Eiginfjárstaða innlánsstofnana

131. fundur
Miðvikudaginn 17. mars 1993, kl. 18:17:04 (6122)

     Steingrímur J. Sigfússon (andsvar) :
    Hæstv. forseti. Í fyrsta lagi varðandi herkostnaðinn af þessu þá var ég þar að fjalla um aðferðir sem hæstv. ríkisstjórn viðhafði. Að sjálfsögðu er það svo að ef bankinn verður fyrir álitshnekki, athygli er dregin að því að staða hans sé að veikjast og hann þurfi sérstakra björgunaraðgerða við, felst í því ákveðinn herkostnaður. Að breyttu breytanda, burt séð frá því hvort eigið fé er aukið meira eða minna þá kostar sú rýrð á áliti bankans hann eitthvað í óhagstæðari lánskjörum o.s.frv. Það er alveg ljóst. Það var þetta sem ég var að fjalla um og það er náttúrlega æskilegt að hæstv. forsrh. hlýði á ræður sem hann ætlar sér svo að veita andsvör við. Ég er ekki viss um að hæstv. forsrh. hafi verið kominn í salinn þegar ég var aðallega að fjalla um þetta mál og rökstuddi það hvers vegna ég teldi að þessi aðferð ríkisstjórnarinnar og vinnubrögð hefðu skaðað bankann.
    Varðandi það að gera þessar ráðstafanir í kyrrþey, þá er það alveg rétt hjá hæstv. forsrh., það má segja að það sé nokkuð sérkennilega til orða tekið, en þannig vill nú til að ég var að hafa eftir óbreytt orð bankastjóra Landsbankans sem sagði að jafnvel þó svo að þessi ákvörðun hefði verið tekin í kyrrþey, hún tilkynnt eftir á og rökstudd samtímis þá mundi aðgerðin ein og sér vekja spurningar erlendra viðskiptavina og kalla á það að Landsbankinn yrði að svara og útskýra fyrir lánardrottnum hvers vegna þurfti að grípa til þessara aðgerða. --- Heyrið þið félagar, er eitthvað að hjá ykkur? --- Þetta skilja allir menn. Orða

það í kyrrþey vísar fyrst og fremst til þess að menn hefðu reynt að taka þessa ákvörðun rólega og með sem allra mestri yfirvegun án þess að það yrði sérstakt umfjöllunarefni fyrr en hægt var samtímis að kynna hana og rökstyðja. Á því gafst ekki færi að þessu sinni eins og ég m.a. vék að og upplýsti að Landsbankinn hefur ekki enn getað svarað viðskiptavinum sínum neinu um þessa aðgerð eða útskýrt hana.