Tvíhliða samskipti við Evrópubandalagið

145. fundur
Fimmtudaginn 25. mars 1993, kl. 17:00:58 (6513)

     Utanríkisráðherra (Jón Baldvin Hannibalsson) :
    Virðulegi forseti. Það er ástæða til að rifja það upp að þetta á að heita að vera umræða um þáltill. sem flutt er af formanni og varaformanni Framsfl. þar sem skorað er á Alþingi Íslendinga að fela ríkisstjórninni að efna til tvíhliða samninga við Evrópubandalagið. En þeir sem hlustað hafa aðeins á málflutning hv. þingflokksformanns Framsfl. gætu haldið að umræðan væri um eitthvert allt annað efni.
    Það er sérstök ástæða til að nefna hér eitt atriði vegna þess að hv. þm. hefur sérhæft sig í því að bera öðrum á brýn ósannindi til að gera málflutning manna tortryggilegan með þeim hætti. Það eru út af fyrir sig ærumeiðandi aðdróttanir þótt í þinghelgi sé, úr þessum ræðustól.
    Nú er það svo að stundum leita til mín ungir menn sem fengin eru þau verkefni í skólum að setja á blað einhverja skólastíla um þessi miklu mál, Evrópumál og EES-samning og því um líkt. Ég sé ástæðu til að segja frá því að í eitt skiptið þá sýndist mér ljóst að viðkomandi nemandi vildi hafa fljótaskrift á þessu og ekki kafa mjög djúpt í málinu. Þegar ég hafði stungið upp á ýmsum efnum við hann þá sagði ég í hálfkæringi: Ætli þú gætir ekki sloppið vel með eitt efni tiltölulega afmarkað. Það væri t.d. að orðtaka ræður formanns þingflokks Framsfl. um EES-málið í 1. umr., 2. umr. og um tvíhliða samninginn og ræður hans nánast óteljandi í þingskapamasi út frá bara einni spurningu. Með því að taka niður þær setningar einar sem sannanlega og óumdeilanlega væru rangar: Þar sem rangt væri farið með staðreyndir, þar sem um væri að ræða rangfærslur. Og ef þú tíundaðir líka hversu oft maðurinn endurtekur þessar rangfærslur eftir að búið er að leiðrétta þær. Þetta leist nemandanum allvel á vegna þess að hann hélt að þetta væri létt verk og löðurmannlegt. Hann hélt að þetta væri tveggja daga verk. Hann byrjaði fyrir þremur vikum. Og

er enn að.