Barnasjónvarp

126. fundur
Fimmtudaginn 11. mars 1993, kl. 12:25:52 (5929)

     Hjálmar Jónsson :
    Virðulegi forseti. Barnasjónvarp Ríkisútvarpsins á ekki að koma á óvart. Það hefur verið á dagskrá í mörg ár. Stöð 2 hefur sýnt á laugardags- og sunnudagsmorgnum og það hefur gefið góða raun. Fólk er yfirleitt ánægt með það. Hins vegar nær Stöð 2 ekki til allra landsmanna og því er það einnig jafnréttismál að öll börn njóti þess sama réttar. Í útvarpslögum frá 1985 segir í 15. gr. kafla um Ríkisútvarpið, með leyfi forseta:
    ,,Sérstaklega skal þess gætt að hafa á boðstólum fjölbreytt efni við hæfi barna, jafnt í hljóðvarpi og sjónvarpi.``
    Hvað varðar fjárhaginn er þess að geta að Ríkisútvarpið skuldar ekki háar fjárhæðir. Það eru einkum eftirstöðvar húsbyggingarinnar að Efstaleiti 1 en nú er unnið að því að grynnka á þeirri skuld og verður tekið úr rekstri eftir því sem mögulegt er. Það er fylgt mjög strangri sparnaðaráætlun og þess verður gætt að hún standist.