Evrópskt efnahagssvæði

141. fundur
Miðvikudaginn 24. mars 1993, kl. 18:57:14 (6420)

     Hjörleifur Guttormsson (andsvar) :
    Virðulegur forseti. Hér er hv. 10. þm. Reykv. að leggja fyrir mig spurningar sem þingmaðurinn hlýtur að þurfa að svara sjálf. Ég átta mig ekki á því hvernig í ósköpunum ég á að fara að greiða úr sálarflækjunum hjá hv. 10. þm. Reykv. í þessu efni sem sat mánuðum saman klofvega á girðingu og lýsti því fyrir alþjóð þangað til hún tók afstöðu í málinu. (Gripið fram í.)
    Þessi kengúruhópur og þessi fundur, sem á að vera í maímánuði og þar sem forustuliðið í ríkisstjórn Íslands kemur við sögu og eindregnir stuðningsmenn Evrópska efnahagssvæðis og menn sem hafa verið að gæla við inngöngu í Evrópubandalagið eru þátttakendur í, er haldinn undir kjörorðinu að færa Evrópubandalagið til norðurs. Það er inn í slíka dagskrá, inn í slíkt samhengi sem hv. þm. Ingibjörg Sólrún Gísladóttir ætlar að ganga og eiga hlut að þeirri dagskrá. Það er auðvitað hennar val. Hún notar vafalaust það tækifæri til þess að lýsa ítarlega stefnu Kvennalistans í málinu. Ég geri alveg ráð fyrir því að hún geri skilmerkilega grein fyrir stefnu Kvennalistans á þeim fundi. ( Utanrrh.: Eru þetta einhvers konar heimskautakengúrur eða hvað?) Það er nú það. Það ætla ég ekki út af fyrir sig að skilgreina frekar en úr suðri eru þær ættaðar greinilega.