Staðsetning björgunarþyrlu

147. fundur
Þriðjudaginn 30. mars 1993, kl. 16:38:09 (6576)

     Flm. (Jón Kristjánsson) :
    Frú forseti. Ég mæli fyrir tillögu til þál. á þskj. 738 um staðsetningu björgunarþyrlu sem ég flyt ásamt hv. þm. Ólafi Þ. Þórðarsyni, Guðmundi Bjarnasyni og Stefáni Guðmundssyni.
    Tillagan er á þá leið að Alþingi ályktar að fela ríkisstjórninni að láta fara fram úttekt á hvaða staðsetning björgunarþyrlu þjónar best skipulagi björgunarmála hérlendis. Úttektin fari fram í samvinnu dómsmálaráðuneytisins, Landhelgisgæslunnar, Almannavarna, Slysavarnafélags Íslands og Landsbjargar. Niðurstöður liggi fyrir 1. september 1993.
    Umræður um björgunarþyrlu eru ekki nýjar af nálinni hér í hv. Alþingi en þetta mál er af dálítið öðrum toga. Það hefur komið fram og er þess getið í greinargerð að Alþingi hefur á síðustu tveimur árum veitt ráðherra heimild í 6. gr. fjárlaga til að semja um kaup á nýrri björgunarþyrlu fyrir Landhelgisgæsluna. Þessu hefur verið fylgt eftir í hv. Alþingi og er skemmst að minnast umræðu um lagafrv. hv. 5. þm. Reykv., Inga Björns Albertssonar, sem var lagt fram til að herða á þessu máli. En í umræðum á Alþingi í lok febrúar um það mál lýsti forsrh. því yfir að samið yrði um þyrlukaup á næstu mánuðum. Því er ljóst að það er breytinga að vænta á þeim tækjabúnaði sem Landhelgisgæslan hefur yfir að ráða til björgunar úr lofti. Þyrlukostur Landhelgisgæslunnar er að öllu jöfnu staðsettur í Reykjavík. Þá hefur varnarliðið á Keflavíkurflugvelli yfir fjórum þyrlum að ráða og von er á þeirri fimmtu. Og það hefur komið fram í allri þessari umræðu að ætlunin mun vera að auka enn frekar samstarf við björgunarsveit varnarliðsins um björgunarmál. Í ljósi þessa er tímabært að endurskoða staðsetningu björgunarþyrlu Landhelgisgæslunnar með það fyrir augum að viðbragðstími til fjarlægra landshluta verði styttri heldur en nú er. Þessi viðbragðstími er nú langur og það má benda má á að fyrir Norðausturlandi, Austurlandi og Suðausturlandi er mikill floti fiskiskipa á veiðum á ýmsum árstímum, auk flutningaskipa á leið til og frá Evrópu. Það tekur þyrlu drjúgan tíma að komast til þessara svæða þegar á þarf að halda. Ætla má að þyrla Landhelgisgæslunnar sé eina og hálfa til þrjár klukkustundir á leiðinni austur fyrir land ef flogið er með ströndinni eins og yfirleitt er gert. Flugtími þyrlunnar er áætlaður um þrjár klukkustundir til Grímseyjar miðað við að flogið sé út fyrir Vestfirði. Má því færa sterk rök fyrir því að önnur staðsetning björgunarþyrlu mundi henta betur með tilliti til þessara landshluta og veiðisvæða fyrir norðan land og austan. Það er því rétt nú þegar þáttaskil eru og það stendur fyrir dyrum að endurnýja björgunarþyrlu Landhelgisgæslunnar að láta fara fram sérstaka úttekt á þessum málum.
    Þetta mál er auðvitað flutt í því trausti að þau orð standi sem féllu í umræðu á Alþingi um þyrlumálin og það verði samið um kaup á björgunarþyrlu á næstu mánuðum. Vilji Alþingis í því efni hefur

margsinnis komið fram í veitingu heimilda í 6. gr. fjárlaga til að ganga frá slíkum samningum. Ég veit að hv. 5. þm. Reykv. hefur beðið um að atkvæðagreiðslu um lagafrv. um kaup á björgunarþyrlu verði frestað í því trausti að við þetta verði staðið. Ég ætla mér ekki við þessa umræðu að hafa fleir orð um þennan þátt málsins en auðvitað byggist þessi tillögflutningur m.a. á því að fram undan séu þáttaskil í starfi björgunarsveitar Landhelgisgæslunnar.
    Eins og ég gat um og kom fram í greinargerð hagar nú þannig til að staðsetning þyrlukostsins þjónar ekki öryggismálum allrar þjóðarinnar á fullnægjandi hátt. Það skal skýrt tekið fram að í þessu felst ekki neinn áfellisdómur á þá sem sinnt hafa þessum málum, langt í frá. Björgunarsveit Landhelgisgæslunnar hefur unnið gífurlega gott starf, sem aldrei verður þakkað svo sem vert er. Sama er að segja um börgunarsveit varnarliðsins sem hefur verið kölluð til þegar mikið hefur legið við og á hefur þurft að halda. Björgunarþyrla hefur verið kölluð sjúkrabifreið sjómanna og hið sama má segja um þá sem hafa slasast á stöðum sem ógreiðfært er til á öðrum farartækjum. Þyrlan er sömu leiðis þeirra sjúkrabíll. Viðbragðstími slíkra tækja getur skipt miklu máli, hvað þá ef sjóslys verða. Þessi viðbragðstími er óhæfilega langur á ýmsum landsvæðum og fyrir stóran hluta af íslensku fiskveiðilögsögunni. Stjórnendum Landhelgisgæslu Íslands hefur verið þessi vandi ljós og hugað hefur verið að annarri staðsetningu björgunarþyrlu en ekkert hefur orðið úr framkvæmdum. Það má m.a. kenna því um að Landhelgisgæslunni hefur ekki verið gert það fært fjárhagslega að efla björgunarsveit sína, hvorki að tækjum né mannskap.
    Þótt sú tillaga sem hér um ræðir sé aðeins um athugun á heppilegri staðsetningu björgunarþyrlu mundi framkvæmd hennar og samþykkt leiða af sér að björgunarstarfsemi Landhelgisgæslunnar yrði efld. Ekki er síður nauðsyn að koma samskiptunum við varnarliðið í fastara form en nú er. Tilvera björgunarsveitar þess er staðreynd og þátttaka þeirrar björgunarsveitar í björgunarstörfum hér við land um árabil.
    Það er nú því miður svo að öll stefnumótun í þessum málum Landhelgisgæslunnar hefur gengið undrahægt. Stjórnskipuð nefnd skilaði áliti um þyrlumál í október 1991 og vil ég leyfa mér að vitna til þeirrar skýrslu. Þar stendur á bls. 4, með leyfi forseta:
    ,,Alþingi hefur ályktað um þyrlukaup. Á meðal sjómanna og þeirra sem sinna slysavörnum og björgunarstörfum eru miklar væntingar vegna kaupa á nýrri þyrlu. Starfslið Landhelgisgæslunnar og þyrlusveitarinnar er til þess búið að takast á við erfiðari verkefni en áður í samræmi við aukna reynslu. Þetta er þó háð því að öflugri og betur búin þyrla fáist auk þess sem viðkomandi rekstur sé tryggður. Nefndin telur að stjórnvöld eigi að vinna hratt að ákvörðunum um kaup á öflugri þyrlu fyrir Landhelgisgæsluna.``
    Það hefur engin niðurstaða komið í þetta mál síðan. En eins og ég sagði í upphafi þá eru bundnar vonir við það að þeirrar niðurstöðu sé að vænta innan tíðar. Það er því miður svo að síðustu tvö ár hefur verið niðurskurður á niðurskurð ofan til Landhelgisgæslunnar. Og stefnumótun í málefnum hennar hefur ekki verið háreist svo ekki sé meira sagt.
    Tillagan kveður aðeins á um skoðun á hvaða staðsetning þyrlu sé heppilegust. Í þessari skýrslu sem skilað var árið 1991 er tæpt á því af sérfræðingum að það geti komið til greina að staðsetja þyrlu um lengri eða skemmri tíma á tveimur eða þremur stöðum úti á landi eftir aðstæðum og nefndir eru staðir á Norðurlandi og Austurlandi í því sambandi eins og Egilsstaðir og Akureyri. Ég ætla ekki að hafa neina skoðun á því á þessu stigi hvar slík staðsetning eigi að vera. Það er sjálfsagt að allir aðilar sem vinna að björgunarmálum láti fara fram úttekt á því. Það kemur fram í þessari skýrslu að þriðjungur útkalla Landhelgisgæslunnar árið 1990 er utan radíuss sem er 100 sjómílna fjarlægð frá Reykjavík. Sú staðreynd blasir við eins og málin standa nú að allur þyrlukostur sem er á annað borð á þessu landi, hvaða aðilar sem stjórna þar, er á þessu landshorni.
    Ég ætla ekki að fara að telja upp í þessari ræðu tilvik þar sem þyrla hefði getað ráðið úrslitum varðandi slys og þá einkum sjóslys. Ég tel það ekki þjóna neinum tilgangi en þó eru dæmin fyrir hendi og ekkert mjög gömul þar sem hörmuleg slys hafa átt sér stað þar sem minni viðbragðstími þyrlu hefði jafnvel getað ráðið úrslitum. En það þjónar ekki tilgangi á þessu stigi að vera að rekja það. Ef þessi tillaga yrði samþykkt og það færi fram alvarleg skoðun og stefnumótun í þessum efnum þá yrðu slík tilvik metin. Ég ætla heldur ekki að láta neina skoðun í ljós á því á þessu stigi málsins hvort aðstaða fyrir þyrlu úti á landsbyggðinni ætti að vera á einum stað eða fleirum. Slíkt yrðu þeir aðilar að meta sem ynnu í framhaldi af samþykkt þessarar tillögu.
    Hins vegar byggist þessi tillöguflutningur á því auðvitað að stjórnvöld hafi raunverulegan vilja til þess að efla Landhelgisgæsluna. Ég trúi því enn að sá vilji sé fyrir hendi þrátt fyrir það að hann hafi ekki komið fram í fjárveitingum til Gæslunnar undanfarin ár eða snöfurmannlegum viðbrögðum í framhaldi af þeim skýrslum sem ótal nefndir hafa sent frá sér um Landhelgisgæsluna. Það hefur ekki verið svo. En ég vil eigi að síður trúa því að það sé víðtæk samstaða í Alþingi um að efla Landhelgisgæsluna, efla hana til þeirra mikilvægu verkefna sem hún þarf að sinna, bæði á sviði björgunarmála og til gæslu á hinu stóra hafsvæði sem hún á að gæta. Það eru nýleg dæmi um það að varðskipin þurfa að gæta laga og réttar út við 200 mílna mörkin og það er ekkert smá hafsvæði sem þar er um að ræða þó það sé annar handleggur og komi ekki inn á þessa tillögu beint.
    Ég ætla ekki að hafa þessi orð fleiri en óska þess að að lokinni þessari umræðu verði tillögunni vísað til allshn.