fyrir.
    Það var líka oft bent á kostnaðinn í umræðunni og lagðar fram spurningar varðandi hann sem fylgir samningnum um Evrópskt efnahagssvæði. Hér er einmitt að koma í ljós það sem maður þóttist vita, að þessum samningi mundi fylgja töluverður kostnaður, bæði fyrir ríki og sveitarfélög. Eins og kemur fram í greinargerð fjmrn. þá fylgir þessu frv. verulegur kostnaður einkum fyrir sveitarfélögin í landinu.
    Í sjálfu sér er ég sammála efni frv. og tel að hér sé margt mjög gott á ferð. Auðvitað þarf að efla mengunarvarnir hér því á ýmsum sviðum erum við langt á eftir öðrum þjóðum, sérstaklega í Evrópu, en að mínum dómi ættum við auðvitað sjálf að geta ráðið hraðanum og að lenda ekki í þeirri stöðu eins og hér kemur upp að við þurfum að uppfylla skilyrði fyrir ákveðinn tíma.
    Nú vildi ég að sjálfsögðu að við gætum bara kippt þessu öllu í liðinn á svo sem einu eða tveimur árum ef það væri möguleiki. En við búum við töluverða erfiðleika í okkar efnahagslífi, bæði í ríkisfjármálum og hjá sveitarfélögunum og ekki síst hjá fyrirtækjunum í landinu, en það er alveg ljóst að kostnaðurinn sem af þessu hlýst mun að hluta til lenda á atvinnufyrirtækjunum.
    Það má kannski koma með þau rök þarna á móti að hér séu ýmis verkefni sem skapi vinnu og það er auðvitað af hinu góða. En við hljótum að spyrja þeirrar grundvallarspurningar hvernig eigi að standa undir þessum mikla kostnaði sem þessu fylgir, upp á 6--7 milljarða. Við hljótum líka að spyrja hvaða möguleika við höfum á því að fylgja eftir öllum þeim ákvörðunum sem felast í þessu frv. og öllum þeim reglugerðum sem ráðherra á að setja.
    Ef ég lít aðeins á sjálft frv., þá er hér farin sú leið að það verði sett reglugerð eða reglugerðir um hin einstöku atriði í stað þess að binda í lög og sennilega er það betri leið að sinni. Það er þá hægt að læra af reynslunni og breyta því sem þarf að breyta, ef eitthvað kemur upp, en auðvitað verður þetta að vera í samræmi við ákvæði í tilskipunum EB. Ég tel það vera mjög af hinu góða að eftirlit með fyrirtækjum sé hert og að starfsleyfi þeirra séu bundin því að fylgst sé með mengun af þeirra völdum, en það hefur auðvitað verið í gildi. Ég skil það nú svo að hér sé heldur verið að herða á og að fylla upp í þau ákvæði. Eins er þetta atriði með áhættumat fyrir nýjan og starfandi atvinnurekstur þar sem hætta er á stórslysum vegna aðferða og efna sem notuð eru við starfsemina. Þetta er hið besta mál, að herða þarna á og fylgjast betur með og að maður tali nú ekki um hertar reglugerðir við meðferð vatns og sjávar í iðnaði því að við vitum það að bæði fiskeldi og fiskvinnsla hefur í för með sér töluverða mengun.
    Þá er það líka augljóst mál að frágangur sorps er víða mjög slæmur og það er einkum á því sviði sem sveitarfélögin munu þurfa að leggja í mikinn kostnað til að koma þeim málum í lag. En þetta tengist auðvitað því að við erum ekki eingöngu að ræða hér um umhverfið og þær kröfur sem gerðar eru til umhverfis og umhverfisverndar, heldur er um það að ræða að sú framleiðsla sem á sér stað í landinu uppfylli settar kröfur, hún sé með þeim hætti að hún uppfylli þær kröfur sem gerðar eru í Evrópubandalaginu. Og að mínum dómi veitir nú ekki af að fylgjast þar betur með og herða á.
    Ég vil líka hvetja hæstv. umhvrh. til þess að hafa undanþáguheimildirnar heldur með minna móti þó að það kunni auðvitað að vera nauðsynlegt að fara hægt í sakirnar á meðan við erum að uppfylla þessi skilyrði, einkum með tilliti til þessa mikla kostnaðar sem þessu mun fylgja. En í greinargerð fjárlagaskrifstofu fjmrn. koma fram merkar upplýsingar varðandi þetta mál og hér segir á bls. 3, með leyfi forseta:
    ,,Kostnaður fyrirtækja og annarra aðila sem gert verður að hlíta reglunum er mjög óviss, . . .  `` Og ég vil spyrja hæstv. umhvrh.: Hvernig verður þessu fylgt eftir? Hvað verður gert til þess að kanna betur kostnaðinn sem þessu mun fylgja? Menn geta auðveldlega gert sér grein fyrir þeim kostnaði sem fylgir m.a. bættum skolplögnum og því sem snýr að sveitarfélögunum, en annar kostnaður er nokkuð óviss. Það segir hér líka með leyfi forseta: ,,Ekki er talið að leggja þurfi í mikinn kostnað til að starfsemi ríkisstofnana uppfylli hert ákvæði um mengunarvarnir, en sveitarfélög munu á hinn bóginn þurfa að leggja í fjárfrekar framkvæmdir í fráveitukerfum til að standast kröfur um hreinsun skolps.``
    Síðan eru nefndar hér aftar í greinargerðinni tölur sem þetta varðar og þetta er m.a. mjög athyglisvert fyrir okkur þingmenn Reykjavíkur hvað það mun leggjast mikill kostnaður á Reykvíkinga, en hér segir á bls. 4, með leyfi forseta: ,,Kostnaður vegna úrbóta í Reykjavík er áætlaður 4,5 milljarðar kr., eða um 52 þús. kr. á hvern íbúa.`` --- Síðan segir um nágrannabæ okkar: ,,Í Hafnarfirði er heildarkostnaður áætlaður um 230 millj. kr.`` Og 750 millj. á Akureyri.
    Þetta er sem sagt vegna hreinsunar skolps frá þéttbýli. Og í heild áætlar fjmrn. að hreinsun skolps frá þéttbýli kosti rúmlega 6 milljarða kr. þannig að við erum ekki að tala um neinar smáupphæðir og maður hlýtur að velta því fyrir sér, hvernig eigi að fjármagna þetta. Síðan segir hér í greinargerðinni á bls. 5,

greinargerð fjmrn.: ,,Fyrirhugaðar framkvæmdir þessara sveitarfélaga og þær úrbætur sem þegar eru hafnar taka mið af gildandi mengunarvarnareglugerð, en til viðbótar þeim kröfum verður settur upp hreinsibúnaður sem áætla má að kosti um 1.000 millj. kr. fyrir Reykjavík, um 100 millj. kr. fyrir Hafnarfjörð og um 120 millj. kr. fyrir Akureyri. Má líta á kostnaðinn fyrir hreinsibúnaðinn, alls 1220 millj. kr., sem þann hluta fjárfestingarinnar sem skylt yrði að efna til samkvæmt ákvæðum tilskipunar EB.``
    Það er ekki ástæða á þessu stigi til þess að fara ítarlegar út í þetta mál, en ég get þó ekki annað en bent á það undir lok máls míns að fjmrn. telur að nokkur kostnaður verði lagður á fiskvinnsluna í landinu og í sjálfu sér er það ekki annað en eðlilegt því að hún er mengunarvaldur. En miðað við hennar fjárhagsstöðu spyr maður sig að því hvernig fiskvinnslufyrirtækin í landinu eigi að standa undir þessu.
    Þetta er hin dökka hlið sem ég sé á þessu máli, þ.e. hvernig fyrirtækjum og sveitarfélögum muni ganga að standa undir þessum kostnaði, en efnislega er ég að sjálfsögðu hlynnt því að kröfur um mengunarvarnir séu hertar, en við verðum auðvitað að búa við ákveðið raunsæi í þeim efnum og taka mið af því efnahagsástandi sem er í landinu.