Veiðiheimildir í lögsögu annarra ríkja

147. fundur
Þriðjudaginn 30. mars 1993, kl. 18:21:04 (6590)

     Eyjólfur Konráð Jónsson :
    Herra forseti. Mér finnst að þessi fundur sé að verða nokkuð merkilegur þótt fámennur sé. Hér eru rædd ein mikilvægustu málin sem við eigum við að glíma en skemmtileg málefni sem framtíðin ber í skauti sér. Ég lýsi með mikilli ánægju yfir stuðningi við þau mál sem hér eru til umfjöllunar, fleiri en eitt og fleiri en tvö, raunar kannski fimm. Fyrst var það efling Landhelgisgæslunnar og björgunarþyrla sem er hvort tveggja í senn til þess vaxið að efla okkar auðlegð úr hafinu og ekki síður að vera björgunartæki sem auðveldar okkar sjósóknarmönnum að stunda sína atvinnu. Síðan er málið sem núna er til umfjöllunar, þ.e. veiðiheimildir í lögsögu annarra ríkja, og svo koma hér mál eins og könnun á nýtingu ígulkera, tvær tillögur raunar um það efni. Síðan komum við til vatnafiskanna, endurreisn urriðastofnsins o.s.frv.

    Ég þakka frsm. og flm. fyrir hans innlegg hér og ekki síður síðasta ræðumanni, Einari Guðfinnssyni, því báðir tala þeir af mikilli þekkingu og reynslu og að sumu leyti af dýrkeyptri reynslu. Ég veit að hún hefur verið það en til þess eru erfiðleikarnir að sigrast á þeim og á þessu sviði blasa tækifærin alls staðar við.
    Að því er varðar veiðar í efnahagslögsögu annarra ríkja þá er það ekki einungis í efnahagslögsögunni sem hægt er að auka fiskveiðar, því það er svo í hafréttarsáttmálanum, sem menn gleyma oft, að það er ekki einungis að mönnum beri að fara vel með þá auðlegð sem er í hafinu, þ.e. verndun og ræktun, það er frumskilyrðið, heldur er líka skylt að nýta auðlegðina fyrir fátækar þjóðir, fyrir sveltandi mannkyn. Það er ekki síður á þeim vettvangi og með því hugarfari sem við eigum að starfa að okkar ræktunarstörfum, verndunarstörfum og vísindastörfum þar sem þekkingin á notkun veiðarfæra og allra handa hjálpartækja er kannski mikilvægasta vopnið sem við höfum í hendi okkar.
    En hitt er ég kannski ekki alveg eins viss um að sé gleðiefni sem hv. þm. Einar Guðfinnsson aðeins drap á, að við förum að selja útlendingum veiðiréttindi. Við getum veitt sjálfir hvort sem það er beint eða óbeint. --- Var það ekki rétt skilið að Þjóðverjarnir mundu sækja um einhver veiðiréttindi hér? Vonandi hef ég misskilið það. Þá tek ég það aftur með mikilli ánægju og endurtek að það stendur alls ekki til að íslenskir aðilar fari að leiða útlendinga inni í okkar fiskveiðilögsögu sem er miklu meiri en 200 mílurnar af því að menn eru alltaf að gleyma því að okkar veiðiréttur nær 350 mílur út af Reykjanesi. --- Karl Steinar Guðnason lítur nú upp og ég endurtek að Reykjaneshryggurinn er kannski einna dýrmætastur og hann þurfum við að nýta og varðveita út í 350 mílur. Eins þurfum við að fara að nýta okkar auðlegð og Hatton-Rockall svæðinu öllu.
    Þetta eru draumar sem við getum látið rætast á næstu árum, ekki áratugum. Ég held það sé ekkert of í lagt að telja að við eigum ónýtta stofna sem svara til allra þeirra stofna sem við nýtum. Kannski meira. Og með ræktunarstörfum auðvitað miklu meira þegar fram í sækir.
    Ég gat ekki annað en fengið að segja þessi fáu orð þó liðið sé á dag. Það er svo þægilegt þegar maður getur vitnað til annarra manna sem hafa miklu meiri þekkingu en maður sjálfur og endurtekið það beint og óbeint sem þeir sögðu. Það er nú oft svo að það er frekar hlustað á það sem fleiri en einn taka undir. Þá fara menn að hugsa: Er kannski eitthvert vit í þessu sem alltaf er verið að kjafta um? Er þetta ekki allt saman della? Er það sem þessir tveir menn sem töluðu áðan voru að segja kannski tóm vitleysa? --- Nú lítur hv. þm. Stefán Guðmundsson upp. Ég veit hvað hann mundi segja. Hann er alveg sammála mér um allt það sem við kemur veiðum, verndun, ræktun og nýtingu fiskstofna og auðvitað krabbadýra og allra þeirra lífvera sem í og á botninum eru sem eru fjölmargar og menn vita ekki tölu á þeim en þarna eru fullt af sjávardýrum, lífverum sjávarins, sem eru í hæsta verðflokki. Kannski er erfitt að ná þeim enn þá en fiskar finnast líklega á 3.000 m dýpi. Er það ekki, hv. þm. Össur Skarphéðinsson? Það er kannski ekki gott að nýta þá alla strax en þar eru slík ógrynni af auði og ekki síst á okkar miðum fyrir margra hluta sakir.
    Frá náttúrunnar hendi er það svo að við eigum þetta gífurlega stóra hafsvæði sem byggist á náttúrulegri framlengingu landgrunnsins, ,,natural prolongation``, á þessu svæði heimsins sem er allt saman með miðpunkt á Íslandi. Við stöndum upp úr sjónum og eigum þess vegna framlenginguna á alla vega norður á pól, 350 mílur út af Reykjaneshrygg, 600 mílur á Hatton-Rockall svæðinu og svo mætti lengi telja. Það eru líka hafsbotnsréttindi á hafinu milli Noregs og Íslands sem eru utan 200 mílnanna. Það sömdum við um fyrir nokkuð mörgum árum síðan. Allt þetta hefur verið í gangi en ótrúlegt hvað menn hafa getað stungið upp í eyrun. Æ ofan í æ og sagt: Við getum ekkert gert. Rangtúlkað allt eðli hafréttarsáttmálans alveg eins og mönnum dettur í hug og segja svo: Þetta er bara kjaftæði í einstökum mönnum. Þeir vita ekkert hvað þeir eru að segja. En við vitum það samt og rétturinn er okkar. Það verður ekki dulið mikið lengur og það verður ekki látið afskiptalaust.