Hvalveiðar

133. fundur
Fimmtudaginn 18. mars 1993, kl. 17:06:47 (6232)

     Árni M. Mathiesen :
    Frú forseti. Það voru vissulega mikil mistök þegar við létum undir höfuð leggjast að mótmæla hvalveiðibanninu á sínum tíma eins og fram kom hjá hv. 1. flm. þessarar tillögu. Þetta hefur valdið okkur ómældum vandræðum síðan í öllu því er við höfum verið að snúast í kringum þetta mál. Það var auðvitað rétt ákvörðun hjá okkur sl. sumar að segja okkur úr hvalveiðiráðinu því að eðli hvalveiðiráðsins var orðið allt annað en það var þegar við í upphafi gengum í það. Þetta eru ekki lengur samtök þeirra aðila sem nýta hvalastofnana og hafa af því hagsmuni að þeir séu nýttir á réttan hátt en ekki ofnýttir, heldur eru þetta orðin dýraverndarsamtök sem ekki einu sinni hafa það á stefnuskrá sinni bara að vernda hvali frá útrýmingu heldur hafa það á stefnuskrá sinni að hvalir verði alls ekki veiddir og færa fyrir því einungis tilfinningaleg rök.
    Þegar við hefjum hvalveiðar verðum við að fylgja því vel eftir með kynningu á okkar málstað. Þar verða að koma að málinu a.m.k. þrjú ráðuneyti, þ.e. sjútvrn., utanrrn. og umhvrn. Og við verðum í þessari kynningu að reyna að nýta okkur sem við best getum þá kynningu sem ég veit að Norðmenn láta nú fara fram á sínum málstað. Það er ekki vegna þess að ég vantreysti okkur Íslendingum til þess að kynna okkar málstað, heldur vegna þess að ég veit það að Norðmenn hafa meiri fjármuni til þess að leggja í slíka kynningu og okkar fjármunir munu nýtast betur ef við getum stillt okkur að einhverju leyti af miðað við þá kynningu sem Norðmenn láta fara fram. En það er ekki bara ein einstök kynningarherferð sem mun duga okkur í þessu máli. Við Íslendingar þurfum að hafa að bakhjarli almenna og vel útfærða umhverfisstefnu hér heima hjá okkur. Það verður að vera umhverfisstefna sem byggist á sjálfbærri þróun í samræmi við það sem við ásamt öðrum þjóðum samþykktum á umhverfisráðstefnu Sameinuðu þjóðanna í Rio de Janeiro sl. sumar. Og við verðum að geta sýnt fram á að það sem við erum að gera heima hjá okkur til þess að vernda fiskstofnana, til þess að vernda hafið og náttúru landsins, sé í samræmi við þá stefnu og við séum trúverðugir á því sviði. Það mun verða það sem dugir okkur best í þessu máli.
    Það hefur orðið hér umræða um hvernig við eigum að standa að samskiptum við Greenpeace. Þetta eru samtök sem hafa mistúlkað hvalveiðimálin og sjálfsagt önnur mál á allillilegan hátt og þess vegna er það mjög varhugavert að bendla okkur við eitthvert samstarf við þessa aðila. En við verðum þó að gera okkur grein fyrir því að sumt af því sem þessi samtök segja, er stuðningur við okkar málstað í öðrum málum og því megum við ekki vísa röksemdum þeirra í þeim málaflokkum á bug heldur taka undir þær án þess þó að eiga í nokkru formlegu eða óformlegu samstarfi við þessa aðila.
    Það var aðeins drepið hér á GATT-samkomulagið og hvernig því er stundum beitt á rangan hátt til þess að ná fram umhverfislegum sjónarmiðum. Þetta er auðvitað afar viðkvæmt málefni og málefni sem við verðum að gefa gaum, ekki einungis vegna þess að það getur komið illa við okkur ef því er misbeitt, heldur einnig vegna þess að beiting ákvæða í þessu skyni getur verið afar mikilvæg fyrir þróun umhverfismála í heiminum. Við þurfum því að taka virkan þátt í þeirri umræðu sem nú fer fram um breytingar á GATT-samkomulaginu sem taka mið af því að það sé hægt að beita samkomulaginu til þess að ná fram umhverfislegum markmiðum í samræmi við stefnu sjálfbærrar þróunar, þeirrar sem samþykkt var í Ríó og oft hefur verið nefnd hér. Það er auðvitað sérstaklega mikilvægt fyrir okkur að við gætum þess og reynum að hafa áhrif á það að þetta sé gert á skynsaman hátt því að það eru fáar þjóðir sem byggja jafnmikið á frjálsri verslun og við Íslendingar gerum.
    Ég vil að lokum þakka flm. fyrir það að flytja þessa tillögu því að það var orðið tímabært að þetta væri rætt hér á Alþingi og til þess að forðast það að ég verði eitthvað misskilinn vil ég lýsa því yfir að ég mun styðja þessa tillögu.