Dýravernd

125. fundur
Miðvikudaginn 10. mars 1993, kl. 14:57:42 (5859)

     Páll Pétursson :
    Frú forseti. Ég vil lýsa stuðningi við þetta frv. í stórum dráttum og fagna því að það skuli vera flutt. Ég tel að í því séu nýmæli sem séu góðra gjalda verð. Ég tel að meðferð á hefðbundnu búfé hafi stórbatnað á undanförnum áratugum og sé í stórum dráttum komin í gott horf á Íslandi. Ég hef hins vegar ekki sannfæringu fyrir því að sama sé að segja um sumar tegundir dýra sem höfð eru í búrum eða í verksmiðjubúskap og er fullkomin ástæða til að skýra þar ákvæði og setja nánari viðurlög.
    Dýravernd á Íslandi á sér langa sögu og ég vil í þessu sambandi minnast á Dýraverndunarfélag Íslands sem fyrr á árum vann afar þarft og merkilegt starf til þess að bæta meðferð á dýrum á Íslandi. Verksvið þess félags hefur breyst nokkuð og satt að segja held ég að sumt af því sem dýraverndunarfélagið skiptir sér af núna sé smávægilegra og ekki eins merkilegt og félagið taldi hlutverk sitt á árum áður.
    Ég vil líka geta útgáfustarfsemi dýraverndunarfélagsins sem fyrr á árum gaf út tímarit sem hét ,,Dýraverndarinn`` og var ákaflega merkilegt rit og fullkomin ástæða til þess að nefna það í þessari umræðu. Ég minnist þessa rits með mikilli ánægju frá bernsku minni. Mér þóttu alltaf góð tíðindi þegar pósturinn kom með Dýraverndarann. Þar var margt vel skrifað og vel hugsað.
    Ég held að sú nefnd sem hefur samið þetta frv. hafi unnið gott starf. Ég geri þó athugasemd við það að í nefndinni var enginn starfandi bóndi. Mér er að vísu sagt að menntaskólakennari sem þarna átti sæti hafi einhvern tímann stundað búskap en mér finnst að það hafi verið gengið fram hjá bændastéttinni og eðlilegt að hafa hana með í ráðum við þessa frumvarpsgerð. Ég er ekki að segja að þó að einhver bóndi hefði verið í nefndinni væri frv. í stórum dráttum betra en nokkurs ókunnugleika finnst mér kenna í sumum þáttum frv. Þó að þetta frv. gangi til hv. umhvn. tel ég alveg einboðið og vil fara formlega fram á það að hún sendi hv. landbn. þetta mál til umsagnar þegar hún er að vinna að því.
    Það eru nokkur almenn atriði sem ég tel að þurfi að hafa í huga. Ég held að það þurfi að lesa þetta vandlega saman við önnur lög. Það eru í þessu ákvæði sem mér finnst ástæða til að nefndin fullvissi sig um að ekki stangist á við önnur lög. Það er t.d. um leitarheimildina í 20. gr., að þar sé farið eftir eðlilegum lagaramma. Hér er heimild til eftirlits og húsleitar í útihúsum en íbúðarhús undanskilin. Mér finnst að þetta þurfi ofurlítið nánari athugunar við.
    Í 11. gr. um búfjárhald er að sjálfsögðu nauðsynlegt að þarna sé samræmi á milli og eins og hæstv. umhvrh. tók fram er þessum lögum væntanlega ekki ætlað að hnika til lögunum um búfjárhald. Bara að

það sé skýrt.
    Enn fremur má setja út á þetta frv. þær mjög víðtæku heimildir sem ráðherra eru fengnar til reglugerðasetninga. Það á kannski ekki sérstaklega við um þetta frv. Það er orðin almenn tíska í lagasetningu, og hefur borið sérstaklega á því í sambandi við EES-frumvörpin, að ráðherrum er ætlað að setja reglugerðir um hvað eina. Með því er Alþingi að afsala sér íhlutunarrétti í lagasetninguna, þ.e. það eru sett einhver rúm lög og síðan er ráðherrum ætlað að setja nánari reglugerðir. Nú treysti ég hæstv. núv. ráðherra til þess að fara skynsamlega með þetta vald en það gæti vel farið svo, þó vel hafi tekist til um báða þá sem valist hafa til að vera umhvrh., að einhvern tímann kæmi í það starf aðili sem væri smámunasamur og færi með þetta reglugerðavald af gáleysi.
    Ég vil gera athugasemd við 8. gr. frv. sem hljóðar svo:
    ,,Eyrnamarka skal dýr sem yngst og á þann hátt að valdi sem minnstum sársauka. Óheimilt er að eyrnamarka fullvaxið dýr án deyfingar.``
    Þetta getur átt við í sumum tilfellum. T.d. er ég algjörlega samþykkur því að ekki sé heimilt að marka fullorðið hross án deyfingar því það hefur tvímælalaust af því varanlegan skaða. Hins vegar tel ég að t.d. þegar marka á sauðfé sé algjörlega ástæðulaust að beita deyfingu. Þetta er málefni sem skiptir dálitlu máli vegna þess að það er töluvert um það að verslað sé með sauðfé og er þar skemmst að minnast þar sem riðuniðurskurður fer fram. Bóndi kaupir lömb einhvers staðar að og þarf undantekningarlítið að marka þau upp undir sitt mark, mark hins nýja eiganda. Nú vita það allir sem markað hafa fullorðið sauðfé að það er ekki mjög sársaukafullt fyrir sauðkindina. Sauðkindin hefur taugakerfi þannig að hún er mjög hörð af sér. Ég held að þetta sé af vangá haft fortakslaust í 8. gr. og vil láta það koma fram að ég tel algjörlega ástæðulaust að beita deyfingu við mörkun á fullorðnu sauðfé.
    Ég vil líka lýsa ánægju minni yfir því að dýraverndarráð skuli sett á fót skv. 18. gr. og geri engar athugasemdir við það. Þar sem umhvrh. á að skipa einn mann í ráðið án tilnefningar og hann er jafnframt formaður sé ég að þarna er jafnframt kjörið tækifæri til þess að ,,plasera`` einhverjum kratanum og gera hann að formanni dýraverndarráðs. Forustumenn Alþfl. eru mjög á faraldsfæti og sitja mjög fyrir embættum sem ráðherrar Alþfl. hafa vald á og þarna tel ég að gæti verið bara þokkalegur biti fyrir einhvern þeirra. Þetta er að vísu miklu minna en að vera seðlabankastjóri eða jafnvel yfirbankastjóri Seðlabankans eða forstjóri Tryggingastofnunar eða sendiherra í París eða New York eða hvað þau nú heita öll þessi lönd. ( SvG: Er ekki hægt að hafa þetta með einhverju?) Það er einmitt hægt að hafa þetta með einhverju og þá gæti jafnvel formaður dýraverndarráðs, ef kratar eru uppurnir, líka orðið formaður villidýranefndar sem verður til umræðu væntanlega síðar á fundinum.
    Ég mun ekki að þessu sinni gera tillögu um krata í þessa stöðu en ég fagna frv. Ég veit að hæstv. umhvrh. verður ekkert í vandræðum að finna ,,kvalifíseraðan`` krata til þess að taka að sér þetta verk. Ég styð þetta frv. en vildi láta þessar athugasemdir koma fram við 1. umr. málsins og biðja fyrst og fremst um það að málið verði sent landbn. til umsagnar af umhvn. og hugað verði að þessum atriðum öðrum sem ég hef nefnt.