Fræðslustörf um gigtsjúkdóma

127. fundur
Fimmtudaginn 11. mars 1993, kl. 17:12:31 (5990)

     Flm. (Ingibjörg Pálmadóttir) :
    Virðulegur forseti. Það gleður mig mjög að hæstv. heilbrrh. skuli vera hér innan dyra því hér er ég með frv. sem á að auka kostnaðarvitund hans og spara í heilbrigðiskerfinu.
    Þessi tillaga er á þskj. 273 og er flutt auk mín af Ingibjörgu Sólrúnu Gísladóttir, Svavari Gestssyni, Láru Margréti Ragnarsdóttur og Jóni Helgasyni. Hún fjallar um forvarnir og fræðslu um gigtsjúktóma og er ætlað að spara þjóðfélaginu þegar til lengri tíma er litið nokkra milljarða árlega.
    Sá sjúkdómur, sem þessi þáltill. fjallar um, þ.e. gigtsjúkdómar, er talinn kosta íslenska ríkið tíu milljarða árlega. Inni í þeirri upphæð eru m.a. sjúkrahúslega, heilsugæslukostnaður, endurhæfing, lyfjakostnaður og vinnutap, hjálpartæki og ýmis sérfræðikostnaður.
    Sem dæmi má taka að árið 1990 voru greiddir sjúkradagpeningar fyrir gigtsjúklinga í samtals 51.511 daga. Þá fær fimmti hver öryrki örorkubætur vegna gigtsjúkdóma. Þegar giskað var á að spara mætti 15% af þjóðarútgjöldum Íslendinga eða allt að tíu milljörðum kr. árlega ef unnt væri að koma í veg fyrir gigt er auðséð að hér er til mikils að vinna. Bandarískir arðsemisútreikningar hafa leitt ljós að hver króna til gigtlækninga skilar sér fertugfalt til baka og er þá ekki talað um þá miklu þjáningu sem sparast ef koma má í veg fyrir sjúkóminn eða halda honum í skefjum.
    Fullnægjandi skýringar hafa ekki fengist á hvað veldur þessum sjúkdómi en vitað er að margir samvirkandi þætti, bæði meðfæddir og ytri þættir, orsaka gigt. Fullnægjandi skýringar hafa hins vegar ekki fengist og er frekari rannsókna því þörf. Íslenskir fræðimenn hafa lengi stundað rannsóknir á gigtsjúkdómum og hlotið alþjóðlega viðurkenningu fyrir störf sín. Rannsóknir þeirra hafa hins vegar að mestu verið stundaðar í hjáverkum sökum fjárskorts. Gigtarfélag Íslands stóð nýverið fyrir söfnun fjár í Vísindasjóð félagsins sem nota á til að kosta rannsóknir á gigtsjúkdómum. Að mati flutningsmanna er mikilvægt að ríkisvaldið aðstoði félagið eftir föngum við framkvæmd og fjármögnun rannsóknanna. Er því lagt til að heilbrigðisráðherra verði falið að móta tillögur um eflingu rannsókna á gigtsjúkdómum í samráði við Gigtarfélagið. Að sögn sérfræðinga nýtur Ísland nokkurrar sérstöðu sem gerir það að verkum að rannsóknir á gigtsjúkdómum eru að mörgu leyti auðveldari hér á landi en víða erlendis. Kemur þar til hversu fámenn þjóðin er en það m.a. auðveldar faraldurs- og erfðafræðilegar rannsóknir, svo og nálægð og náin samvinna vissra sérgreina læknisfræðinnar sem oft einangrast á stórum stofnunum erlendis. Þá eru ættartölur góðar og almennur ættfræðiáhugi ríkjandi, en eins og ég sagði hér áðan er sjúkdómurinn að hluta arfgengur, svo og skilningur á nauðsyn læknisfræðilegra rannsókna. Er því brýnt að gerðar verði tillögur um eflingu rannsókna á þessu sviði, enda kosta gigtsjúkdómar þjóðfélagið ómælt fé og sjúklinga miklar og varanlegar þjáningar.
    Það er að mati flutningsmanna mikilvægt að fræða fólk um gigtsjúkdóma og þá þætti sem leitt geta til þeirra. Forvarnastarf með áherslu á réttri hreyfingu og réttu mataræði skiptir hér mestu. Rannsóknir sýna t.d. að neysla mjólkur og lýsi dregur verulega úr hættu á beinþynningu sem einkum hrjáir miðaldra fólk og einkum konur.
    Beinþynningin er mjög dýr sjúkdómur því hann veldur því að fólki verður hættara við að beinbrotna en ella og ef við lítum á það hvað hvert brot kostar þá væri hægt að spara hér verulega ef hægt væri að koma í veg fyrir beinþynningu eða draga úr þeim sjúkdómi.
    Þegar talað er um gigtsjúkdóma er talað um sjúkdóma í bandvef svo og sársaukafulla kvilla í stoðkerfi líkamans. Gigtsjúkdómar eru flokkaðir í marga flokka eins og kemur fram í greinargerðinni með þessari þáltill. Í greinargerðinni eru taldir upp margir þeir flokkar sem teljast til gigtsjúkdóma. Alls er talað um tvöhundruð sjúkdóma sem flokkast undir gigt. Algengustu sjúkdómarnir eru slitgigt og iktsýki. Iktsýki er bólgusjúkdómur en slitgigt eins og nafnið bendir til er annars eðlis. Þetta eru tveir ólíkir sjúkdómar og þurfa ólíka meðferð.
    Árið 1992 var eins og fyrr segir norrænt gigtarár. Markmið norræns gigtarárs var annars vegar að vekja athygli á gigtinni, tíðni sjúkdómsins og áhrifum hans og hins vegar að efla forvarnir. Ákvörðun Norðurlandaráðs má rekja til hins mikla fjölda gigtsjúklinga á Norðurlöndum og þess gríðarlega fjárhagslega tjóns og þeirra þjáninga sem af gigtinni hljótast. Talið er að á Norðurlöndunum séu fimm milljónir gigtsjúklinga og þar af um fimmtíu þúsund hér á landi. Ætla má að gigtsjúkdómar hafi í för með sér beinan og óbeinan kostnað fyrir Norðurlöndin sem nemur þúsund milljörðum árlega, eitt þúsund milljörðum árlega.
    Samhliða þessum tillögum um auknar rannsóknir, forvarnir og fræðslustörf um gigtsjúkdóma kemur einnig fram í greinargerð með tillögunni mikilvægi endurhæfingar gigtsjúkra en slík endurhæfing krefst mikils sérhæfðs mannafla, góðrar aðstöðu, tækjabúnaðar og húsnæðis. Markmið endurhæfingar er að hjálpa gigtsjúkum til að lifa sem eðlilegustu lífi. Endurhæfingin er einkum fólgin í sjúkra- og iðjuþjálfun og meðferð hjá kírópraktor. Til er hér í landi hópur sérfræðinga sem vinna að þessum málum og eflaust er hægt að samhæfa störf þeirra meir en gert er í dag. Til þess þarf stefnumótun frá heilbrigðisyfirvöldum.
    Við Landspítalann í Reykjavík er rekið stærsta sérhæfða gigtardeildin hér á landi. Auk þess starfa sérfræðingar í gigtlækningum á Landspítala, Grensásdeild, Borgarspítalanum, Vinnuheimili SÍBS á Reykjalundi, Heilsuhæli NLFÍ í Hveragerði og Fjórðungssjúkrahúsinu á Akureyri svo og á einkastofum. Greining, meðferð og endurhæfing gigtsjúkra fer fram á þessum stöðum og á Gigtlækningastöðinni í Reykjavík sem rekin er af Gigtarfélagi Íslands. Þá var nýlega stofnuð endurhæfingardeild á Kristneshæli í Eyjafirði,

hver sem verður nú framtíð þess hælis. Aðstæður til endurhæfingar eru þó ekki fullkomnar þrátt fyrir þessa upptalningu. Þannig er engin endurhæfingarlegudeild nú rekin við Landspítalann og hugmyndir hafa verið um að fækka gigtarsérfræðingum þar. Að áliti flm. er mikilvægt að haldið verði áfram öflugri þjónustu við gigtsjúka hér á landi um leið og enn frekar verði ráðist að rótum vandans. Er því æskilegt að heilbrrh. móti tillögur um þetta efni og leggi fyrir Alþingi, en út á það gengur þessi þáltill.
    Að undanförnu hefur fátt verið rætt meira almennt en um heilbrigðismál og sparnað í heilbrigðiskerfinu. Minna er rætt um hvernig spara megi peninga á varanlegan hátt með því að koma í veg fyrir sjúkdóma. Það er minna rætt um heilsteypta stefnu í heilbrigðismálum almennt. Miklar breytingar hafa verið gerðar að undanförnu varðandi kostnaðarþátttöku einstaklinga. Flestar þessar breytingar eru gerðar, að sögn hæstv. ráðherra, til að auka kostnaðarvitund einstaklinga. En ég fyllyrði að þessar sífelldu breytingar auka ekki kostnaðarvitund sjúklinga enda tel ég það ekki brýnast í heilbrigðismálum nema síður væri. Það verður ávallt dýrara að vera sjúkur en heilbrigður. Ég tel að ódýrasta lausnin til að spara í heilbrigðismálum almennt sé að gera sér ljóst hvernig á að halda í gott heilsufar með því að koma í veg fyrir veikindi og slys. Það er t.d. hægt að miklu leyti í þessu tilviki sem ég hef verið að ræða um með því að auka rannsóknir, forvarnir og fræðslustörf varðandi gigtsjúkdóma sem eru taldir kosta þjóðina 15% af íslenskum þjóðarútgjöldum. Ég held að það sé einmitt þessi kostnaðarvitund sem vantar hjá heilbrigðisyfirvöldum um gildi aukinna rannsókna til að koma í veg fyrir sjúkdóma en ég hef litla trú á því að það skili ríkinu til lengri tíma miklum fjárupphæðum að láta sjúkt fólk greiða meira en góðu hófi gegnir fyrir heilbrigðisþjónustuna. Það eykur ekki kostnaðarvitund, það bætir ekki heilsuna, það leiðir aðeins til ójöfnuðar í þjóðfélaginu.
    Virðulegi forseti. Gigtsjúkdómar og gigtareinkenni eru algengustu vandamál sem valda því að fólk leitar læknis. Einungis kvef og hliðstæðir kvillar eru algengari. Bara þær athuganir sem gerðar hafa verið varðandi óþægindi frá hálsi og herðum sem eru mest vegna atvinnusjúkdóma hafa kostað okkur nálægt hálfum milljarði árlega um langan tíma. Þennan hálfa milljarð mætti spara að mestu leyti með því að gefa fólki betri leiðbeiningar um eðli og orsakir og gera meiri kröfur til hollustu á vinnustöðum.
    Virðulegur forseti. Við Íslendingar getum verið í fararbroddi á þessu sviði. Að umræðu lokinni legg ég til að þessari tillögu verði vísað til hv. heilbr.- og trn.