Ráðstafanir til orkusparnaðar

132. fundur
Fimmtudaginn 18. mars 1993, kl. 12:16:43 (6184)

     Fyrirspyrjandi (Jóhann Ársælsson) :
    Virðulegur forseti. Ég hef leyft mér að bera fram fsp. á þskj. 711 til umhvrh. um ráðstafanir til orkusparnaðar og til að draga úr mengun frá bensín- og dísilvélum.
    Fsp. er í þremur liðum.
  ,,1. Hvaða úrræði til orkusparnaðar og til að draga úr mengun frá bensín- og dísilvélum eru til athugunar á vegum ráðuneytisins?
    2. Hvaða tillögur hefur umhverfisráðherra lagt fram í ríkisstjórn um aðgerðir sem spara orku og draga úr mengun?
    3. Hefur sú nefnd, sem umhverfisráðherra skipaði fyrir ári til að kanna notagildi brennsluhvata á bensínog dísilvélar til að minnka mengun og spara orku, skilað áliti? Hver var niðurstaðan af starfi nefndarinnar?``
    Ég verð að segja í upphafi að það hefur dálítið vafist fyrir mér undanfarið hvort það væri eitthvað að gerast til þess að vinna að orkusparnaði og til að minnka mengun frá vélum í bílum og skipum á Íslandi. Það var þess vegna sem ég ákvað að bera fram þessa fsp. En það vildi svo til að fjórum til fimm dögum eftir að ég lagði þessa fsp. inn til þingsins þá birtist skýrsla sem hæstv. umhvrh. hafði gert um mótun stefnu í umhverfismálum. Það er vissulega margt í þeirri skýrslu athyglivert og merkilegt og markmiðin eru reyndar sett þar mjög hátt því í markmiði sem sett er fram í skýrslunni stendur: ,,Markmið ríkisstjórnarinnar er að Ísland verði um næstu aldamót hreinasta land hins vestræna heims.`` Ekkert minna. Ég vona að þetta markmið sé raunhæft og það náist. Orð eru að vísu til alls fyrst en gerðir eru líka nauðsynlegar ef orðin eiga að öðlast eitthvert innihald. Ég vil segja að það var von mín að við þessum fyrirspurnum kæmu svör þar sem það kæmi fram að verið væri að vinna raunhæft að málunum, það væru einhverjar orkusparandi aðgerðir að líta dagsins ljós, aðgerðir sem munu minnka mengun frá þessum vélum sem ég nefndi hér áðan.