Tilraunaveiðar og þróun veiðarfæra vegna veiða á ígulkerum

147. fundur
Þriðjudaginn 30. mars 1993, kl. 19:21:24 (6599)

     Össur Skarphéðinsson :
    Virðulegi forseti. Ég vil þakka hv. þm. Sturlu Böðvarssyni fyrir að hafa haft frumkvæði að því að flytja þessa tillögu. Hún er afar þörf. Staðreyndin er sú að eins og nú horfir í atvinnumálum Íslendinga er nauðsynlegt að leita nýrra leiða til þess að efla tekjur þjóðarbúsins og til þess að koma á legg nýjum atvinnugreinum. Það hefur kviknað mikill áhugi á vinnslu ígulkera á síðustu missirum og margt bendir til þess að slíkar veiðar muni eiga góða framtíð fyrir sér. Hins vegar er það svo að veiðarfæri og þróun veiða hefur verið næsta lítil í þessari grein. Menn hófu upphaflega, eins og hv. þm. Sturla Böðvarsson drap á í sinni framsögu, að afla ígulkeranna með köfun. Köfun er hins vegar nokkuð dýr og það bendir flest til þess að það væri farsælt ef tækist að þróa veiðarfæri sem gerðu það kleift að ná ígulkerum tiltölulega heilum upp af hafsbotni í nokkru magni. Það hafa menn þegar farið af stað með --- af nokkrum vanefnum þó. Ég tel að það sé nauðsynlegt að styrkja þessa nýju grein með þeim hætti sem hér er lagt til. Það er mála sannast að vinnsla ígulkera er tiltölulega mannfrek en hefur þann kost að hún kallar á litla fjárfestingu. Þess vegna er hægt að draga þá ályktun að þar sem tekst að ná upp hagkvæmum og arðbærum rekstri ígulhrognavinnslustöðva, þá sé búið að leggja grunn að nýrri atvinnugrein sem í mörgu byggðarlögum gæti skapað talsvert mikið af vinnu. Við höfum séð einmitt dæmi um það í fjölmiðlum síðustu daga. Á Sauðárkróki er farið af stað fyrirtæki sem lofar afskaplega góðu. Það hefur núna 20 manns í vinnu og hefur á nokkuð skömmum tíma að ég hygg farið úr 10 í 20 manns og flest bendir til að það sé markaður fyrir þessar afurðir. Þar eins og raunar víðar er ekki alveg ljóst hvernig afla ber hráefnisins, þ.e. menn eru nokkuð uggandi yfir því hvort þar sé hægt að ganga á þann stofn sem fyrir hendi er án nauðsynlegra rannsókna. Menn eru að leita fanga í nálægum byggðarlögum. Ég tel að það sé þess vegna nauðsynlegt að koma upp tilraunum með veiðarfæri sem skemma botninn sem minnst og sem skemma sem minnst af ígulkerum sem ekki veiðast en í dag er mér tjáð af þeim sem til þekkja að það séu nokkur brögð að því að þeir plógar sem hafa verið notaðir fari nokkuð illa með botninn. Þess vil ég, virðulegi forseti, lýsa yfir mínum fyllsta stuðningi við þessa tillögu og beita mér fyrir því að hún hljóti náð fyrir augum hv. sjútvn.