Norræni fjárfestingarbankinn

150. fundur
Fimmtudaginn 01. apríl 1993, kl. 14:00:43 (6690)

     Viðskiptaráðherra (Jón Sigurðsson) :
    Hæstv. forseti. Ég mæli hér fyrir frv. til laga um heimild fyrir ríkisstjórnina til að auka hlutafé Íslands í Norræna fjárfestingarbankanum og um að staðfesta breytingar á samþykktum bankans. Þetta frv. felur í sér nokkrar breytingar fyrir Norræna fjárfestingarbankann. Allt frá stofnun hefur bankinn reynst okkur Íslendingum, bæði opinberum aðilum og einkaaðilum heilladrjúg uppspretta lánsfjár með hagstæðum kjörum. Starfsemi hans hefur í reynd verið mun meiri hér á landi en svarar eignarhlut okkar í honum. Norræni fjárfestingarbankinn nýtur mikillar virðingar og álits í hinum alþjóðlega fjármálaheimi. Ég tel að því ótvíræðan feng fyrir okkur að Ísland skuli vera einn af eigendum hans.
    Breytingarnar sem fjallað er um í þessu frv. eru bæði nauðsynlegar og skynsamlegar að mati allra þeirra sem um það hafa fjallað á vettvangi norrænu ráðherranefndarinnar. Það er mín von að víðtæk samstaða geti tekist um frv. og það fái skjóta afgreiðslu hér á Alþingi.
    Virðulegi forseti. Efni frv. er þríþætt og er fjallað um hvern efnisþátt úr af fyrir sig í þremur megingreinum þess. Með því er verið að leita staðfestingar Alþingis á breytingum á samþykktum bankans sem norræna ráðherranefndin hefur lagt til.
    Í fyrsta lagi samþykkti ráðherranefndin í desember árið 1991 að auka skyldi stofnfé bankans um 800 millj. SDR, sem er skammstöfun á heiti reikningseiningar Alþjóðagjaldeyrissjóðsins, sérstakra dráttarréttinda, frá og með 1. apríl nk. úr 1.600 millj. sérstakra dráttarréttinda í 2.400 millj. sérstakra dráttarréttinda. Eftir hækkunina samsvarar stofnfé bankans um 217 milljörðum kr. Eins og fyrr þegar stofnfé bankans hefur verið aukið er lagt til að aðildarríkin greiði aðeins hluta aukningarinnar í reiðufé. Í hlut Íslands falla 0,9% af þessari 800 millj. SDR aukningu, eða 7,2 millj. SDR. Eftir hlutafjáraukninguna nemur hlutur Íslands 22,8 millj. SDR. Innborgað stofnfé á árinu 1992 nemur samtals 243 millj. SDR, eða um 22 milljörðum kr. Ég tek það fram að greiðsla Íslendinga á þessu ári nemur svipaðri fjárhæð og arður Íslendinga var af rekstri bankans á liðnu ári.
    Eftir að reikningseiningu bankans verður breytt úr SDR í evrópskar mynteiningar, ECU, verður fjárhæðin í ECU miðuð við gengishlutfall SDR og ECU hinn 1. mars sl.
    Þetta var fyrsti þáttur frv. Í öðru lagi fjallar það um aðstoð við Eystrasaltsríkin. Það má segja með nokkrum sanni að Norðurlöndin hafi tekið Eystrasaltsríkin upp á arma sína eftir að Sovétríkin liðuðust sundur. Það er eðlilegt vegna sögulegra og landfræðilegra tengsla og ekki síður vegna þess að Norðurlöndin skilja vanda og þarfir annarra fámennra ríkja betur en stórþjóðirnar gera. Norðurlöndin hafa hvert um sig veitt Eystrasaltsríkjunum aðstoð en þau hafa líka tekið höndum saman um stærri verkefni á myndarlegan hátt. Norræna ráðherranefndin samþykkti 27. apríl 1992 aðstoð við Eystrasaltsríkin og var samþykktin í samræmi við ákvörðun fjármálaráðherra Norðurlanda 4. mars í fyrra um að hrinda í framkvæmd sérstakri fjárfestingaráætlun fyrir þessi þrjú ríki. Að því er Norræna fjárfestingarbankann varðar er samþykktin tvíþætt. En einnig er skýrt frá öðrum þáttum hennar í greinargerð frv.
    Fyrri þátturinn gerir grein fyrir beinum fjárframlögum Norðurlandanna til að styrkja tæknilega uppbyggingu fjármagnsstofnana og einkafyrirtækja í þessum þremur löndum. Þessi framlög verða veitt með þrennum hætti. Í fyrsta lagi gegnum Norræna fjárfestingarbankann, í öðru lagi gegnum Norræna verkefnaútflutningssjóðinn og í þriðja lagi fyrir tilstilli og milligöngu Evrópska endurreisnar- og þróunarbankans í London sem Íslendingar eru einnig aðilar að. Norræna fjárfestingarbankanum er falið það verkefni að veita fjárfestingarbönkunum þremur í Eystrasaltsríkjunum tæknilega ráðgjöf og aðstoða þá við þjálfun starfsfólks þannig að þeir geti sem fyrst gegnt því lykilhlutverki í fjárfestingaráætluninni sem þeirm er ætlað.
    Þá er ætlunin að stofna sérstakan sjóð við Norræna fjárfestingarbankann sem mun veita lán til fjárfestingarverkefna í Eystrasaltsríkjum. Lánin verða veitt á markaðskjörum og lánsumsóknir metnar á almennum viðskiptaforsendum. Þessi lánaflokkur verður hins vegar með fullri ábyrgð ríkissjóða Norðurlandaríkjanna og hefur þar af leiðandi ekki áhrif á lánshæfi Norræna fjárfestingarbankans sérstaklega. Hámark þessarar lánafyrirgreiðslu verða 30 millj. ECU, evrópskrar mynteiningar, sem dreifist á þrjú ár. Það er gert ráð fyrir að Norðurlöndin greiði andvirði 150 þús. ECU í sjóðinn í upphafi og er gert ráð fyrir hluta Íslands í þeirri fjárhæð á lánsfjárlögum yfirstandandi árs.
    Það er ekki gert ráð fyrir frekari fjárframlögum af hálfu Norðurlanda að sinni að minnsta kosti. Það verður þó að horfast í augu við að e.t.v. verða afföll af þessum lánum sem kynnu að lokum að lenda á ríkissjóðunum fimm. Ísland ber 0,9% af þeirri fjárhæð samkvæmt núgildandi reglum í fjárhagslegum samskiptum á samstarfsvettvangi Norðurlanda. Til þess að þetta sé unnt þarf að breyta samþykktum Norræna fjárfestingarbankans eins og greinir í 2. gr. þessa frv.
    Þriðji og síðasti efnisþáttur frv. varðar breytingar á mynteiningu í reikningshaldi Norræna fjárfestingarbankans. Hingað til hefur reikningseiningin SDR, sérstök dráttarréttindi, sem er reikningseining Alþjóðagjaldeyrissjóðins, verið notuð. Nú þykir hins vegar rétt að hætta notkun SDR og miða reikningshald bankans í staðinn við Evrópsku mynteininguna ECU. Þetta er gert bæði vegna sívaxandi mikilvægis evrópsku mynteiningarinnar á alþjóðlegum lánamörkuðum og eins vegna þess að viðskiptavinir bankans nota hana yfirleitt fremur en SDR.
    Virðulegi forseti. Ég mun ekki hafa fleiri orð um þetta frv. að sinni og legg til að því verði að lokinni þessari umræðu vísað til 2. umr. og hv. efh.- og viðskn.