Héraðsskólar

149. fundur
Fimmtudaginn 01. apríl 1993, kl. 12:10:52 (6671)

     Einar K. Guðfinnsson :
    Virðulegi forseti. Um leið og ég þakka hv. fyrirspyrjanda og hæstv. ráðherra fyrir þeirra hlut að þessu máli, þá vil ég segja það að ég sit í þeirri nefnd sem hefur verið að endurskoða mál varðandi Reykjanesskóla. Þessa dagana er verið að leggja lokahönd á starf nefndarinnar með því að skrifa skýrslu sem ráðherranum verður afhent. Nefndin hefur ævinlega haft það að leiðarljósi að ganga þannig til verks í þessu máli að það yrði fundinn varanlegur grundvöllur fyrir það starf sem yrði komið fyrir í húsnæði Reykjanesskólans og það hefur verið lögð á það áhersla að finna nýtt hlutverk fyrir þennan skóla. Það var ljóst að því hlutverki sem skólinn hafði með höndum að vera hefðbundinn héraðsskóli var í raun og veru lokið. Þess vegna þurfti að finna nýjan starfsgrundvöll fyrir skólann. Það er það sem ég hygg að verði að vera verkefnið varðandi þessa héraðsskóla. Vegna breyttra þjóðfélagsaðstæðna verðum við að finna nýtt hlutverk fyrir þessa skóla.
    Ég vek athygli á því að ýmislegt sem fram kemur í áliti þeirrar nefndar sem hefur verið að vinna að endurskoðun menntastefnunnar í landinu getur orðið til þess að styrkja og koma að notum fyrir þessa skólastarfsemi og ég held að þegar vel er að gáð, þá geti einmitt skólastarf úti í strjálbýlinu fallið vel að ýmsu því sem menn eru að hugsa þar.