Héraðsskólar

149. fundur
Fimmtudaginn 01. apríl 1993, kl. 12:12:34 (6673)

     Menntamálaráðherra (Ólafur G. Einarsson) :
    Hæstv. forseti. Hv. þm. Jóna Valgerður Kristjánsdóttir benti á það að á Norðurlandi væri enginn héraðsskóli. Ég nefndi það að Laugaskóli hefði verið gerður að framhaldsskóla og varðandi Reykholtsskóla get ég upplýst það að það hefur komið fram umsókn frá skólastjóra um að Reykholtsskóli verði gerður að framhaldsskóla. Sú umsöng hefur ekki verið tekin til afgreiðslu í ráðuneytinu, en þar hefur hins vegar sérstaklega verið hugað að samvinnu milli Fjölbrautaskóla Vesturlands á Akranesi og Reykholts líkt og er um samvinnu milli Fjölbrautaskólans á Suðurlandi á Selfossi og Skógaskóla.
    Varðandi Núpsskóla er það rétt sem fram kom hjá hv. þingkonu að það hefur ekki verið sett af stað nefnd um framtíð Núpsskóla eða hvernig þau miklu mannvirki sem þar eru verða nýtt. Ég hef rætt það lítillega við formann nefndarinnar um Reykjanesskóla, hv. þm. Einar Kristin Guðfinnsson, og ég geri ráð fyrir að það verði sett á laggirnar nefnd núna alveg á næstunni til þess að fjalla um framtíð Núpsskóla og nýtingu mannvirkja þar.