Könnun á nýtingu ígulkera

147. fundur
Þriðjudaginn 30. mars 1993, kl. 19:24:49 (6600)

     Flm. (Össur Skarphéðinsson) :
    Virðulegi forseti. Ég mæli hér fyrir till. til þál. um könnun á nýtingu ígulkera sem ég flyt ásamt hv. þm. Karli Steinari Guðnasyni og Guðmundi Hallvarðssyni. Tillagan hljóðar svo:
    ,,Alþingi ályktar að fela sjútvrh. að láta fara fram rannsókn á stofnum nýtanlegra ígulkera við Ísland. Markmið rannsóknanna verði í senn að kortleggja ígulkeramið við strendur landsins og jafnframt að kanna veiðiþol þeirra til að koma í veg fyrir að veiðar gangi of nærri nýtanlega stofninum.``
    Efni þessarar tillögu er náskylt þeirri tillögu sem hér var rædd fyrr þar sem 1. flm. var hv. þm. Sturla Böðvarsson.
    Eins og ég drap á í umræðum um þá tillögu er það svo að áhugi að vinnslu ígulkera hefur vaxið mjög hratt hér að undanförnu. Menn hafa farið í ýmiss konar tilraunaveiðar og tilraunavinnslu og þetta lofar mjög góðu. Sú tegund sem mestar vonir eru bundnar við er skollakoppurinn, sem er stundum nefndur grænígull, en jafnframt er önnur tegund, marígull, sem kann einnig að reynast nýtanleg síðar meir. Það sem menn eru að sækjast eftir með veiðum ígulkera eru fyrst og fremst hrognin. Það er þó með vissum hætti rangnefni vegna þess að menn hafa notað samheitið hrogn um kynkirtla ígulkersins sem eru hirtir hvort heldur er karl- eða kvendýr. Þeir eru sem sagt seldir sem hrogn.
    Þannig er að ágætan markað er nú að finna fyrir afurðir ígulkera í Evrópu, fyrst og fremst fyrir heil ígulker í Frakklandi og sums staðar annars staðar í álfunni. Áður fyrr var nokkur markaður líka til fyrir söltuð hrogn ígulkera, en hann hefur rýrnað mjög á síðustu árum. Hins vegar hefur það gerst sem er mjög jákvætt að í Japan hefur markaður vaxið fyrir fersk hrogn sem eru flutt flugleiðis og verða helst að vera komin á markað innan 30 kukkustunda frá því að ígulkerið er veitt.
    Í Japan er það svo að neysla á ferskum hrognum hefur aukist talsvert síðustu árin án þess að veiðar og vinnsla Japana sjálfra hafi aukist að sama skapi. Þess vegna er það svo að í Japan er núna eftirspurn umfram framboð og menn telja að markaðurinn í Japan þoli árlega viðbót um 2.000 tonn af hrognum auk þess magns sem nú kemur þar á markað án þess að verðið raskist. Ýmsar sagnir fara af hinu háa verði fyrir kílóið af ferskum hrognum, en eftir því sem ég kemst næst eru 60--100 Bandaríkjadalir gangverðið í dag komið til Japans þó að verðið fyrir hrogn í hæsta gæðaflokki sé talsvert hærra.
    Þess er að geta, virðulegi forseti, að þessi vaxandi eftirspurn í Japan hefur leitt til þess að Japanar horfa nú mjög til norðlægari þjóða um öflun hrognanna, en auk okkar Íslendinga hafa Norðmenn líka sýnt málinu mikinn áhuga og hafa lýst því yfir að þeir hyggist í senn efla veiðar og vinnslu á ígulkerum. Raunar er það svo að þeir binda svo miklar vonir við þennan markað að þar er nú hafið tilraunaeldi á ígulkerum með einmitt Japansmarkað í huga.
    Þess er líka að geta að þessi aukni markaður fyrir ígulkerahrogn í Japan leiddi til þess að í Kaliforníu spratt á einum áratug upp mikil grein sem fólst í veiðum og vinnslu ígulkera en á þessum áratug jukust veiðar Kaliforníumanna næstum því úr engu upp í 11 þús. tonn.
    Nú er það svo að það er margs að gæta þegar menn vilja fara að veiða nýjan stofn. Það þarf að

liggja fyrir einhvers konar könnun á veiðiþoli stofnanna og slíkar kannanir liggja ekki enn þá fyrir í dag. Að vísu hafa farið fram með hléum rannsóknir á m.a. stofnstærð ígulkera víðs vegar um landið. Þær hafa ekki verið skipulagðar. Hafrannsóknastofnunin hefur stundað með hléum rannsóknir á ígulkerum sem fást sem aukaafli. Það hafa farið fram drjúgar rannsóknir á síðustu missirum í Breiðafirði. Raunar hófust þær fyrst árið 1983 og það hafa líka farið fram rannsóknir í Ísafjarðardjúpi á vegum einkaaðila og jafnframt í samvinnu einkaaðila og opinberra aðila, þ.e. Hafrannsóknastofnunar, í Hvalfirði. Þessar rannsóknir lofa góðu. Þær benda til þess að hrognafylling sé góð og að ígulkerin séu nýtanleg mestan hluta ársins, þó ekki rétt eftir hrygninguna, en það er hins vegar ljóst að til að hægt sé að byggja þessa atvinnugrein upp með skynsamlegum hætti, þá þurfa að liggja fyrir upplýsingar um það hvað stofnarnir þola af veiði. Ella kann svo að fara að menn ráðist í það að hefja vinnslu, ná að byggja upp markað fyrir þessa íslensku afurð en standi síðan frammi fyrir því að stofnarnir hrynji. Þess vegna tel ég að þessi tillaga, samþykkt hennar og framkvæmd, sé forsenda þess að það sé hægt að ráðast í þetta með skynsamlegum hætti.
    Þroskun kynkirtlanna má skipta til hægðarauka í fimm stig. Það er hins vegar ekki fyrr en um miðbik þriðja stigsins og á fjórða stigi sem hrognin verða þyngst og eru best að því er varðar sölumöguleika. Þroskun kynkirtlanna er hins vegar nokkuð háð hitastigi. Rannsóknirnar sem gerðar voru í Hvalfirði og í Ísafjarðardjúpi bentu til þess að það væri nokkur munur á því hvenær var ekki hægt að veiða ígulkerin. Þess vegna tel ég að ef menn vilja huga að því að byggja upp grein þar sem hægt er að halda uppi stöðugu framboði á afurðum ígulkeranna héðan á þá markaði sem við hyggjumst vinna, þá sé einmitt nauðsynlegt að kanna þetta til hlítar. Á þeim tímum þegar ekki er hægt að veiða ígulker á einum stað væri hægt að bæta það upp með veiðum á öðrum stöðum. Þannig kann svo að fara að í framtíðinni sé því æskileg einhvers konar lágmarkssamvinna á milli vinnslustöðva á mismunandi stöðum á landinu.
    Ég gat þess áðan að vinnslan er afskaplega mannfrek en hvorki veiðarnar né vinnslan krefjast mikillar fjárfestingar og þess vegna er ekki svo mikil hætta á því ef svo færi að markaðir brygðust að við lentum í því sama og við lentum með fiskeldið og jafnvel loðdýrarækt að miklar fjárfestingar fari forgörðum. Að því leyti er þessi nýja atvinnugrein afskaplega jákvæð. Það má nefna það að í Kaliforníu er talið að það þurfi um 35--40 manns til að vinna 10 tonn af ferskum ígulkerum á 8 stunda vinnudegi. Það er ekki síst vegna þessarar mannfrekju greinarinnar sem sveitarfélög og fyrirtæki renna hýru auga til þeirrar atvinnu sem vinnsla á skollakoppi getur skapað.
    Það má nefna það til gamans að þegar kannanir árið 1985 leiddu í ljós að í lygnum innfjörðum Ísafjarðardjúps var að finna talsvert af nýtanlegum ígulkerum, þá var eitt af því sem mælti gegn frekari vinnslu einmitt sú staðreynd að það þurfti svo mikinn fjölda fólks til starfseminnar. Á þeim tíma var einfaldlega ekki vinnuafl fyrir hendi og þróunin varð ekki eins ör og ella hefði mátt ætla. Nú eru aðstæður allt aðrar. Illu heilli er um allt land skortur á atvinnu og það ýtir enn frekar á það að stjórnvöld bregðist rétt við og reyni að aðstoða þau fyrirtæki og þá landshluta sem hyggjast fara í ígulkeravinnslu einmitt með þeim grunnrannsóknum sem þurfa að fara fram, en ég kalla það grunnrannsóknir að hefja athuganir á stofnstærð og veiðiþoli ígulkera. Ég tel, virðulegi forseti, að það sé brýnt að gera þetta, hefjast handa um slíkar rannsóknir áður en handahófskenndar veiðar kynnu að ganga of nærri stofnum og þar með að veikja möguleika atvinnugreinar sem gæti ella orðið mjög drjúg búbót í sjávarútvegi og veruleg lyftistöng í atvinnulífi einstakra sveitarfélaga.
    Ég legg til, virðulegi forseti, að að lokinni þessari umræðu verði tillögunni vísað til hv. sjútvn.