Staða brotaþola við meðferð kynferðisbrotamála

147. fundur
Þriðjudaginn 30. mars 1993, kl. 17:52:52 (6587)

     Jón Helgason :
    Hæstv. forseti. Ég held að ég hafi komist einhvern veginn þannig að orði að afleiðing áfengisneyslunnar hefði komið fram í ræðu hv. frsm. og ég fékk reyndar að kynnast því sama í svo mörgum myndum á meðan ég var dómsmrh. Þá var það sama skýringin hjá mjög mörgum. Vitanlega er mér ljóst að ofbeldi á auðvitað fleiri orsakir, að minnsta kosti hefur mér verið mjög hugsað til þess þegar sum kvöldin er ekki hægt að kveikja á sjónvarpi án þess að sjá alla þá ofbeldiskennslu sem þar fer fram. Hætt er við að hún hafi býsna mikil áhrif og einmitt meiri áhrif þegar dómgreindin er orðin eitthvað sljó hjá þeim sem freistast svo til að taka sér hana til fyrirmyndar. Ég held að þó við vitum að hægt sé að rekja þessi verk til fleiri róta en áfengisneyslunnar einnar á hún samt sem áður svo ríkan þátt að ekki megi sætta sig við

að gera ekki neitt af því að það eru fleiri orsakir. Ég vil leggja áherslu á þetta en ég held að við hv. flm. séum sammála um vanda málsins.
    Mér finnst að það sem hv. frsm. sagði um fjölda þeirra sem leita til Stígamóta sýni hvern rétt á sér sú þáltill. á sem ég hef flutt hér á Alþingi ásamt fleiri hv. þm. Nú nýverið er búið að vísa til nefndar um neyðarráðstafanir gegn áfengisneyslu og hversu þörfin er brýn nú. Ég held að a.m.k. flestir viðurkenni að atvinnuleysið eykur bæði á hættuna á misnotkun áfengis og þessum afleiðingum. Við slíkar aðstæður í þjóðfélaginu er þörfin fyrir slíkar ráðstafanir náttúrlega enn þá brýnni en nokkru sinni fyrr.