Evrópuráðsþingið

127. fundur
Fimmtudaginn 11. mars 1993, kl. 15:51:50 (5983)

     Hjörleifur Guttormsson (andsvar) :
    Virðulegur forseti. Ég vil skilja orð hv. þm. varðandi hugsanlegt samráð þeirra deilda, Íslandsdeilda í alþjóðasamstarfi sem fyrir eru um jákvæðar undirtektir við þá hugmynd og tel að þó að það væri ekki gert nema í tilraunaskyni í fyrstu, þá væri það þess virði að bera sig saman með þeim hætti. Mér er

auðvitað fyllilega ljóst að um hin ýmsu efni eru ekki teknar bindandi ákvarðanir í þingmannahópnum og skoðanir geta þar verið skiptar, en hins vegar er auðvitað mjög æskilegt ef menn ná saman um mál, stór mál á slíkum vettvangi og geta unnið að þeim sameinað og með samhljómi á slíkum vettvangi sem þessum. Ég tel raunar að kjarnorkumálin og spurningin um viðhorf til kjarnorkuiðnaðar ætti að geta verið slíkt viðfangsefni þar sem Íslendingar gætu náð saman þvert á flokka og þyrftu að ná saman og þyrftu að beita sér á alþjóðavettvangi með samræmdum hætti á móti þeim ófögnuði og fyrir því að menn fyrr en seinna komi sér út úr kjarnorkunotkun til orkuframleiðslu því að þar eru menn að safna eld að eigin höfði, komandi kynslóða, þannig að augljóslega stefnir í hreinan voða ef menn ekki geta snúið af þeirri braut.