Námsstyrkir doktorsefna

126. fundur
Fimmtudaginn 11. mars 1993, kl. 11:26:47 (5901)

     Fyrirspyrjandi (Össur Skarphéðinsson) :
    Virðulegi forseti. Í umræðum sem fóru fram hér í þingsölum og tengdust breytingum á Lánasjóði ísl. námsmanna var bent á það, bæði af stjórnarliðum og þingmönnum stjórnarandstöðunnar, að mjög hertar reglur um endurgreiðslur lánanna kynnu að leiða til þess að mjög erfitt yrði fyrir námsfólk að fara út í langt og dýrt sérfræðinám. Ég benti til að mynda á að það gæti leitt til þess að það yrði skortur á tilteknum vísindamönnum sem að öðru jöfnu hverfa til starfa hjá hinu opinbera en eiga þess ekki kost að afla sér hálaunaðra starfa í einkageiranum sem gæti gert þeim kleift að borga niður þetta langa og dýra nám. Það hefur komið fram á undanförnum árum að það er að verða skortur á ákveðnum fræðimönnum, til að mynda leit um tíma út fyrir að enginn námsmaður væri í námi sem tengdist fiskifræðum.
    Í umræðunni svaraði hæstv. menntmrh., m.a. hér á þingi þann 11. febr. 1992, að hann hygðist beita sér fyrir lagabreytingum sem gerðu kleift að veita styrki til námsmanna í langskólanámi og drap þar sérstaklega á doktorsefni. Ég vil í tilefni af þessu inna ráðherra eftir því hvenær sé að vænta tillagna um þessar lagabreytingar.