Endurskoðun laga um mannanöfn

126. fundur
Fimmtudaginn 11. mars 1993, kl. 11:08:04 (5888)

     Dómsmálaráðherra (Þorsteinn Pálsson) :
    Herra forseti. Ég vil taka undir með hv. fyrirspyrjanda og þakka þá stuttu umræðu sem hér hefur farið fram. Það er sannarlega ástæða fyrir Alþingi að horfa á þetta mál og taka á því. Það er mikilvægt að um þetta efni skapist samstaða og gildandi löggjöf og framkvæmd hennar leiði ekki til ósættis í þjóðfélaginu.
    Ég hygg að sá ágreiningur sem uppi er um framkvæmd laganna stafi ekki af aðstöðuleysi mannanafnanefndar og þar komi aðrir hlutir til. Þess vegna sé óhjákvæmilegt að endurskoða lögin eins og nú verður gert í ljósi þeirrar reynslu sem fengin er og í þeim tilgangi að skapa meiri sátt um framkvæmdina. Ég hygg að við þurfum ekki að deila hér um meginmarkmiðið en í framkvæmd laganna hafa komið upp svo mörg álitaefni sem orka tvímælis að undan því verður ekki vikist að hefja þessa endurskoðun.
    Með því að hv. 6. þm. Vestf. situr beint fyrir framan mig kemur það upp í hugann að eitt af þeim álitaefnum sem skotið var til ráðuneytisins, þó að það hefði auðvitað engin tök á að gera nokkurn hlut í því, var að fjölskylda sem notað hafði millinafnið Vestfjörð, ekki aðeins í áratugi heldur eina eða tvær aldir, gat það allt í einu ekki lengur vegna þess að það var talið stríða gegn íslenskri mannanafnahefð. Ég hef ekki enn skilið þá niðurstöðu. Augljóst dæmi eins og þetta sýnir hversu brýnt það er að endurskoða lögin.