Framhaldsskólar

136. fundur
Mánudaginn 22. mars 1993, kl. 15:25:29 (6335)

     Kristín Ástgeirsdóttir :
    Virðulegi forseti. Hér er til umræðu frv. til laga um breytingar á framhaldsskólalögunum sem felur í sér að menntmrh. fái heimild til að efna til tilraunastarfs í starfsnámi og geti þá vikið frá ákvæðum gildandi laga ef á þarf að halda.
    Eins og hér hefur komið fram virðist þetta lítið frv. í sjálfu sér þegar á það er horft en margar spurningar vakna við að lesa frv. og grg. um hvað sé eiginlega á ferðinni. Í fyrsta lagi vill svo til að stór nefnd er að störfum sem er að endurskoða nánast allt íslenska skólakerfið, grunnskólann og framhaldsskólann. Og ég spyr: Hvaða nauðsyn er á því að taka þetta mál þar út úr? Í umræðu um skólamál sem átt hefur sér stað í vetur og reyndar í fyrra líka vísaði ráðherrann iðulega til þess að það væri verið að endurskoða grunnskólalögin og ég spyr: Þarf ekki að skoða verknámið allt í heild og móta þar heildarstefnu í stað þess að taka einstakt atriði út úr og færa hæstv. menntmrh. það vald í hendur og hann fari að ákveða svona tilraunaverkefni?
    Í sjálfu sér er ég alls ekki á móti því að lagt sé út í tilraunaverkefni í verknáminu og tel það af hinu góða en ég set spurningarmerki við að ráðherranum sé veitt slík heimild. Mér finnst það óeðlilegt að menntmrh. sé að setja svona verkefni af stað einn og sér. Samkvæmt lögum er það hlutverk framhaldsskólans að setja reglur um á hvaða brautum eigi að kenna og ég veit ekki til að það hafi skort á vilja skólanna til þess að koma með nýjar tillögur og þróa sig í ýmsar áttir. Ef eitthvað hefur skort er það vilji stjórnvalda og þá fyrst og fremst fjármagn til þess að stunda slíka tilraunastarfsemi. Ég set því strax ákveðinn fyrirvara varðandi það vald sem hér er verið að færa í hendur ráðherranum.
    Þá er það ekki síst vegna þess að í áðurnefndri skýrslu skólamálanefndarinnar er lögð mikil áhersla á sjálfstæði skóla og valddreifingu og að stjórnendur beri ábyrgð á því sem gerist innan veggja skólans. Mér finnst þessi tillaga ganga í þveröfuga átt þannig að það er eitthvert sambandsleysi milli vinstri og hægri handarinnar í menntmrn. hvað þessi mál varðar.
    Mig langar til þess að spyrja hæstv. menntmrh. hvort það séu einhver ákveðin verkefni í verknámi sem hann vill endilega koma á laggir og hefur í huga fyrst svo brýna nauðsyn ber til þess að taka þetta atriði út úr endurskoðun skólamálanna.
    Það er mikið talað um að það þurfi að bæta samskipti skólanna og atvinnulífsins og að skólinn eigi að þjóna atvinnulífinu. Það er hægt að taka undir það að vissu marki en ég hef varað við því að menn horfi allt of stíft á hlutverk atvinnulífsins í þessum málum. Við þurfum að mennta okkar þjóð og mennta hana vel og sú menntun þjónar ekki alltaf einhverjum augljósum tilgangi eða ákveðnum geirum atvinnulífsins. Við þurfum góða almenna menntun og við þurfum góða almenna verkmenntun líka því fólk þarf oft að beita verkmenntun í sínu daglega lífi. Mér finnst þetta vera klisja sem gengur í gegnum skólamálaumræðuna þessi árin, tengsl atvinnulífs og skóla, og ég held að menn megi ekki ganga of langt í þeim efnum þó að auðvitað eigi að vera þar ákveðið samspil á milli.
    Það er kannski ekki ýkjamikið um þetta mál að segja að svo stöddu. Við munum athuga þetta mál í hv. menntmn. og kalla þá til þá sem við þurfum á að halda, en ég endurtek þá spurningu til hæstv. menntmrh.: Hvað liggur hér að baki? Hvaða verkefni eru það sem hann hefur í huga sem er svo brýnt að fá lagabreytingu til þess að hann geti sett af stað því að ég fæ ekki betur séð en tilraunanám af þessu tagi rúmist innan þeirra laga sem við búum við nú.