Sjávarútvegsskóli

146. fundur
Mánudaginn 29. mars 1993, kl. 15:39:43 (6547)


     Árni Johnsen (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Ég rakti fyrr í máli mínu nokkur atriði þar sem fullyrðingar voru rangar. En ég vil leyfa mér að vísa til álits og niðurstöðu skólastjóranna þriggja sem ég gat um, Fiskvinnsluskólans, Vélskólans og Stýrimannaskólans, þar sem þeir segja í grein í Morgunblaðinu frá 16. mars sl.:
    ,,Tillagan og allur málatilbúnaður er nákvæmlega hinn sami og var árið 1986 og var þá að betur athuguðu máli vísað frá. Við erum henni mjög svo ósammála. Gerð er tillaga um að leggja niður þrjá höfuðskóla sjávarútvegsins í núverandi mynd og gera þá að deildum eða jafnvel brautum í einum skóla sem yrði þá sennilega stjórnað af hagfræði- eða rekstrarfræðimenntuðum manni með faglegum deildarstjórum.
    Slík ráðstöfun mundi draga mjög úr sjálfstæði, frumkvæði og heilbrigðum starfsmetnaði þessara grónu skóla, þrótti þeirra og vexti. Við vitum ekki betur en skólarnir hafi hver á sínu sviði gegnt sómasamlega hlutverki sínu við undirstöðuatvinnuvegi þjóðarinnar, fiskveiðar og siglingar, þó að auðvitað sé unnt að gera betur.``
    Þetta segir allt um tillöguna og segir jafnframt að það sé ástæða til að styrkja þessa skóla á þeim grunni sem þeir eru, styrkja þá með sérstöðu og sjálfstæði og þrýsta þannig á og skapa grundvöll fyrir það í þjóðfélaginu að það sé hvatning fyrir ungt fólk að fara í nám í sjávarútvegsfræðum, hvort sem það er á sviði skipstjórnar, vélstjórnar eða fiskvinnslu. Það er skammaryrði enn í dag, því miður, í íslensku þjóðfélagi að nefna nám í þessum fræðum og það er ótrúlega lítið brot námsmanna sem fer í þessa skóla. Það er hvorki þjóðinni til sóma né skynsamlegt að slíkt skuli vera uppi. Þegar þorri íslenskra ungmenna fer í nám sem varðar nær eingöngu þjónustugreinar og menn ganga fram hjá þessum höfuðatvinnuvegi þjóðarinnar er ástæða til að styrkja skólann. Ef það er vilji tillögumanna, þá er það gott og vel en þetta er ekki rétt leið.