Skuldastaða heimilanna

126. fundur
Fimmtudaginn 11. mars 1993, kl. 13:17:09 (5955)

     Einar K. Guðfinnsson :
    Virðulegi forseti. Þegar þessi tímabæra umræða fer fram um alvarlega skuldastöðu heimilanna sem fyllilega er ástæða til þess að vekja athygli á, þá verðum við samt sem áður að hafa það í huga að á sama tíma hefur líka orðið mikil eignamyndun í þjóðfélaginu. (Gripið fram í.) Fjárfesting í íbúðarhúsnæði almennings hefur aukist gríðarlega mikið. Þetta verðum við auðvitað að hafa í huga. Það hins vegar breytir því í sjálfu sér ekki sem er aðalatriði, og ég hygg aðalástæða fyrir því að hv. fyrirspyrjandi leggur fram þessa fsp., að skuldastaða heimilanna er jafnalvarleg fyrir vikið. Þær upplýsingar að heildarskuldir heimilanna í landinu nemi núna 250 milljörðum kr. segja okkur einfaldlega að það sem mestu máli mun skipta núna í þessum kjarasamningum og í framtíðinni er það hvort það takist að lækka vextina í landinu. Ég vek athygli á því að 3% raunvaxtalækkun eins og er hin skynsamlega og eðlilega og sjálfsagða krafa sem uppi er m.a. frá talsmönnum atvinnulífsins mun þýða 7,5 milljarða tilfærslu til heimilanna í landinu. Og þess vegna skiptir það öllu að okkur takist að varðveita hér þann stöðugleika sem við höfum verið að skapa og mynda þannig svigrúm til þessarar nauðsynlegu vaxtalækkunar til að koma þannig til móts við hin skuldsettu heimili í landinu.