Sementsverksmiðja ríkisins

150. fundur
Fimmtudaginn 01. apríl 1993, kl. 19:35:55 (6765)

     Jóhannes Geir Sigurgeirsson :
    Virðulegi forseti. Ég held að út af fyrir sig sé mjög gott að það hefur komið skýrt fram í umræðunum í dag að ríkisstjórnin og meiri hluti Alþingis hyggst standa að því að selja hlutabréf í Sementsverksmiðjunni þegar búið er að breyta henni í hlutafélag. Út af fyrir sig er ekkert við það að athuga. Það er þeirra ákvörðun en það hefur komið hér alveg skýrt fram.
    Hins vegar vefst eitt örlítið fyrir mér. Í öðru orðinu hafa þeir talað þannig að styrkja ætti eiginfjárstöðu fyrirtækisins og ég hef velt því fyrir mér hvort þeir geri þá ekki greinarmun á því annars vegar að selja hlutaféð sem fyrir er og hins vegar því að gefa út nýtt hlutafé. Ef með þessu öllu saman á að styrkja eiginfjárstöðuna þá skil ég það þannig að það sem selt verður af hlutafé eigi ekki að renna til fjármögnunar úr ríkissjóði í gegnum fjárlög. Ástæða þess að ég kom hér upp var að varpa þeirri spurningu fram til þeirra sem hér hafa lýst því yfir að það bæri að stefna að því að selja þarna hlutabréf, hv. 17. þm. Reykv. og 1. þm. Vesturl. Nú sé ég ekki hv. 17. þm. Reykv. Er þá fallið frá þeirri stefnu að fjármagna ríkissjóð með því að selja ríkisfyrirtæki? Ef ég man rétt er í fjárlögum reiknað með 1.500 millj. í tekjur af sölu ríkisfyrirtækja. Nú koma þingmenn og segja: Að vísu á að selja hlutafé en það á að gera til að styrkja eiginfjárstöðu fyrirtækisins. Þetta tvennt fer ekki saman og ég hlýt því að spyrja hvort sé um að ræða stefnubreytingu.
    Svona aðeins að lokum, ef á að selja öðrum hlutabréf til viðbótar og menn hafa vitnað til þess að það hafi verið gert í fleiri fyrirtækjum, þá er það alveg rétt. Það hefur m.a. verið gert í Bifreiðaskoðun Íslands. Þar á ríkissjóður meiri hluta. Það er gerð 25% krafa til arðsemi hlutafjár og þá spyr ég að lokum: Hvað mundi sementspokinn kosta þegar farið væri að reka þetta á sama hátt og gerð 25% krafa til arðsemi hlutafjár?