Stálvinnslan hf.

126. fundur
Fimmtudaginn 11. mars 1993, kl. 12:58:22 (5947)

     Fyrirspyrjandi (Svavar Gestsson) :
    Virðulegur forseti. Um nokkurra áratuga skeið var það svo hér á landi að eitt fyrirtæki hafði það verkefni aðallega að safna saman brotajárni. Það var fyrirtækið Sindri hf. í Reykjavík. Fyrirtækið hafði aðstöðu til þess að tæta járnið og síðan var það flutt út þannig en var ekki brætt eða unnið frekar hér á landi. Þegar undirbúningur hófst að stofnun stálfélagsins á sínum tíma varð niðurstaðan sú að það má segja að stálfélagið hafi yfirtekið þessa starfsemi. Ákvörðunin um það var í raun og veru tekin eftir að samningar höfðu náðst við fyrirtækið Sorpu hér í Reykjavík sem hefur gegnt mjög þýðingarmiklu hlutverki í umhverfismálum í byggðarlaginu.

    Þegar fyrirtækið fór af stað á sínum tíma kom m.a. hæstv. þáv. umhvrh. við sögu með formlegum hætti við það að fyrirtækið fór af stað. Það varð auðvitað til að undirstrika að þetta er ekki eingöngu og ekki fyrst og fremst atvinnufyrirtæki heldur er þetta umhverfisvænt fyrirtæki. Það leiðir hugann að því að það þarf, eins og kostur er, að huga að stefnu í atvinnumálum þar sem saman fer annars vegar umhverfisstefna og hins vegar atvinnustefna. Það er hægt að nefna mýmörg dæmi um það að þessir þættir geta farið fjarska vel saman þó svo mönnum hætti við að líta á atvinnurekstur og umhverfisvernd sem andstæður hvors annars með beinum hætti.
    Af þessum ástæðum er það, virðulegur forseti, sem ég hef beint þessari fsp. til hæstv. umhvrh. Það háttar þannig til að hér munu falla til á ári um 16--18 þús. tonn af brotajárni. Núna liggur í umsjá þrotabúsins til skamms tíma um 30.000 tonna haugur sem verður unnið úr á næstunni. Það er því nauðsynlegt af umhverfisástæðum að þetta fyrirtæki verði starfrækt. Þess vegna fannst mér ástæða til að spyrja hæstv. umhvrh. að því hvort hann hefði haft afskipti af því sem ráðherra að reyna að knýja á um það að starfsemi þessa fyrirtækis héldi áfram með sem bestum hætti.