Eiginfjárstaða innlánsstofnana

131. fundur
Miðvikudaginn 17. mars 1993, kl. 16:15:48 (6103)

     Viðskiptaráðherra (Jón Sigurðsson) (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Með óvenjulegum og ósvífnum hætti vænir hv. 8. þm. Reykn. mig enn á ný um ósannindi. Þar hygg ég að sök hljóti sekan að bíta því fáir menn fara með ósannara mál úr þessum ræðustól en hv. 8. þm. Reykn. Á fundi mínum með bankastjórum Landsbankans í gær, sem mér er ekki kunnugt um að hv. þm. eigi aðgang að, var ekki fjallað nákvæmlega um tímasetningar í málinu. Það orkar flest tvímælis þá gert er. En hafi einhverjir efast um að nauðsynlegt væri að ljúka málinu skjótt þá hvarf sá efi allur eftir að menn heyrðu framgöngu þeirra hv. 8. þm. Reykn. í dag í fjölmiðlum og hv. 7. þm. Reykn. í gær. Þá var þetta náttúrlega orðið alveg ljóst að það var rétt ráðið því að sá bylur sem þar var á brostinn mátti ekki standa lengi. Það él varð að stytta upp og það mun líka gera það.