Tollalög

152. fundur
Mánudaginn 05. apríl 1993, kl. 18:09:42 (6886)

     Frsm. minni hluta efh.- og viðskn. (Kristín Ástgeirsdóttir ):
    Virðulegi forseti. Hér er nú komið á dagskrá til 2. umr. eitt af hinum fjölmörgu EES-málum, þ.e. frv. sem felur í sér breytingar sem verða að eiga sér stað verði samningurinn um EES að veruleika. Þau lög sem hér eru til umræðu eru um breytingar á tollalögunum og ganga út á það að hér er verið að koma á vörugjöldum í stað tolla og jafnframt að teknir eru upp svokallaðir ytri tollar, þ.e. gagnvart innflutningi frá ríkjum sem eru utan hins Evrópska efnahagssvæðis.
    Hv. efh.- og viðskn. stendur ekki einhuga að þessu máli heldur skilum við í stjórnarandstöðunni minnihlutaáliti sem er svohljóðandi:
    ,,Nefndin hefur fjallað um málið á fjölmörgum fundum. Mál þetta snýst um að breyta tollum í jöfnunargjöld til að fullnægja ákvæðum í viðskiptasamningum. Hvað það snertir er ekki um að ræða efnislega breytingu á gjaldtöku á innflutningi. Ríkisstjórnin og meiri hluti Alþingis hefur hins vegar kosið að nota þetta tækifæri til þess að koma á ytri tollum gagnvart iðnaðarframleiðslu frá öðrum löndum en þeim sem mynda hið Evrópska efnahagssvæði. Þar er um að ræða pólitíska ákvörðun sem ekki er gerð krafa um í samningnum um hið Evrópska efnahagssvæði. Afleiðing af þessu er sú að vörur frá Evrópu lækka í verði á meðan vörur annars staðar frá hækka. Benda má á að í frumvarpi til laga um vörugjald af ökutækjum, eldsneyti o.fl., þar sem lagðar eru til breytingar á tollum á bifreiðum og eldsneyti í jöfnunargjöld, er ekki lagt til að beitt sé ytri tollum sem staðfestir að engin krafa er gerð um að svo sé gert.
    Í breytingartillögum meiri hluta nefndarinnar er lagt til að vörugjöld á byggingarefni séu felld niður. Það verður að teljast til hagsbóta fyrir íslenskan byggingariðnað og styður minni hlutinn þá breytingartillögu. Þá er einnig í frumvarpinu nauðsynlegar heimildir til töku jöfnunargjalda í landbúnaði, en allt er óljóst um hvernig þeim verður beitt.
    Minni hluta nefndarinnar þykir rétt að ríkisstjórnin beri ábyrgð á þeirri pólitísku stefnumörkun sem felst í frumvarpinu og minni hlutinn á engan þátt í og mun hann því sitja hjá við lokaafgreiðslu málsins.``
    Því er við þetta að bæta, virðulegur forseti, að í þessu frv. eins og ýmsum öðrum sem hér hafa verið til meðferðar vegna EES-málsins er að finna ýmislegt skringilegt sem við þurfum að taka í lög og gera ráð fyrir í okkar lagabálkum eins og það til dæmis að í tollskránni séu tollnúmer á skriðdrekum sem nú virðist vera heimilt að flytja inn og munu reyndar vera til í landinu frá fornu fari. En vonandi verður ekki um innflutning á þeim að ræða og vonandi að aldrei komi til þess að hér þurfi að nota slík tæki.
    Að öðru leyti er ekki meira um þetta mál að segja. Hér eru margar eðlilegar breytingar á ferð en það er ekki síst sú pólitíska stefna sem hér er mörkuð með ytri tollum og því að greina á milli hins Evrópska efnahagssvæðis og annarra heimshluta sem veldur því að við treystum okkur ekki til að styðja þetta frv.