Framhaldsskólar

146. fundur
Mánudaginn 29. mars 1993, kl. 15:06:45 (6539)

     Svavar Gestsson (andsvar) :
    Virðulegur forseti. Ég þakka hæstv. menntmrh. fyrir þessi svör, sérstaklega það sem hann sagði varðandi bóknámið að það bæri að skilja þessar ábendingar þannig að það ætti að vera fyrst og fremst á fyrri hluta iðnnámsins. Þar ætti bóknámið að vera og verknámið síðar. Ég hef út af fyrir sig vissar áhyggjur af þessari uppsetningu mála. Ég verð að játa það vegna þess að ég tel að þetta muni þýða að verklegar greinar með þróuðum tækjabúnaði verði með aðsetur í Reykjavík í framtíðinni og verkmenntaskólar landsbyggðarinnar verði með bóknámsundirbúninginn. Ég óttast að t.d. bílgreinaskólinn, sem á að fara að stofna hérna, verði þannig að þar verði þróað nám með góð tæki fyrir bifvélavirkja en hin almenna undirstaða, þ.e. danska, reikningur o.s.frv., verði úti á landi. Ég hygg að landsbyggðinni muni finnast sinn hlutur lítill ef ekki verður staðinn vörður um það verkmenntakerfi sem til er á landsbyggðinni. En ég þakka hæstv. ráðherra fyrir svörin að öðru leyti.