Ráðning framkvæmdastjóra ríkissjónvarpsins

152. fundur
Mánudaginn 05. apríl 1993, kl. 16:54:19 (6879)

     Landbúnaðarráðherra (Halldór Blöndal) :
    Hæstv. forseti. Það kemur mér satt að segja mjög mikið á óvart hversu hörð viðbrögð það hefur fengið að hæstv. menntmrh. skuli hafa skipað Hrafn Gunnlaugsson framkvæmdastjóra nú í forföllum Péturs Guðfinnssonar til eins árs. Má raunar segja að þau mótmæli sem hér hafa verið mjög uppi höfð lýsi sér hjá sumum mönnum með þeim ummælum Össurar Skarphéðinssonar, þegar hann spyr, enda kunnugur gerska ævintýrinu, hvort Stalín sé ekki hér. Auðvitað vitum við það þegar við tölum um málefni lista og kvikmynda almennt í landinu að uppi hafa verið mjög hörð átök milli þeirra manna annars vegar sem hafa verið lýðræðislega þenkjandi og hins vegar hinna sem hafa lotið leiðsögn erfingja Kristins Andréssonar í menningarmálum. Má raunar spyrja fyrrv. fjmrh. að því þegar hann talar um óeðlilegan stuðning við list í landinu hvort ekki væri rétt að hann kæmi hingað og rifjaði upp hvaða samning hann gerði við flokksbræður sína í Svörtu á hvítu meðan hann var fjmrh. Sú tilhneiging sem hér hefur komið fram með mjög óskammfeilnum og ég vil segja undarlegum hætti, að draga listastarf hins nýja framkvæmdastjóra inn í þessar umræður eins og gert hefur verið, er auðvitað mjög ósmekkleg, óvenjuleg og á ekki heima hér í þessari stofnun.
    Það má auðvitað halda því fram að í því felist viss dirfska að velja listamann til þess að vera framkvæmdastjóri sjónvarps. En ég hélt að þeir menn sem vildu kenna sig við listir í landinu yrðu allra síðastir til að finna að því og ég fullyrði það að ýmsir þeir sem hér hafa talað um samstarfserfiðleika hafa sjálfir reynt hvað það þýðir að valda slíku meðal samstarfsmanna sinna. Ég held að það sé nauðsynlegt að þetta komi fram fyrst verið er að kasta steinum í þessa átt.
    Hitt liggur auðvitað alveg ljóst fyrir og er hálfbroslegt raunar að formaður þingflokks Alþfl. skuli segja það hér að það sé sérstök skylda á ráðherrum Sjálfstfl. að bera það undir Alþfl. þó þeir ráði menn um stundarsakir í þær stofnanir sem þeir bera ábyrgð á. Þetta eru auðvitað hálfgerð ómagaorð og formanni þingflokks Alþfl. síst til sóma.
    Ég vil svo segja það að síðustu að allur aðdragandi þessa máls er mjög undarlegur. Það er engin ástæða til þess og ég mun ekki taka undir þær hrakspár sem sumir hafa hér haft gaman af því að hafa uppi um framtíð Ríkisútvarpsins. Ég þykist vita það að Hrafn Gunnlaugsson er þeim vanda vaxinn sem honum hefur nú verið trúað fyrir og ég óska honum heilla í því vandasama starfi sem hann tekst nú á hendur.