Veiðiheimildir í lögsögu annarra ríkja

147. fundur
Þriðjudaginn 30. mars 1993, kl. 18:31:40 (6592)

     Jóhannes Geir Sigurgeirsson :

    Virðulegi forseti. Sú tillaga sem hér liggur frammi er allrar athygli verð og gott innlegg í þá umræðu sem á sér stað um þessi mál. En ég vil segja að því betur eru útgerðarmenn og athafnamenn í landinu komnir fram úr okkur stjórnmálamönnunum í þessu máli og komnir með þau á flugskrið áður en ég held að ríkisvaldið verði búið að snúa sér svo mikið sem við til þess að hugsa um málið.
    Ég tek undir með hv. þm. Einari Guðfinnssyni að það besta sem ríkisvaldið gæti gert fyrir sjávarútveginn hvað þetta snertir, eins og allt annað, er að skapa greininni eðlileg rekstrarskilyrði þannig að menn geti þróað greinina og tekist á við þau verkefni sem hugurinn stendur til. Það er reyndar mín skoðun að gagnvart þessu veiti síðan ríkisvaldið að öðru leyti besta aðstoð með því að standa sína plikt varðandi rannsóknar- og þróunarstarf. Gagnvart sjávarútveginum beinist það að mínu mati ekki síst að því að fylgjast með því sem er að gerast í heiminum varðandi fiskeldi og þróun í þeim málum þannig að við látum ekki koma aftan að okkur hvað eftir annað og vitum ekkert hvað er að gerast eins og því miður virðist hafa átt sér stað varðandi rækjuna þegar eldisrækjan var fyrir nokkrum árum síðan allt í einu komin inn sem öflugur samkeppnisaðili án þess að menn hefðu nánast hugað að þeim málum.
    Þetta er hvað snertir þátt ríkisins. Eins og ég sagði í upphafi, ég held að hv. flm. hafi ekki verið hér þá, að því betur séu athafnamenn í þessari grein kannski komnir á undan okkur stjórnmálamönnunum.
    En hvað er það þá sem við höfum að bjóða og eftir hverju hafa menn að sækjast hjá okkur? Það er að mínu mati það að við búum yfir einum afkastamesta sjávarútvegi í heimi og þá er ég ekki að tala um í umfangi heldur í rekstri. Nú veit ég ekki alveg hvernig ég á að þýða það. Ég ætlaði að nota orðið effektífur. ( Gripið fram í: Afkastamesti.) Það er nú ekki afkastamesti. Ég er ég að tala um kannski framlegðina öðru fremur. ( Gripið fram í: Fjárfestingu á mannafla.) Á mannafla og á afkastagetu. Það er kannski á þessu sviði sem við getum miðlað öðru fremur. Þetta kemur m.a. til af því að við höfum um árabil keppt með okkar sjávarútveg, sem grunnatvinnuveg sem hefur staðið undir okkar velferð, við sjávarútveg í mörgum nágrannalöndum sem er meira og minna á ríkisforsjá. Við stöndum mjög framarlega varðandi veiðarnar og frumvinnsluna og getum miðlað mjög miklu.
    Það er hins vegar áhyggjuefni, eins og hefur komið fram í þessum umræðum fyrr, að því miður þurfum við nánast á hverju einasta fleyi að halda í dag til þess að ná þeim afla sem við megum draga úr sjó, hvort sem það er rétt að við megum beina honum af þessum mikla þunga. Það er aftur annað áhyggjuefni. En á þessu sviði stöndum við mjög vel.
    Það hefur verið nefnt hér líka að á markaðssviðinu séum við góðir og höfum öflug sölukerfi. Það er rétt svo langt sem það nær. Þar þurfum við kannski að huga að hvernig við ætlum að standa að áfram ef við viljum stefna að því að geta orðið einhvers konar sjávarútvegsmiðstöð sem aðstoði vanþróaðri þjóðir á þessu sviði, bæði við að byggja upp sinn sjávarútveg og markaðssetja afurðirnar.
    Það er rétt að við höfum náð mjög góðum árangri á mörgum sviðum í sölustarfinu. Við höfum þar mikla reynslu og bjóðum mjög góða vöru. Það er þess vegna mjög mikilvægt ef við ætlum að horfa á Ísland í þessu samhengi að við njótum á hverjum tíma besta mögulegs markaðsaðgangs sem víðast í heiminum, á okkar næsta markað, Evrópumarkaðinn, og höldum auk þess opnum öllum leiðum og vinnum ötullega að niðurfellingu innflutningshafta og gjalda annars staðar í heiminum. Ef við lítum á markaðsmálin, hvað nær þekking okkar og þróun þar langt? Hún nær það langt að við erum mjög góðir í að selja ferskan fisk á okkar næstu markaði. Við kunnum það vel. Við kunnum mjög vel að selja frumunninn fisk, frystan og saltaðan, en við eigum enn þá óplægðan akur hvað varðar sölu á því sem næst fullunninni vöru.
    Þar stöndum við að mínu mati frammi fyrir mörgum mjög áleitnum spurningum. Þetta er að mínu mati mjög mikilvægt að við gerum og við höfum séð það núna síðustu vikurnar að þetta skiptir mjög miklu máli því eftir því sem við komumst nær neytandanum með okkar vöru þeim mun frekar getum við siglt á öldutoppunum í verðsveiflunum. Ef við skoðum það sem hefur verið að gerast varðandi sveiflur á fiskverði að undanförnu, þá eru þær, eins og alltaf er, langsamlega mestar í hráefninu en hafa jafnast mikið til út þegar kemur að því að neytandinn kaupir vöruna í fiskborðinu eða kæliborðinu eftir atvikum í sinni verslun. Við Íslendingar höfum verið að reyna að þróa okkar áfram á síðustu árum í fullvinnslu en vel að merkja hefur það nánast allt saman verið í því formi að við höfum verið að vinna fyrir alþjóðlega matvælahringa. Við stöndum enn frammi fyrir þeirri spurningu hvort við ætlum að leggja í það, eins og þeir hafa sagt sem þar hafa mesta þekkingu, milljarða að vinna okkar afurðum markað sem fullunninni vöru undir eigin merki.
    Þetta eru áleitnar spurningar. Þetta kemur einnig inn á það svið í hvaða formi við ætlum í samstarf við aðrar þjóðir og hvað við ætlum að hleypa þessum stóru aðilum langt inn í keðjuna hjá okkur varðandi fiskvinnsluna.