Vinna ungmenna á vínveitingastöðum

149. fundur
Fimmtudaginn 01. apríl 1993, kl. 12:23:30 (6677)

     Fyrirspyrjandi (Anna Ólafsdóttir Björnsson) :
    Virðulegi forseti. Fsp. þessi er ekki síst flutt vegna þeirrar umræðu sem varð sl. haust um vinnu barna og unglinga á vínveitingastöðum. Það verður að teljast í hæsta máta óeðlilegt að unglingar séu ráðnir í vinnu á vínveitingahúsum sem þeir í sumum tilvikum hafa ekki einu sinni leyfi til þess að sækja, enda kveður skýrt á um það í barnaverndarlögum að slíkt sé ekki heimilt. Þar af leiðandi hef ég leyft mér að leggja eftirfarandi fsp. fyrir félmrh.:
  ,,1. Á hvern hátt er fylgst með því að ungmenni, 18 ára og yngri, starfi ekki á vínveitingahúsum, sbr. ákvæði 3. mgr. 58. gr. laga nr. 58/1992, um vernd barna og ungmenna?
    2. Hve mikið er um að brotið sé gegn ákvæðum laganna?
    3. Hvaða viðurlögum er beitt í málum af þessu tagi?``
    Ég ætla að lesa þessa 3. mgr. 58. gr. barnaverndarlaganna, en þar segir skýrt og skorinort, með leyfi forseta:
    ,,Ungmenni innan 18 ára aldurs mega ekki starfa á stöðum sem hafa leyfi til áfengisveitinga nema það sé liður í viðurkenndu iðnnámi.``
    Þetta getur ekki verið skýrara. Samt virðist það vera nokkuð á reiki og var í umræðunni sem varð núna sl. haust. Í fyrsta lagi virtist það vera á reiki hvort slík ákvæði væru í lögum og í öðru lagi virtist það vera mjög á reiki hvernig ætti að framfylgja þeim. Mig langar, með leyfi hæstv. forseta, að lesa hér hluta af þeirri fjölmiðlaumræðu sem var þá og ekki síst finnst mér rétt að vekja athygli á svörum fulltrúa

lögreglustjóra. Tilvitnunin er í dagblaðið Tímann laugardaginn 12. sept. sl.:
    ,,Dæmi eru um að mjög ungir krakkar séu ráðnir til vinnu á vínveitingahúsum. Tíminn hefur dæmi um það að 16 ára stúlkur séu ráðnar til vinnu í sal á vínveitingahúsum. Sigurður Guðmundsson sagði að fyrir nokkrum árum hefðu vínveitingahús verið með 12--13 ára stúlkur í vinnu. Signý Sen, fulltrúi lögreglustjóra, sagði að samkvæmt reglugerð sem sett var í samræmi við lög um vernd barna og ungmenna megi stúlkur yngri en 18 ára ekki vinna á stöðum þar sem ætla megi að siðferðiskennd þeirra sé misboðið. Ekki má selja ungmennum yngri en 20 ára áfengi og sagði Signý að hún vildi að vínveitingahús settu þá reglu að ráða ekki fólk yngra en 20 ára til starfa. Signý sagði hins vegar að hins vegar mættu 16 ára ungmenni, sem fara á samning hjá meistara, vinna á veitingahúsum.``
    Í kjölfarið á þessari tilvitnun sem er nú lokið vil ég spyrja: Hvað er óljóst? Af hverju er bara verið að tala um stúlkur? Eru ekki þessi ákvæði skýlaus og er ekki hægt að fara eftir þeim?