Sementsverksmiðja ríkisins

152. fundur
Mánudaginn 05. apríl 1993, kl. 13:38:18 (6809)

     Frsm. minni hluta iðnn. (Finnur Ingólfsson) :
    Virðulegi forseti. Að beiðni minni hluta iðnn. varð formaður iðnn., hv. þm. Össur Skarphéðinsson, við þeirri ósk minni hlutans að taka þetta frv. um stofnun hlutafélags um Sementsverkmiðju ríkisins til umfjöllunar í nefndinni milli 2. og 3. umr. á fundi sem haldinn var í morgun. Til þess fundar var fenginn Gestur Jónsson hæstaréttarlögmaður. Það ákvæði frv. sem sérstaklega var fjallað um á þessum fundi snýr að 4. gr. frv. sem hljóðar svo, með leyfi forseta:
    ,,Fastráðnir starfsmenn Sementsverksmiðju ríkisins skulu hafa rétt til að starfa hjá hinu nýja hlutafélagi og skal þeim boðið sambærilegt starf hjá félaginu og þeir gegndu áður hjá Sementsverksmiðju ríkisins. Ákvæði 14. gr. laga nr. 38/1954, um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins, á því ekki við um þá starfsmenn.``
    Nú er vitað að sennilega gildir þetta ákvæði frv. ekki um neinn þann starfsmann sem starfandi er hjá Sementsverksmiðju ríkisins. Hins vegar er hér um grundvallarbreytingu að ræða og sambærilegt ákvæði og það sem hér er til umfjöllunar er í fleiri frumvörpum sem nú liggja fyrir þinginu, m.a. frv. um Þvottahús Ríkisspítalanna þar sem gert er ráð fyrir að gera það að hlutafélagi. Einnig er búið að lögfesta sambærilegt ákvæði í lögunum um Síldarverksmiðjur ríkisins.
    Með þessari hegðan sinni er ríkisstjórnin að kippa út ákveðnum hópum starfsfólks og setja um þá sérstök lög á meðan hún treystir sér ekki til og hefur reyndar gert um það samning við Bandalag starfsmanna ríkis og bæja að breyta ekki lögunum um réttindi og skyldur opinberra starfsmanna. Hins vegar sú leið valin að taka ákveðna hópa og setja alveg sérstök lög á þá hópa þegar ákvæði, sem getið er um í lögunum um réttindi og skyldur opinberra starfsmanna eins og biðlaunaréttinn, eiga að taka gildi. Þarna er að mati hæstaréttarlögmannsins verið að brjóta 67. gr. stjórnarskrárinnar um eignarréttinn, þ.e. að gera ekki almenna lagabreytingu heldur taka út einn ákveðinn hóp og setja sérstök lög á þann hóp. Það varð því sama niðurstaða í þeirri umræðu í nefndinni og áður hafði komið fram hjá hæstaréttarlögmanninum Gesti Jónssyni að þarna væri í fyrsta lagi um að ræða brot á 67. gr. stjórnarskrárinnar og svo hitt að ekki væri hægt að tala um sambærilegt starf eins og gert er ráð fyrir í 4. gr.
    En vegna þess að nú hefur verið lögfest ákvæði um Síldarverksmiðju ríkisins og ljóst að það mál mun fara til umfjöllunar dómstóla er auðvitað eðlilegast að doka við og sjá hver verður niðurstaðan í því máli áður en menn flana að frekari ákvörðunum í þessum efnum.
    Með dómi frá júní 1992 um Orkustofnun er nú verið að ganga frá samningum við starfsfólk stofnunarinnar þar sem ríkið er að greiða fyrir biðlaunarétt svo hundruðum þúsunda króna skiptir. Það er ekki skynsamlegt við þessar kringumstæður að halda lengra í bili heldur sjá til hvað út úr máli Síldarverksmiðja ríkisins kemur. Þess vegna er það enn okkar tillaga í minni hluta iðnn. að þessu máli verði vísað til ríkisstjórnarinnar til frekari skoðunar.